<$BlogRSDUrl$>

2006-06-30

diskurinn 

enn um Landsbankagjöfina (ætli þetta sé svona inverse afmælisgjöf)? Hann bara batnar við hverja hlustun. Lögin fín og textarnir eftir hann Braga Valdimar tóm snilld eins og venjulega.

Hef aldrei heyrt um höfundinn (saxófónisti sem heitir Eyjólfur Þorleifsson) en svei mér þá ef hann er ekki bara efni í nýjan Jón Múla ef hann heldur áfram að pússa. Og þetta var mikið hrós ef einhver áttar sig ekki...

útlandarigning 

það er svoleiðis hér fyrir utan gluggann minn núna. Ég er ekki á leiðinni út.

svo vorum við Jón Lárus að fá sendan disk frá Landsbankanum, sem Vörðufélagar. Óvenjulega smekkleg gjöf, þessi fíni djassdiskur. Alltaf að fá sendar einhverjar gjafir, það liggur við að ég sé með samviskubit yfir þessu, þar sem við notum þessa reikninga svo til ekki neitt, launin mín eru lögð inn á minn reikning og ég færi þau beint yfir á Netbankareikninginn minn, allt nema lífeyrissparnaðinn sem er tekinn út af þessum.

En bara liggur við.

2006-06-29

húsmæðraorlofið 

er farin að hlakka gífurlega til að komast í Skálholt. Jú, þetta er heilmikil vinna, maður syngur meira og minna allan daginn en þvílíkur lúxus, allt eldað ofan í mann (yfirleitt snilldarmatur), tvisvar í vikunni þarf að taka þátt í uppvaski og frágangi. Mhmmm. Heitir pottar og (vonandi) smá sól.

leiðinlegt 

var búin að skrifa hundleiðinlegt blogg um heimilisstörf dagsins en ákvað að sleppa mínum kæru lesendum við þann lestur. Er þó að affrysta ísskápsómyndina (uss, ljótt að segja, fengum þennan fína ísskáp í brúðargjöf frá tengdó - en það eru 17 ár síðan og hann er bara búinn).

Snilldarveður, eitthvað annað en spáin. Humm. Grill? Og það er ekki til að fá manninn til að sjá um eldamennskuna, ólíkt greininni hennar Möggubestrar í Blaðinu í dag; minn kall eldar oft inni líka.

2006-06-28

já, og 

La Vida reddaði síðustu afmælisgjöfinni. Stórhættuleg búð, enda stóðst ég ekki að kaupa eitthvað handa okkur þar líka.

jíha 

og það er miðvikudagur, þau kvöld eru lögð undir gláp á ómerkilegt sjónvarpsefni. Já, ég játa, ég horfi bæði á Project Runway og ANTM. Catty bitching á fullu í báðum þáttum, Nicky Hilton heiðursgestur, já, þetta er hár standard, maður! Frábært.

ferfalt afmæli 

kaffi á eftir, búin að redda 3 afmælisgjöfum en á eftir þá síðustu. Eins gott að þau baki 4 afmæliskökur :-D

annars er allt klárt fyrir Skálholt. Ekki alveg glöð með suma bassana mína, ekki góð latína að láta mann ekki vita fyrr en á síðustu stundu (og einn meira að segja ekki fyrr en ég hringdi til að tékka á því hvort hann yrði ekki pottþétt með, þar sem ég var ekkert búin að heyra frá honum og hann hafði ekki mætt á æfingar). Reddast samt, ég var með hjartað í buxunum að hringja í þann síðasta, sem hafði ekki verið viss um að hann gæti, en ætlaði að reyna allt. Sem betur fór gat hann svo reddað þessu og verður með. Það er nefnilega ekki svo gott að fá fólk til að fórna viku af sumarfríinu sínu þegar það er bara vika til stefnu. Langflestir búnir að gera áætlanir, eðlilega. Hrumpf.

En ég læt mína fjóra traustu duga, hefði helst viljað hafa fimm. Eins gott að flotta músíkin sem við erum að syngja skiptist nær ekki neitt, það hefði verið verra.

2006-06-27

upplestur 

smá plögg, endilega kíkja á þetta:

2006-06-26

drattaðist 

í ræktina um hádegisbil og er þess vegna núna alveg að leka út af. Enginn sem ég þekki á við þetta vandamál að stríða, en ég verð alltaf alveg hrrrikalega þreytt. Vill til að ég er ekki að kenna núna, átti stundum í rosalegum vandræðum að halda mér uppi í kennslunni.

Getur einhver ímyndað sér hvernig stendur á þessu?

2006-06-25

ég get svo svarið 

að ég á ekki eftir að grennast í dag. Eins gott að eiga ekki talandi vigt eins og Grettir.

Engin ósköp fyrri hluta dags en svo voru tvö barnaafmæli síðdegis. troðið í mann á báðum stöðum. Hvað er með að búa til allt of mikið af mat í svona boð?

Reyndar var þetta ósköp pent og passlegt (og náttúrlega gekt gott, allt saman) hjá Ragnheiði Dóru litlufrænku en hrúgurnar af mat á seinni staðnum - úff! Við vorum síðust út og á okkur var troðið ókjörin öll af afgöngum. Ekki viss um að við þurfum að elda annað kvöld. Að minnsta kosti er hádegismaturinn á morgun í hendi.

Formúlan var tekin upp fyrir okkur en svo gerði ég hin gígantísku mistök að fara inn á netmoggann og sá hvernig þetta endar. Súrt. Og súrt :-/

2006-06-24

París 

here we come :-D

Pöntuðum ferð fyrir okkur hjónin og nýfermda unglinginn, síðustu helgina í september. Nú er bara að hlakka til. Eigum eftir að finna húsnæði og svoleiðis, ekki ólíklegt að ég leiti á náðir Parísardömunnar með að finna eitthvað gott.

hvað er með 

að merki Apótekarans sé eiginlega alveg eins og Bónusmerkið. Lyf og heilsa eiga Apótekarann, (Karl Verners og kompaní, ég held að Baugur eigi ekkert í þeim, án þess að vera viss, reyndar) Bleikur (mannlegur) apótekaragrís á gulum grunni.

Sem minnir mig á að það er sárt að Lyf og heilsa eru líka búin að kaupa Lyfjaver. Muuuu! Einu sinni keyptum við alltaf allt apótekadótið í Hringbrautarapóteki. Svo keypti Lyf og heilsa það og lagði niður. Jón Lárus vann slatta fyrir Lyfjaver, sérstaklega þegar þeir voru mestanpart í pökkun og þannig, við færðum viðskiptin þangað. Svo var það líka keypt. Hvað er með Samkeppnisstofnun?

Ekki mörg apótek eftir sem Lyf og heilsa eða Lyfja eiga ekki. Rimaapótek (fulllangt), Árbæjarapótek (líka verulega úr leið) og hvað heitir nú aftur apótekið við Réttarholtsveg? Eða Sogaveg. Það er erfitt að vera conscientious neytandi á lyfjamarkaði þessa dagana. Sérstaklega með Lyfju Laugavegi í tveggja mínútna göngufæri frá okkur...

omg 

var að komast að því áðan að ég var að djamma með syni góðs vinar míns (og stjúpsyni enn betri vinkonu) í Köben og ég FATTAÐI það ekki.

er maður að verða gamall, eða kannski bara alls ekki?

2006-06-23

veður 

maður er fljótur að gleyma súra veðrinu undanfarið um leið og sólin sýnir sig. Hvítvínsveður, segir Nanna, þar er ég sammála, ein hvít komin í ísskápinn og spennandi tilraunauppskrift á planinu fyrir kvöldið. Þarf að fara út og kaupa bókhveiti í krepurnar. Hmm. Hvort ætli sé betra að steikja krepur á pönnukökupönnu eða stóru teflonpönnunni (fyrir nú utan stærðina)

2006-06-22

það er einhver 

að halda tónleika á klukkur Hallgrímskirkju í augnablikinu. Mikið fegin að þær skuli ekkert pirra mig, eins og suma...

mig grunar 

svo grimmt að nú eigi að fresta blessuðu tónlistarhúsinu, fréttir og skoðanakannanir upp á hvern dag. Það á sko að bjarga fjárhag þjóðarinnar og koma slyðruorðinu af stjórnvöldum með þessu. Aulinn í Botnleðju tekur undir og auðvitað fíbblin á Vefþjóðviljanum (þann vef reyni ég alltaf að lesa af og til þar sem það er öllum hollt að kynna sér málflutning þeirra sem eru á öndverðri skoðun. Get hins vegar aldrei lesið mjög lengi, ég fer alltaf í svo skelfilega vont skap af því).

Svo þegar þessu hefur verið frestað má halda áfram með álveravæðinguna af fullum krafti, því við frestuðum jú tónlistarhúsinu.

Hvers vegna heyrist aldrei þessi söngur þegar byggð eru endalaus íþróttamannvirki út um allt?

Heilbrigð sál í hraustum líkama, jú við erum búin að hlaða undir hrausta líkamann í hundrað ár, nú er komið að heilbrigðu sálinni.

Ég skora á nýjan borgarstjóra og fjármálaráðherra, já og menntamálaráðherra, þó ég styðji ekki þeirra flokk, til að hlusta ekki á þetta, heldur halda sínu striki.

2006-06-21

Algjör skylda 

að skella sér hingað. Jamm!

búin :-D 

aaalveg búin núna. Alltaf mega tilfinning að ganga frá nýju verki. Nú þarf ég bara að prenta út og rukka. Reyndar búin að senda flytjendunum nótur, það er ekki smá þægilegt að geta bara geymt skjölin í .pdf formati og sent þau beint þegar þau eru tilbúin. Ekkert vesen (og allt í góðu lagi...)

Þá er að fara út í góða veðrið (loksins), langþráð sumarhátíð á Grænuborg, stelpurnar fóru fyrir mig til að labba með Finni í skrúðgöngunni svo ég gæti nú klárað. Ætti að ná í skottið á þeim.

klukk 

langt síðan einhver svona leikur hefur gengið. La parisienne klukkaði mig.

1. Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Almáttugur! Það veit ég ekki. Fullt af bókum sem hafa haft mikil áhrif á mig, Lord of the Flies, To Kill a Mockingbird, nú verð ég að fara að drattast til að lesa Draumalandið svo ég geti nefnt hana.

2. Hvernig bækur lestu helst?

Viðurkennist hér með: Ég er léttmetislesari að mestu, krimmar og sf/fantasy í uppáhaldi. Les samt allan fjárann. Ljóð í vinnunni.

3. Hvaða bók lastu síðast?

Hmm. Meint hvaða bók ég kláraði síðast eða hvaða bók ég er að lesa núna? Síðasta bók sem ég kláraði var líklega Svo fögur bein, eftir Alice Sebold. Sífellt með tárin í augunum, alltaf að leggja hana frá mér því ég gat ekki lesið meira. Svo gat ég heldur ekki annað en tekið hana upp aftur og kláraði á endanum. Núna er ég að lesa The Devil's Feather eftir Minette Walters. Ekki komin langt en bókin lofar góðu.

EKki nokkur leið að velja bara fjóra til að klukka, gæti tekið 20. Klukka Hallveigu, Syngibjörgu, Önnu K, Jón Lárus og Þorbjörn. Já og hún Freyja er að panta klukk, bæti henni við.

2006-06-20

næstum því 

búin með fiðludúettaseríuna, á svona hálfa mínútu eftir af áttunda dúett. Reyndar hrúgast á mig verkefnin, ég hef varla undan. Kom mér út úr útvarpsþættinum, maður verður að hafa smá vit fyrir sér. Best að halda mig á eigin vígvelli. Næsta verkefni líklegast píanótríóið.

Sinfónían svo alltaf í gangi með.

þetta er skemmtileg vinna :-)

2006-06-19

við mæðgur 

fórum misbleikar í Smáralind dauðans í morgun, Fífa þurfti að skipta afmælisgjöf í næsta númer fyrir neðan. Sá engan annan bleikklæddan. Ussu suss!

2006-06-18

Hvað er þetta með... 

að það sé bara annaðhvort hægt að byggja okkar elskulega langþráða (síðustu 75 ár amk) tónlistarhús eða þá að búa almennilega að öldruðum?

Getur ekki þessi forríka þjóð okkar séð um fólkið sem lagði grunn að góðærinu, alveg burtséð frá því hvort eitt hús í viðbót - jú, dýrt hús en það er ekki eins og dýr hús hafi ekki risið hér áður - sé byggt niðri við höfn?

Svo er hins vegar annað mál með hvernig var staðið að öllu lóðarmálinu þarna niðurfrá. Mér finnst reyndar fínt að Listaháskólinn fær þarna lóð, en þessir dílar mættu samt alveg hafa verið betur uppi á borðinu.

Ammlið 

búið, nauðsynlegt að bjóða heim fólki, maður neyðist til að taka íbúðina í gegn. Of langt síðan síðast. Nú voða fínt hjá okkur. Henti meira að segja þvottahrúgunni á rúmið þannig að ég neyðist víst til að ganga frá henni áður en ég fer að sofa (hmm, það má náttúrlega sofa á sjónvarpssófanum...)

Skrúðgangan og bæjarferðin í gær voru bara fín, fengum okkur sveitta hamborgara og bjór í tjaldi við Thorvaldsen og hlustuðum síðan á Bardukha, þeir eru tótal snilld út í gegn. Ég held ekki að við höfum orðið okkur til skammar þegar allir áttu að syngja með, en dætrunum þótti við nú samt svo vandræðaleg að þær flúðu úr tjaldinu (nei, ég var ekkert komin upp á borð, neitt) Unglingaveiki, hvað :-D

Ingunn frænka var ásamt nokkrum öðrum úr hönnunardeild LHÍ að sjá um að gefa fólki þjóðlegar tertur og leyfa því að skoða risakökur í Gallerí Gyllinhæð. Nokkuð flott bara.

2006-06-17

skyndi 

ákvörðun var tekin í dag um að halda unglingsafmæli á morgun. Frökenin var búin að halda stelpuafmælið, við vorum svo vondir foreldrar að við vorum í burtu á afmælisdaginn sjálfan, mamma vinkonunnar sem hún gisti hjá bauðst til að halda bekkjarafmæli. (Henni skuldast amk. ein fín kampavínsflaska). Ömmu- og afapakkinn eftir. Við erum ekki einu sinni búin að bjóða öllum, vonandi enginn verði móðgaður yfir að vera boðið samdægurs.

Bakaði engar pönnukökur í dag, en úr því verður bætt á morgun. Maður getur að minnsta kosti boðið upp á nýja rabarbarasultu.

gleðilega þjóðhátíð :-) 

og til hamingju með að það er hætt að rigna - í bili.

farin í skrúfgöngu

2006-06-16

ég vorkenni 

okkar nýju ríkisstjórn

Hún er skipuð svo seint á kjörtímabili að hún hefur ekki nokkurn tíma til að gera alla óvinsælu nauðsynlegu hlutina þar sem það er svo stutt í kosningar að kjósendur verða ekki búnir að gleyma neinu.

og fleira 


fyndið á þessari síðu.

eitthvað 

ætlar líkamsræktarátakið (já, átak, ég sé mig ekki fyrir mér gera þessi leiðindi að lífsstíl) að fara hægt af stað hjá mér. Fór á mánudaginn en hef ekki farið síðan. Ætlaði reyndar pottþétt í morgun, prófa einhvern jógalates tíma (blanda af jóga og pílates, en hljómar eins og eitthvað sem maður gæti fengið á Starbucks), bíllinn er á verkstæði og Hallveig gat ekki náð í mig og ekki glætan að ég nennti að labba með hlussu íþróttatöskuna mína inn í Bolholt í rigningunni og rokinu. Dæmigert, reyndar, að nenna ekki að lyfta sínum þunga afturenda frá stól til að komast í ræktina.

Svo við Freyja gerðum bara rabarbarasultu í staðinn eftir að hafa (jú, reyndar) tölt með litla gaur í leikskólann. Namm!

2006-06-15

smábarnamál 

Ég á afskaplega erfitt að sætta mig við þegar fólk getur ekki talað almennilegt mál við börn. Hvað þá fullorðna. Finnur kom heim í gær af leikskólanum, þau höfðu farið á Brúðubílinn og fengið þar að sjá sýninguna Duddurnar hans Lilla.

Nei, ég er ekki að grínast. Duddurnar. Sjálfsagt gengur Lilli (api, held ég) um á táslunum og svo er Litli kjúllinn besti vinur hans.

afsakið mig en ég fæ grænar ferkantaðar milli tánna.

2006-06-14

rændi 


þessum frá Hrefnu

jahá! 

spurning um að fara að drekka kaffi?

villiköttur 

stelpurnar fundu villikött með þrjá kettlinga, búna að koma sér fyrir undir gámi hér við næsta hús. Að sjálfsögðu búnar að nefna alla kettina og eru alltaf gefandi þeim að éta.

Ekki séns að við ætlum samt að fara að taka að okkur 4 ketti í viðbót. Ekki einu sinni einn af kettlingunum!

Hvað gerir maður í svona stöðu?

(Bælið er reyndar undir sama gámnum og klikkaða kanínan Snúlla (gott nafn á barnabók?), fyrrverandi gæludýr hér á bæ bjó undir í nokkra mánuði eftir að hún slapp endanlega. Nokkuð viss um að hún fór ekki í Öskjuhlíðina, fulllangt)

hlustaði 

á Húgó sálfræðing í úbartinu í morgun segjandi okkur að krakkarnir ættu ekki að eiga alveg frí of lengi, þá yrði það að hangsi og engum hollt. Þannig að ég setti miðbarninu fyrir að æfa sig á sellóið í hálftíma á hverjum degi (burtséð frá öðru sem hún og systkini hennar gera hér á heimilinu) Það væru nú ýkjur að segja að hún hafi verið sérlega hrifin, en ætlar nú samt að standa við þetta. Byrjaði í dag og það var víst eiginlega alls ekkert svo leiðinlegt. Unglingurinn er í vinnuskólanum og lætur ekkert illa af sér, ég væri nú samt alveg til í að hún væri ekki akkúrat að reyta arfa á Valsvellinum (annálaður antiValsari sem ég er, ennþá meira en antisportisti. Í minnihluta á heimilinu samt)

Sem minnir mig á annað tveggja sem nýi borgarstjórinn ætlar að leggja áherslu á. Að hreinsa til í borginni. Svolítið ódýrt markmið að koma með, akkúrat þegar vinnuskólinn og bæjarvinnan eru að byrja, þetta er jú gert á þessum tíma árs á hverju ári, ekki satt?

2006-06-13

In memoriam 


Eitt af áhrifamestu tónskáldum tuttugustu aldarinnar er genginn. György Ligeti var frá Ungverjalandi en bjó lengst af í Þýskalandi. Ég rétt missti af því að ná að læra hjá honum, hann kenndi í Hamborg áður en ég fór þangað í nám.

Tónlistin hans var kannski ekki sú auðveldasta fyrir óvana en þegar maður kafaði ofan í verkin mátti heyra hvað þau voru frábær. Ég spilaði bara einu sinni verk eftir hann, á hljómsveitarnámskeiði fyrir tuttuguogfimm árum, það dugði til að ég áttaði mig á hvað hann var magnað tónskáld.

þessi hér segir allt það sem ég kann ekki að segja.

2006-06-12

fyrsta 

æfing í kvöld á verkunum fyrir Skálholt í sumar. Verkin hljóma bara feikivel en mig vantar amk einn tenór, helst tvo og einn bassa. Hjáááálp!

Fífan 

mín kemur heim í dag, mikið verður gaman. Tómlegt að vera unglingslaus þó ekki sé nema yfir eina helgi eða svo.

2006-06-11

tiltekt 

já, bæði hér heima (þvottahúsið nánar til tekið) og svo tenglalistinn. Nokkrir alvöru aumingjar teknir út ásamt tenglum sem voru hættir að virka. Ekki veitir af, nóg er af þessu drasli.

nú ætti elsta afkvæmið að vera búið með lokatónleika starfsársins og sem sagt komin í sumarfrí. Þar til hún byrjar í unglingavinnunni, ekki á morgun þar sem hún verður ekki komin heim úr kórferðalaginu, heldur á þriðjudaginn. Svo er bara að vona að vinnuskólinn standi undir nafni. Veit ekki margt meira mannskemmandi en vinnu sem maður lærir að slóra og koma sér undan. Það var svo sem kannski ekki mjög mikið um slór í minni unglingavinnu en ég þótti frekar skrítin að nota mér ekki alla veikindadagana sem ég átti rétt á, á mánuði.

úthald 

nei, ekki á okkur. Partí uppi á lofti enn í gangi (rúmlega hálfníu á sunnudagsmorgni)

Allt í fína með það, þar sem við sofum niðri á jarðhæð og það er heil hæð á milli, annars er mjög hljóðbært hér. En það er talsvert síðan við misstum svona úthald. Héldum út til fimm einhvern tímann í vetur en það gerist nú ekki oft heldur.

2006-06-10

fann 

dóm um dökka Budvarinn. Nú langar mig í eina svona:

áfall 



Urðum fyrir áfalli í Heiðrúnu áðan. Haldið þið ekki að uppáhalds bjórinn okkar sé ekki hættur að fást! Og við sem vorum að enda við að kaupa glös merkt honum :-(

tónleikarnir búnir 

voru mjög skemmtilegir, sérstaklega verk sem ég hef aldrei heyrt áður, klarinettukvintett eftir Jean Francaix. Verkið frá 1977 en alls ekki dæmigert 1977 stykki. (hint: það tímabil er ekki beinlínis í uppáhaldi hjá mér í mínu fagi) Verð að útvega mér upptöku af þessu. Kíki á Amazon.

Örugglega líka verið skemmtilegt fyrir austan.

Og hvað er með þessa rigningu? Ég sem ætlaði að grilla.

erfið ákvörðun 

hvort ætti ég nú að fara austur á Sólheima og hlusta á Hallveigu og Árna Heimi á tónlistarhátíðinni hennar Þóru, eða fara á 15.15 í Norræna húsinu og hlusta á Hildu og Sigga frændsystkini mín? Hmmmm.

(the point is moot, reyndar, ég er of sein að fara af stað austur. En fimmtánfimmtán verður pottþétt líka gaman)

2006-06-09

kisa 

svo maður haldi áfram með tilkynningar af smá„fólkinu“ í fjölskyldunni þá komst kötturinn í feitt í morgun. Við vorum að fara að skutla Fífu í kórferð, kisa tölti með okkur út að bílnum sem var parkerað á Bjarnarstíg. Nema hvað, á Njálsgötugangstétt rétt fyrir ofan Bjarnarstíginn sáum við annan kött eltast við eitthvað sem okkur sýndist fyrst vera rotta. Leist náttúrlega takmarkað á það. Smá eltingarleikur en þegar hann barst nær okkur sáum við að þetta var bara stór mús, jafnvel heimilisdýr hlaupið að heiman. Loppa tók þá fyrst eftir mýslu og yfirtók algerlega veiðina. Bráðfyndið að horfa á bæði músina og kettina, Loppa hefur nefnilega hingað til yfirleitt látið í minni pokann fyrir öðrum köttum en þarna var hún greinilega ekki neðst í goggunarröðinni.

Músinni náði hún samt ekki almennilega þó hún hafi náð að slengja í hana loppu eitt eða tvö skipti. Litla dýrið slapp inn undir bílskúrsdyr á Bjarnarstígnum. Örugglega til mikils fagnaðar bílskúrseiganda...

sá litli 

sem er reyndar ekki að verða svo lítill lengur, hættir á leikskólanum sínum eftir mánuð. Skólinn í haust. Þarf að nota lepp aftur, latt hægra auga eins og síðast. Ágætt að klára það áður en hann fer í skólann.

2006-06-08

vá! 

hvað Blogger ræfillinn er seinn og lasinn þessa stundina. Vonandi að maður nái í gegn.

Var á hinum fínustu tónleikum áðan, Fífa var að syngja með Graduale, kórinn í fantaformi. Þau eru að leggja af stað í ferðalag kring um landið í fyrramálið. Tónleikar í Glerárkirkju á laugardag klukkan 15.00 og svo í Eskifjarðarkirkju á sunnudag klukkan 14.00. Endilega kíkið ef þið eruð fyrir norðan eða austan á þessum tíma, meira en vel þess virði.

kötturinn 

þóttist vera svangur í morgun og var eitthvað að væla. Ég tók ekki í mál að gefa henni fyrr en hún lærði að tala

2006-06-07

GARG 

ekki það að þetta hafi ekki svo sem verið gefið mál!

2006-06-06

asnaðist 

til að taka að mér stjórn á einum útvarpsþætti í sumar. Upptökur núna í júní. Dettur náttúrlega ekkert í hug til að tala um. Held ég sé biluð...

2006-06-05

Steinríkspöbbinn á Vesterbro 

Við fengum nú ekki heilgrillaðan villigölt þarna, skil þetta ekki alveg.
við fengum nú ekki
Originally uploaded by hildigunnur.

haha 

þokkaleg innrás sem ég hef gert á Mikka í kvöld :-)

2006-06-04

þessa tók Finnbogi 

af okkur Hallveigu með Vigni og fleirum. Þarna á Charlie's í Kaupmannahöfn fékk ég svei mér þá besta bjór ferðarinnar. Dökkan Budvar. Fundum hann hvergi í Prag :-( TimeOut ferðabókin mælti sterklega með þessum bjór - ef maður væri nógu heppinn til að finna hann einhvers staðar.

Verst að ég gat ekki bara farið með Jón á Charlie's, þeir eru með mismunandi bjór á krana á hverjum degi þannig að það var frekar ólíklegt að við fengjum hann aftur. Kannski úr flösku, veidiggi.

pöbbarölt
Originally uploaded by hildigunnur.

Á Steinríkspöbb 

ég var búin að segja að við hefðum drukkið mikinn bjór í ferðinni (enda sagði það til sín á vigtinni, arrg!). Þessi glös voru oooofboðslega flott, sníkti eitt á pöbbnum. Spurði hvort ég mætti kaupa eitt, barþjónninn sagðist ekki mega selja þau. Ég: En það hefði nú getað dottið í gólfið og brotnað. Hann: Já, það er víst alveg satt! Rétti mér hreint glas og blikkaði. Snilld.

Komum reyndar heim með sex glös, tvö frá Köben og fjögur keypt í souvenir sjoppum í Prag. Tvö Krusoviče, eitt Kozel, eitt Gambrinus, eitt Staropramen og svo þetta Porterglas

Á Steinríkspöbb
Originally uploaded by hildigunnur.

hafið þið 

séð svona margar fiðlur í einu? Jú, kannski á sinfóníutónleikum en varla uppi á vegg?
og reyndar
Originally uploaded by hildigunnur.

Hvort skyldi þetta vera 

vitsuga eða Nazgúl? Styttan, sko!
Hvort skyldi þetta vera
Originally uploaded by hildigunnur.

kvarttónapíanó 

svona hljóðfæri eru ekki víða til. Enda fáir sem skrifa kvarttónaverk fyrir píanó. Enginn vandi að búa til í tölvu en þetta er heldur eldra.
kvarttónapíanó
Originally uploaded by hildigunnur.

stöðin okkar 

beint fyrir neðan hótelið. Ekki tíu mínútna gang eins og til Hotel Velodrom þar sem við gistum síðast. Ekki heldur hægt að bera hótelin saman á neinn annan hátt. Enda annað fjögra stjörnu og hitt tveggja...
stöðin okkar
Originally uploaded by hildigunnur.

Það var ósjaldan 

sem ég sá þessa stöðu á manninum mínum í þessari ferð. Reyndar kannski ekkert frekar hann en ég en það náðist ekki mynd af mér.
dæmigerð stelling
Originally uploaded by hildigunnur.

Við 

á Kaffi Reykjavík - nei, afsakið Restaurant Reykjavík í Prag.
hjónakornin
Originally uploaded by hildigunnur.

Þetta gæti vel verið 

mjósta hótel í heimi, þetta græna þarna. Ætli sé eitt herbergi á hæð?
mjósta hótelið?
Originally uploaded by hildigunnur.

góður félagsskapur 

Hjörleifur fararstjóri sagði okkur söguna af því hvernig Tycho Brahe átti að hafa dáið. Danir eru víst ekki of glaðir með þá sögu (minnir á feita karlinn í Meaning of Life)
svilar og stjörnufræðingar
Originally uploaded by hildigunnur.

garden 

sáum ekki Kaupmannahafnarútgáfuna þannig að við urðum að notast við þá Pragsku (Prögsku?) Þetta er víst ekki nema svipur hjá sjón miðað við frá fyrir flauelsbyltinguna
gæsagangur
Originally uploaded by hildigunnur.

þetta er nú 

fyndnasta kokkteilnafn sem ég hef lengi séð.
þetta er nú
Originally uploaded by hildigunnur.

moi 

á leið niður úr Pragarkastala. Skemmtileg gata, ekki allt of túristaleg.
moi
Originally uploaded by hildigunnur.

Sáum þennan 

hoppaði í kring um okkur, mikill áhugi á skemmdu kirsuberi sem Jón Lárus hafði hent frá sér rétt hjá okkur. Endaði á því að voga sér í berið, eldsnöggur. Gáfum honum svo aðeins meira.
skjór
Originally uploaded by hildigunnur.

Síðasta myndin 

tökum þetta aftur á bak.

Þetta er við vötnin í Köben, nýhreinsuð og fín. Mætti alveg skoða að gera sama við drullupollinn í miðborg Reykjavíkur.

montin af hrósinu sem ég fékk fyrir myndina, reyndar, hrósandinn á gífurlega flottar seríur á flickr sjálfur :-)

Við vötnin
Originally uploaded by hildigunnur.

Hvítasunnudagurinn 

fór í leti langt fram eftir degi en síðan var gengið frá upp úr öllum töskum og pinklum. Lagði inn í Flickr, það eru reyndar þvílík ókjör af myndum að það er spurning um að pikka nokkrar úr og birta hér, ekki nokkur leið að neinn nenni að renna í gegn um þær allar nema þeir sem voru í ferðinni. Kíki á málið.

2006-06-03

myndlistin 

alltaf gleymir maður einhverju.

Fórum í Louisiana listasafnið í Humlebæk með Irme, sáum sýningu með verkum Baselitz og svo snilldar vídeólistarsýningu, ég hvet alla Danmerkurbúa og þá sem eru á leið þangað til að fara og sjá hana. Ekki séns að fylgjast með henni allri nema maður hafi allan daginn og talsverða þolinmæði en einu verkanna á ég ekki eftir að gleyma svo lengi sem ég lifi. Er eftir Bill Viola og hefur með fólk og slow motion og vatn að gera. Magnað stykki.

menningin 

var nú ekkert að telja hana fram áðan:

Ein óperusýning (Jenufa eftir Janácek), hefði verið til í Wagner líka en það átti víst ekki að verða í þetta sinn. Jenufa frábær, keypti mér diska með henni, eru til hliðar við geislann í augnablikinu (já, spilarinn minn er upp á hlið). Vortónlistarhátíð í Prag, maður hafði engan frið fyrir fólki úti á götu réttandi auglýsingabæklinga fyrir klassíska tónleika. Gaman að því. Svolítið mikið Árstíðir Vivaldis og strengjasvítur Mozarts þannig að við létum ekki freistast. Sumt spennandi reyndar en rakst þá á plönin hjá okkur.

Kíkti samt inn í dönsku óperuna, bara nokkuð flott en ég held samt að tónlistarhúsið við Reykjavíkurhöfn verði flottara. Glás og hellingur af byggingarlist í Prag, það er ólýsanlegt. Eitthvað fer inn af myndum þegar ég nenni.

Rest að mestu matar- og bjórmenning, tvö stór útaðborð í Prag, það fyrra dæmigerður tékkneskur kráarmatur, fyrst salat og skinkurúllur með piparrótarkremi, þá þrefaldur aðalréttur, meiri skinka, ekki séns að rúlla þeirri sneið, þykk og mikil, frekar undarleg pylsa og síðan fjórðungur úr önd. Meðlætið sauerkraut, rauðkál og tvenns konar knedlicky. Þetta var fínt, nema knedlikurnar voru ekkert betri en mig minnti frá þarna fyrir 15 árum. Eftir þessu kom síðan ávaxtakaka, ljómandi góð. Þetta var sko léttur málsverður í hádegi. Skolað niður með gífurlegu magni af bjór.

Seinni stóri málsverðurinn var á flottum veitingastað, manni fannst maður vera kominn inn í rússneska bíómynd frá 1950. Frábær matur og flestir fengu fína þjónustu. Forréttur, hmm, hvur dauðinn var nú ofan á klettasalatinu? Haaallveeeiig? Amk furuhnetur og einhvers konar sultaðar appelsínur og safi. Aðalréttur andabringa með stórri ofnsteiktri kartöflu og smá sósu (sauce, ekki sovs eins og Daninn segir). Himneskur eftirréttur, Lilli klifurmús (stracciatellemús), Marteinn skógarmús (súkkulaði) og síðast en ekki síst Mína mús (kaffi, bara snilld). Ómælt hvít- og rauðvín með. Boðið upp á rrrrándýrt koníak í lokin. Loðvík þrettánda. Einföldu skammtarnir í Prag eru ekki mjög stórir.

Vel tipsað í lok kvölds, þó reiknuðum við ekki tíu prósent ofan á koníakstárið, það var feikinógu dýrt (dropinn sem Jón Lárus fékk í glasið kostaði meira en máltíðin með víni fyrir hvort okkar)

Náðum síðan loks í sumaraukann í Köben í gær, keyptum okkur brauð og salat og fórum í sólbað hjá vötnunum. Menning í því líka.

Mætt 

á svæðið, gott að vera kominn heim. Lentum í Keflavík rétt fyrir miðnætti, vélin nær tóm þannig að við höfðum heila röð á mann, fleiri ef við hefðum viljað. Hrúgað á okkur koddum og teppum, ég steinsvaf alla leiðina. Ágætt, bara.

Frábær ferð, annars, skemmtilegur félagsskapur. Fengum snilldar fararstjórn í Prag, einn samkennari minn lærði þar, lóðsaði okkur um borg og bý. Borgin hefur breyst þessi ósköp síðan við komum þangað síðast fyrir fimmtán árum. Talsvert alþjóðlegri, það fór ekki mikið fyrir keðjubúðunum og ítölsku veitingastöðunum, að ég minnist nú ekki á Makkdónalds og KeiEffSí. Ekki endilega til bóta en nú gat maður að minnsta kosti gert sig skiljanlegan.

Gistum á þrem hótelum í ferðinni (fyrir utan eina nótt þar sem við Jón Lárus dvöldum hjá Irme vinkonu okkar í Birkerød). Tvö fín (First Hotel, Vesterbro og Park Hotel í Prag) en Cab Inn í Köben - tja, það var eiginlega kallað Crap Inn, svo sem ósköp snyrtilegt en herbergin voru á stærð við fataskáp, við sváfum í kojum. Ég hef ekki sofið í koju síðan ég veit ekki hvenær. Eða jú, á Hótel Horribilis einu sinni í kórferð, reyndar.

Náði þremur skólaskoðunarferðum, missti af einni.

148 myndir teknar, komnar í tölvuna, nú er að fara í gegn um þær og henda inn í flickr.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?