<$BlogRSDUrl$>

2006-04-30

og hér kemur fjórða og aðalfærsla dagsins 

tja, fimmta, reyndar, gleymdi fiskinu eftir hamingjuóskum þarna í morgun.

Þurfti að skjótast út, einmitt beint eftir að ég henti inn afmælisfærslunni. Átti ekki að verða mikið mál, skjótast með nótur vestur í Sörlaskjól, hann Örn hennar Mörtu frænku spilar með okkur í Hljómeyki á tónleikunum þann 14. maí. Víst betra að vera með nótur. Hitt erindið var að kaupa snittubrauð fyrir heita brauðið, standardinn, fjölskyldan fer í setuverkfall ef við klikkum á því.

Fyrra erindið gekk að óskum, Söngkonan og píanistinn sátu úti í garði að njóta nýfengins sumars í Reykjavík, ég afhenti nótur og tyllti mér í smástund hjá þeim. Var síðan ekki til setunnar boðið, best að drífa sig að kaupa snittubrauðið, heim og halda áfram að undirbúa afmæli. Veit ekki alveg hvers vegna ég fór í Melabúðina, þar var ekki til snittubrauð frekar en ég gat búist við (eitt af fáu sem fæst ekki þar, ekki bakarí á staðnum). Næsta stopp Björnsbakarí við Hringbraut. Þar var svo fullt að ég komst ekki inn um dyrnar. Neibb, ekki nennir maður því. Aftur inn í bíl. Bernhöftsbakarí, annað tveggja hverfisbakaría okkar. Þar voru inni svona 7-8 kúnnar. Meðal annars einn kolsvartur, er ekki í röðinni, stendur úti á miðju gólfi. Ekki málið. Ég aftast í röðina eins og vera ber.

Eftir svona 2-3 mínútur þegar röðin hnikaðist til, gengur sá dökki að röðinni og segir kurteislega, á ensku: Ég held að ég hafi verið á eftir þér, við þann á undan.

Nema hvað, gaur sem stóð beint fyrir aftan þennan verður þetta litla trylltur. Öskrar á hinn: Talaðu íslensku, helvítið þitt!!! Sá svarti verður hvumsa við, skilur ekkert í þessum látum, frekar en við hin þarna inni. Segir, áfram kurteislega og áfram á ensku: Afsakið, ég skil ekki þennan æsing, ég held að ég hafi verið á undan þér inn.

Tekur ekki rasistafíflið upp stól og býst til að ráðast á hinn. (sveiflar meðal annars stólnum nærri framan í mig) Varð nú ekki nema blusterið, þorði greinilega ekki í hann í alvöru, sá svarti bauð hinum út fyrir ef hann vildi í slag. Það gekk nú ekki eftir. Stelpugreyið sem var ein að afgreiða var búin að reyna að reka þennan klikkaða út (tók sérstaklega fram að hún vildi að hann færi, en ekki hinn). Hljóp síðan inn og hringdi í lögregluna (ég var komin með símann fram, reyndar, en sá að hún var að fara að hringja).

Sá svarti fór út, gekk í burtu með barnavagn. Hinn var kyrr inni í smástund spyrjandi okkur hin: Sástu hvað hann gerði, fíflið??? Enginn gaf neitt út á það. Ekki þorði ég að segja nokkurn hlut, hinir líklega ekki heldur.

Hálfvitinn fór síðan út, ég líka (brauðlaus), sá að hann var að svipast um eftir þeim svarta. Ég inn í bíl, inn á Skólavörðustíg, keyrði smáhring og sá þá báða hjá fiskbúðinni Freyjugötu. Mætti lögreglubíl með blikkljósum á leiðinni í bakaríið. Ég til baka í bakaríið. Lét vita hvar þeir voru og að það væri lítið barn í pakkanum. Lögregluþjónarnir beint þangað. Ég aftur í bílinn. Keyrði upp Spítalastíg og sá þá að lögreglan var komin til þeirra.

Svo veit ég ekki meira. Var ekkert að hringsóla meira í kring um þá.

Brauðraununum var síðan ekki einu sinni lokið. Ákvað að fara í Sandholt, hitt hverfisbakaríið, misminnti aðeins staðsetninguna, fattaði það reyndar eiginlega strax en úr því ég var komin áfram Njálsgötuna og gat ekki beygt í átt að Laugavegi fyrr en á Barónsstíg gerði ég það bara.

Þá var auðvitað allt stopp. Laugavegur lokaður við Frakkastíg og ég mjakaðist áfram 2-3 metra á mínútu eða svo. (ennþá með hjartsláttinn eftir Bernhöftsævintýrið). Held ég hafi verið kortér frá Barónsstíg að Frakkastíg. Inn í Sandholt, þar voru bara til snittubrauð með ólifum eða hvítlauk en engin hrein eins og ég hafði annars ætlað að kaupa. NEVERMÆND!!!

heim eftir örugglega einn og hálfan tíma í stað 20 mínútna sem ég bjóst við að sendiferðin tæki...

og #3 

afmælið gekk bara mjög vel, Finnur fékk að bjóða fjórum strákum úr leikskólanum, einn mætti reyndar ekki, svo var samtíningur vina og frændfólks. 10 krakkar í allt. Bionicle uppskeran fín, heilir 5 kallar Eitt í tvítaki, verður farið og skipt í hina gerðina, svo sé sko hægt að búa til einn stóran...

Veðrið sem betur fer gott, eftir hressingu og pakkaopnun var hægt að henda öllu liðinu út að leika, bæði róló og leikskólalóð hér innan 50 metra radíuss. Mikið fegin að krakkarnir eru allir vor/sumarbörn, engin nóvember/desember/janúarafmæli þar sem búast má við öllum veðrum. Mjög oft hægt að senda liðið út og fá rólegheit fyrir ömmuogafapakkann að drekka kaffið í friði.

Nú er verið að raða saman þessum kalli, tvítakið sko. Í beinni útsendingu: Maaaammmaaaa! Paaabbiii; Ég er kominn á blaðsíðu 3! Viltu sjá?

blogg #2 

Jón Lárus þvoði húsið í dag. Það munar strax, vorboðinn ljúfi, fyrstu túristar að taka mynd af húsinu okkar, birtust í dag.

vá! 

nú á ég efni í margar færslur.

Fyrst aðalfundur og árshátíð Tónskáldafélagsins í gærkvöldi. Tveir nýir félagar teknir inn, til hamingju Þóra og Hugi. Fundurinn annars tíðindalítill, smá hikst á einu máli en þar sem fundarstörf eru trúnaðarmál er best að vera ekkert að tjá sig um það neitt. Er í farvegi, vonandi góðum.

Hins vegar er ekkert trúnaðarmál að maturinn sem boðið var upp á hefur ekki verið svona góður í mörg ár. Norðurlandameistari nýbakaður (skilst mér), Ólafur Haukur minnir mig hann heiti (rétt Nanna?) sá um kræsingarnar. Þrenns konar forréttir, hrár, léttsaltaður og kryddaður lax og laxahrogn, þorskur með kóríander og parmaostsflögum (ég sleppti honum, gott að vera varaður við) og besta tómatbasilmozzarellablanda sem ég hef fengið utan Ítalíu. Aðalrétturinn ekki slor heldur, kengúrulundir með blómkálsfrauði, snilldar kartöfluböku og rósmarínsósu. Kengúru hef ég ekki smakkað fyrr. Þessi hefur nú ekki hoppað yfir sig, amk var ekki til seigur biti í steikinni.

Eftirréttir þrír líka, créme brulée, pistasíuís og svo ferskir ávextir með sírópi.

maður fór ekki svangur út.

Vín frá honum Adda með þessu öllu saman. Stóð vel fyrir sínu að vanda. Sérstaklega fannst mér þetta gott, ekkert síðra en Laughing Magpie, heldur dýrara vín frá sama framleiðanda, hverju Þorri og Steingrímur hafa hrósað upp í hástert.

Ekki veit ég alveg hvers vegna, en ég var ekki í gífurlegu drykkjarstuði þarna í gærkvöldi. Gæti haft eitthvað með það að gera hvað var fjári gaman hjá okkur Jóni Lárusi og Hallveigu í grillinu, bjórnum, rauðvíninu og Hotandsweetinu kvöldið áður. Svo beið náttúrlega afmælisveisla í dag. Verð að segja að það var bara ljómandi gott að vera svona óþunnur daginn eftir Tónskáldafélagspartí, það er nebbla ekki vaninn. Right, Tryggvi?

hann Finnur 

litli gaurinn minn er sex ára í dag.

Til hamingju, elsku kallinn minn :-)

í tölvunni
Originally uploaded by hildigunnur.

2006-04-28

silvia night 

mér sýnist ég vera að fara að útsetja júrólagið okkar elskaða og dáða fyrir strengjakvartett. Fjööööör :-D Náði í Þorvald í morgun og fékk leyfi og hint, hann ætlar meira að segja að senda mér rytmatrakkið þannig að þær geta spilað ofan á það. Best að fara að pikka upp línurnar, hljómagangurinn gæti varla verið einfaldari, ekkert Bohemian Rhapsody þarna á ferð, bassalínan meira og minna endurtekin út í gegn. Þetta gæti orðið gaman.

2006-04-27

vegamót 

vinkonuhittingur út að borða í hádeginu. Reynum yfirleitt að fara eitthvert sem við höfum ekki farið áður en í dag var það bara tried and true. Vegamót rokka. Troðfullt, þurftum að bíða eftir borði en samt kom maturinn fljótt og vel. Verð að viðurkenna að ég er ekki mjög ævintýraleg í matarvali á Vegamótum, ég held að ég hafi fengið mér Louisana kjúklingastrimla síðustu 5 skipti sem ég fór þangað. Líka núna. Mæli hiklaust með því. Mmmm

(nei, ég þekki ekkert fólkið sem á né rekur Vegamót ;-)

Þá bara að tölta (angandi af einum litlum Viking bjór) með drenginn í víólutíma. Vill til að kennarinn er ekki siðavandur og hneykslunargjarn bindindispostuli...

og áfram 

halda teiknimyndasögurnar, úr því mér dettur ekkert betra í hug:

2006-04-26

og úr því 

að ég er ekki búin að skrifa neitt nema sýna brandara og linka á eitthvað í allan dag er best að bæta einum við: Tékkið endilega á þessari útgáfu af Sverðdansinum

Mahna Mahna 

svo er þetta líka svolítið gott. Sveimérþá ef ég set það ekki í fastan tengil hér til hliðar hjá mér.

Tvær góðar í dag: 

2006-04-25

tölvan 

er enn eitthvað smá lengi að hugsa, ég er nú að prófa hinar og þessar tengingar. Hef skjáinn grunaðan, gæti verið að bæði usb tengin í honum séu orðin léleg.

Það sem ég er meðal annars að prófa er að skipta um lyklaborð, á tvö við tölvuna. Finnur tók strax eftir þessu: Mamma, ertu með nýtt lyklaborð? Ertu að hlaða hitt?...

Nú liggur á 

að góðir og gegnir Reykvíkingar kjósi VG og haldi framsóknarmanninum með guluna úti.

AMEN 

(titillinn er tengill)

Enter alltaf snilld.

2006-04-24

í dag 

dembi ég óundirbúni lokaprófi í skriflegri tónheyrn á Suzukikrakkana. Hehe. (Reyndar allt í lagi, þar sem þau þurfa engan sérstakan undirbúning undir það)

þetta er ekki auðvelt að birta. Blogger í veseni í dag, greinilega. Ætli þeir fari ekki að vakna þarna á vesturströndinni, til að laga þetta?

2006-04-23

þó páskarnir séu búnir 

verð ég bara að koma með þessa mynd sem ég fann hjá dr Betu, vinkonu Halls og Ásdísar:

húsasmiðjan 

mikið hrrrikalega er húsasmiðjuheimasíðan sorrí! Ekki séns að sjá neitt út úr vöruúrvalinu. Dælt beint út úr viðskiptahugbúnaðinum á netið, engir tenglar, engar myndir, ekkert! Ojbara!

2006-04-22

kötturinn 

er orðinn feitur í friinu, túnfiskur, rjómi og aðrar trakteringar. Eins gott að fara að koma á einhverri reglu á heimilinu.

búið að vera snilldarfrí, eins og þið sjáið...

orð skulu standa 

erum að hlusta á þátt dagsins. Verið að reyna að finna merkingu orðsins lagstofn. Mér datt í hug lead sheet, en Jón kom strax með: Nú, það sem maður leggur til grundvallar þegar verið er að semja júróvisjónlag...

ekki slæmt, ekki slæmt 

This Is My Life, Rated
Life:
8.7
Mind:
8
Body:
6.6
Spirit:
5.7
Friends/Family:
7.4
Love:
9.1
Finance:
8.8
Take the Rate My Life Quiz


gæti verið verra. Spirit scorið lágt, ég verð nú að viðurkenna að mér finnst það hallærislegt að það sé lágt vegna þess eins að ég merki við að vera trúlaus.

Svo er spurning hvort tónsmíðarnar myndu batna ef ég væri örlítið óhamingjusamari...

það er víst 

alveg óhætt að vísa í þetta :-D

2006-04-21

forvitni 

það er verið að drepa mig úr forvitni og stressi þessa stundina. Aaaargh...

hermigervill 

er að hlusta á hann.

get ekki annað en tengt á þessa eldgömlu færslu kollega míns.

alveg skemmtilegur samt. jamm. svolítið minimalískur eins og öll þessi tónlist.

er annars 

í skrifandi stund að hlusta á hana Hafdísi mína í netútsendingu Rásar 2 á Aldrei fór ég suður. Hún byrjar að spila ca 01:24.20 og er virkilega þess virði að hlusta á. Ég á nú ekki bofs í þessari músík hennar en þegar tónsmíðatónleikarnir fara á netið skal ég líka benda á það :-)

Þá sér fyrir endann 

á þessu fína langa páskafríi. Svo er bara fáránlega lítið eftir af skólunum fram að sumarfríi. Svona er það að kenna bara 3 (núna 2) daga í viku. Mér reiknast til að það séu frá 7-9 kennsludagar eftir, veit ekki alveg hvað tónfræðin verður kennd lengi í skólunum mínum. Reyndar slatti af útskriftartónleikum í LHÍ sem ég ætla að mæta á, en það er nú bara gaman. Spurning um að draga unglinginn með mér á eitthvað af þeim, jafnvel skottuna, á sellistana.

Annars er ég hrunin í Sims aftur, tók góða skorpu í því í fyrra en hef ekkert spilað síðan Fífa fékk Sims 2 pakkann. Þetta er alveg skelfilegur tímaþjófur. Hemja sig, Hildigunnur!

In memoriam 

Í dag er borinn til grafar maður sem sönglist á Íslandi á mikið að þakka.

Sigurður Demetz, þakka þér fyrir allt sem þú gerðir og varst. Það var heiður að fá að kynnast þér.

2006-04-20

vondir foreldrar 

það vorum við í dag, fórum ekki með ungana eitt né neitt, hvorki skrúðgöngu né húsdýragarð, hvað þá annað. Mér finnst vonlaust að þurfa að fara alla leið vestur í Frostaskjól til að fá okkar bæjarhluta skemmtun. Hvað er með miðbæinn?

gleðilegt sumar 

lesendur nær og fjær :-)

2006-04-19

klukkan 

orðin tíu, get farið að sofa með góðri samvisku. Zzzzzzz...

smeg 

gengum alla leið lengst inn á Suðurlandsbraut í dag að skoða ísskápa (bíllinn var í bremsuklössun). Ísskáparnir voru minnst jafn flottir og þeir litu út á netinu en við erum samt að hugsa um að tíma þeim ekki. Hundraðogsextíuþúsund á tilboði (svolítið fyndið tilboð, reyndar, kosta hundraðsextíuogfjögurþúsund venjulega. Alveg 2,4% afsláttur!) Ætli maður láti sér ekki duga eitthvað aðeins ódýrara. Ekki munu þeir lækka í bili heldur, meðan krónan er í frjálsu falli.
okkur langar í þennan! Ísskápurinn okkar er alveg að syngja sitt síðasta. Maður hættur að fá varahluti, við erum búin að einangra frystihólfið tvívegis með þéttilistum og lítið gengur. En Tryggvi Herberts segir að íslingar eigi að hætta að eyða...

(mikið var ég annars ÓXLA fegin að lesa í dag að vegna þess að það er búið að skrifa undir alla samninga vegna tónlistarhúss er afskaplega ólíklegt að akkúrat því verði frestað í þetta skiptið. Nógu oft erum við búin að þurfa að bíða, framyfir nógu margar íþróttamannvirkjaframkvæmdir til dæmis.

Þetta er svolítið svipað og með hunda- og kattaliðið, alltaf hef ég haldið að hundafólk sé í miklum meirihluta í þjóðfélaginu þar til um daginn að ég las að það eru hundar á svosem 5% heimilum á meðan kettir eru á 12%. (ég er vonlaus í að muna tölur en hlutföllin voru nokkurn veginn þessi). Hundaliðið hefur bara miklu hærra. Tölurnar tala svo bara sínu máli. Sama með íþrótta- og tónlistarpakkann. Þeir sem sækja klassíska tónlistarviðburði eru margfalt fleiri en þeir sem koma á íþróttaleiki. Heyrist bara svo miklu hærra í þeim síðarnefndu. Kunna kannski líka betur gangapotið, gæti verið...)

2006-04-18

Fermingin 

og fermingarveislan hennar Fífu gengu þvílíkt vel, stundin hátíðleg, stressið minimal. Hallveig kom klukkan hálftíu og sá um létta förðun á fermingarbarninu, þau áttu síðan að mæta klukkan kortér yfir tíu upp í kirkju. Skutlað þangað, síðan fórum við hin í fjölskyldunni í okkar fínasta púss (ég hafði keypt mér nýtt dress í stað þess sem féll ekki í kramið), keyrðum alla tvöhundruð metrana upp í kirkju, vorum komin þangað upp úr hálfellefu.

Þrátt fyrir að vera alveg laust við að vera trúuð verð ég að viðurkenna að ég fékk stóran kökk í hálsinn þegar prósessían gekk inn kirkjugólfið. Litla stelpan mín ekki svo lítil lengur.

Fermingin sjálf fór nokk eftir bókinni, bara mjög falleg athöfn. Krakkarnir stóðu sig öll mjög vel, enginn hikstaði á ritningargreininni sinni, einn var reyndar svo feginn að hafa getað romsað henni upp í heilu lagi að hann ætlaði að sleppa fermingunni sjálfri og rjúka beint í sætið, presturinn þurfti að hlaupa á eftir honum og pikka í hann. Frekar vandræðalegt.

Finnur stóð sig líka mjög vel, fylgdi textunum og söng með í sálmunum, kunni þá náttúrlega ekki neitt en var ótrúlega duglegur að fylgja.

Eftir athöfn fórum við heim, fengum okkur smá hádegismat, tíndum til það sem átti eftir að fara með heim til ömmu og afa þar sem veislan var haldin. Þangað komin, um hálftvö leytið, undirbúningur á fullu. Mamma og pabbi, Óli bróðir og þó sérstaklega Kristín kærastan hans stóðu á haus að hjálpa okkur, Kristín hafði yfirumsjón með skreytingum hússins. Um miðjan dag skutumst við í veisluna hjá Halldóri Bjarka frænda okkar, þar við góðan viðurgjörning í rúman klukkutíma, keyrðum Fífu í aðra veislu dagsins, kórvinkona, við bóndinn í Garðabæinn á okkar veislustað. Þá þurftu hendurnar að standa vel fram úr ermunum. Lokafrágangur á aðalrétti, hita upp það sem ég var búin að gera daginn áður (þakkaði mínum sæla fyrir það, við hefðum amk ekki náð í neinar aðrar veislur ef það hefði ekki verið klárt), salatið varð líka að gera á síðustu stundu.

Allt náðist þetta nú samt, þakka sérstaklega Ester vinkonu minni, þó hún sé nú óttalegur aumingjabloggari er enginn, segi og skrifa ekki nokkur maður, sem kemst í hálfkvisti við hana í afköstum. Við máttum varla reka nefið inn í eldhús, hún stóð vaktina þar frá því fyrstu gestirnir komu, þar til allir voru farnir, (nærri) allt þvegið upp og hreint í stöflum. Hver þarf sal og þjóna þegar hann á svona vini? :-)

Fermingarstúlkan var alsæl með daginn, athöfnina, veisluna og gjafirnar, (sem hún segir sjálf frá á sinni síðu) hvað meira getur maður beðið um? Snilldardagur.

fermingarstelpa
Originally uploaded by hildigunnur.

hah 

ég ætti enn að geta hjálpað fermingarbarninu með stærðfræðina:

You Passed 8th Grade Math

Congratulations, you got 10/10 correct!
Could You Pass 8th Grade Math?


Fermingarfréttir hér og svo nánar á morgun. Núna ætla ég að klára rauðvínsglasið mitt og fara svo að SOOOOFAAAA!

2006-04-16

úff

búin að vera í nærri allt kvöld að skera niður kjúkling og steikja fyrir veisluna annað kvöld. Fannst voða sniðugt að steikja hann en það þýddi náttúrlega að það verður að fullgera réttinn, ekki gengur að hálfsteikja kjúkling, leyfa að kólna og hita svo aftur upp á morgun.

sem betur fer eru þetta læri en ekki bringur, annars væri rétturinn ónýtur :-D

Morgundagurinn verður hins vegar hektískur. Ójá.
arrg

gleymdi að kaupa rjóma í aðalréttinn í veisluna. Þegar við vorum að kaupa inn vorum við fullsnemma fyrir rjómann og svo steingleymdist hann náttúrlega.

eins gott að það er opið í búðum á morgun.


Gleðilega páska :-)

erfitt 

að draga sig burt frá Matteusi (held ég, örugglega heldur en frá Jóhannesi, aðminnstakosti passíueftirmeistaraBach) sem er beint í útvarpinu núna. Arrgh. Og ég sem þarf að leita að páskaeggi í fyrramálið. Vona að það sé ekki eins vel falið og bóndans...
Hildigunnur! Muna eftir að hringja upp í Hallgrímskirkju. Fífa ekki skráð sem fermingarbarn á annanípáskum. Hún hefði átt að fara eftir mömmu sinni og fermast í Langholtskirkju. Hmmmpfh. So there!

2006-04-15

nú erum við sko búin að vinna okkur fyrir einum bjór (og þó þeir væru tveir)

man ekki hvort það var á sama tíma í fyrra eða hitteðfyrra, við vorum líka komin í bjórinn, Jón Lárus segir: eigum við kannski að fá okkur popp? Ég: Uuuu, tjaaa.... Nei! mig langar ekki í popp! Fáum okkur frekar flögur.

við Fífa vorum búnar að fela páskaeggið hans inni í örbylgjuofni...
barnaherbergi númer eitt er orðið að unglingaherbergi.

time flies...
Herra Finnur fékk óvænta gjöf um daginn, Fífa og pabbi hennar eru að taka herbergið hennar í gegn og fundu gamla GameBoyinn hennar, hver var búinn að liggja ónotaður í nokkur ár. Hann er nú genginn í endurnýjun lífdaga. Finnur búinn að vera fastur við hann í marga daga, talsvert mál að takmarka notkunina.

Nú dauðsér Fífa náttúrlega eftir því að hafa ekki geymt græjuna og gefið honum hana í afmælisgjöf...
Prag í maí, við erum lögst yfir borgarbækur, ekki það, við verðum með leiðsögumann í ferðinni en það er nú samt alltaf gott að vita hvert maður vill fara. Tókum reyndar stóran hluta af túristapakkanum haustið '91 þegar við fórum til Prag þannig að við þurfum ekki að klöngrast upp í kastala frekar en við viljum.

TimeOut gædinn er reyndar snilld. Bráðskemmtileg lesning.

2006-04-14

mér sýnist sveimérþá langa páskahretið ætla að standa undir nafni og teygja sig fram yfir páska! Hvað er þetta kuldakast eiginlega búið að vera lengi? Það snjóar fyrir utan gluggann minn.

ég röflaði yfir lengdinni á hretinu þann 5. apríl, semsagt búið að vera níu daga í viðbót við lengsta páskahret sem ég mundi eftir. Urr.

2006-04-13

þúsundogellefu 

er opið alla páskana. (Finnur að lesa auglýsingu í Fréttablaðinu áðan).
Matarboð hjá bloggvini í gærkvöldi, langt fram á nótt, reyndar. Vorum lyklalaus, sem betur fer gátum við vakið unglinginn til að hleypa okkur inn, þarna klukkan hálfþrjú. Snilldarkvöld. Stóð til að hjálpa honum að vinna aðeins á rauðvínsbirgðunum, þær skröpuðust jú aðeins niður en það sást á endanum meiri munur á viskístöðunni. Maturinn var frábær, ekki síst tiramisúið, ég er ekki viss um að hafa bragðað betra slíkt. Mmmh! Takk fyrir okkur.

2006-04-12

búin að vera að hamast í kommentakerfinu mínu og svei mér þá ef það er ekki orðið í stíl við síðuna. Íslenskaði það eitthvað en ég virðist ekki geta breytt alveg öllu. Skoðið endilega :-)

2006-04-11

pródúktífur dagur.

keypti dúk á fermingarborðið, kolféll svo fyrir háfjólubláum dúk handa okkur og keypti hann líka. Öll innihöld komin fyrir aðalrétt, tengdó og mamma sjá um kökubakstur (bara tvær tegundir, fórum í fermingarveislu á sunnudaginn og átum yfir okkur þar sem það voru allt of margar sortir í gangi og auðvitað varð maður að smakka á öllu). Búin að finna nógu mikið af borðbúnaði og glösum, sýnist mér. Allt að smella, sko.

já og svo rúllaði ég upp einum af svona 10 fiðludúettum í seríu sem ég er að semja. Sknilld.

2006-04-10

ég er orðin röndótt randalín, var í klippingu og strípum í fyrsta skipti í tvö ár eða síðan klipparinn minn flutti til Lettlands með kærastanum. Vo vo fín, ég.

Mömmu leist ekkert á það sem ég var búin að spá fyrir veisluna (sumt, þeas) og Jóni Lárusi líst ekkert á það sem ég keypti mér til að vera í. Djö! Hugsa nú samt að nýi hausinn á mér falli í kramið.

2006-04-09

Mér finnst kominn tími á að sumir fari að dempa sadistann, aðeins :-@

Lost 2 #18 

ennþá er Losturinn ekkert að tapa því. Tekst að rugla mann endalaust í ríminu.

2006-04-08

jahá 

þetta hér passar amk hér á bæ, því er nú verr og miður...

páskaegg 

Í gær keyptum við hvorki fleiri né færri en 71 páskaegg. Lítur út eins og Bónus hér niðri í geymslu.
Það er svo sem ósköp gaman að halda barnaafmæli, þokkalega fyrirferðarmiklar stelpurnar í bekknum hennar Freyju samt. Alltaf gott þegar búið. Hlakka ekki til þegar þetta verða allir strákarnir í bekknum hans Finns.

Fjarstýrð prumpugræja gerði mesta lukku af afmælisgjöfunum. Einhvern veginn held ég að hún verði gjöfin sem verði fyrst að hverfa...

lordoftherings 

Spiluðum Hringadróttinsspilið í kvöld, byrjuðum öll en stelpurnar duttu út, neyddust til að fara að horfa á Ripley's Believe It Or Not, hefðum aldrei átt að taka Skjá einn inn...

Finnur hins vegar hélt út, enda var það vegna þrábeiðnar hans að við spiluðum. Fékk reyndar hjálp enda spilið engan veginn einfalt. Við vorum búin að læra það hér einu sinni en það eru örugglega 2-3 ár síðan við spiluðum síðast. Leiðbeiningarnar í fullri notkun.

Spilið vannst samt, á síðasta snúningi, bráðspennandi.

Minnir mig á sögu sem hann Bjössi Thor vinur okkar sagði okkur stuttu eftir að spilið kom út. Hann og pabbi hans stóðu meðal annarra að útgáfunni. Bjössi mætir einhvern tímann niður í Penna í Austurstræti (muni ég rétt), þar stendur afgreiðslustúlka skelfingu lostin á svip með síma í höndunum. Réttir Bjössa símann - best að þú talir við þessa!

Í símanum var kona, alveg brjáluð, hafði keypt spilið (ekkert ódýrt) og ekki skilið nokkurn hlut í því. Var að heimta að fá það endurgreitt: Sko, við erum búin að reyna og reyna að skilja þetta, börnin mín tvö eru í háskólanum og þau skilja ekki neitt heldur. Þetta er bara óskiljanlegt og við eigum sko fullan rétt á að skila því og fá endurgreitt. Bjössi vildi nú ekki alveg sættast á það, ef þú kaupir þér bók, lest hana og finnst hún lítt skiljanleg eða leiðinleg geturðu ekki bara fengið peninginn til baka. Konugreyið hélt nú samt sínu striki þar til Bjössi sagði: Sko, ég get ekki endurgreitt þér spilið, en hvað ef ég kæmi bara heim til þín og kenndi þér það?

þögn í símanum

Haaa? Myndirðu gera það?

tónninn allt annar.

Jú, hann sagðist skyldu koma.

Svo veit ég ekki meir, hvort hann fór og kenndi þeim spilið eða hvort þetta var fólkið tengt bekknum hennar Freyju sem gaf Hringadróttinsspilið í Kolaportið í haust.

En okkur finnst spilið amk snilld.

2006-04-07

einkunnir, umsagnir 

frágengnar einkunnir fyrir tónheyrnaráfangana og umsagnir fyrir Suzukiskólann. Sem sagt, ég skilaði einkunnum án umsagna í LHÍ og umsögnum án einkunna í Suzuki. Munurinn felst síðan í því að ég ætla ekki að gefa neinar umsagnir í LHÍ en á eftir að færa inn einkunnirnar í Suz þegar krakkarnir klára prófin.

2006-04-06

ich grrrrolllle niiiicht... 

búin að vera með þetta á heilanum síðan á tónleikunum Óla og Peters á þriðjudagskvöldið. Ætli maður geti fengið upptökuna?

Peter lenti annars í þvílíku veseni í morgun, var kominn út á flugvöll að bíða eftir útkalli í vélina, ákveður að fá sér brauð í kaffiteríu, sem betur fer byrjaði hann strax að borða. Í brauðinu höfðu verið brasilíuhnetur og hann fékk heiftarlegt bráðaofnæmiskast. Var lagður inn í skyndi. Þó ég reikni nú fastlega með að um borð í flugvélum séu antihistamínsprautur fyrir svona tilfelli veit maður samt aldrei hvernig hefði farið :-O

tíu ára 

þessi mynd af afmælisbarninu, sellóskottunni og dansaranum er enn betri (hmm, reyndar sama myndin, held ég, bara klippt nær).
tíu ára
Originally uploaded by hildigunnur.

Freyja í Skálholtskirkju 

Litla skottan mín er að verða stór. Tíu ára í dag. TIl hamingju með daginn :-)
Freyja í Skálholtskirkju
Originally uploaded by hildigunnur.

2006-04-05

danssýningin 

hennar Freyju var í kvöld, flott að venju. Hennar hópur dansaði fönkdans við undarlega útgáfu af We Will Rock You, hún dansaði í fremstu röð og fékk meira að segja smá sóló. Þær voru í gallabuxum og svörtum glimmerbolum með túperað tagl. Myndavélin varð náttúrlega eftir heima.

Dansskóli Birnu (reyndar Björns) stendur undir nafni, af 9 kennurum heita 3 Birna. Svo var Unnur Birna að kynna.

Þetta er nú versta 

páskahret sem ég man eftir. Og ekkert lát á, svo lengi sem moggaveðurspáin nær. Urrr.

2006-04-04

tónleikarnir hans Óla 

tókust alveg ljómandi vel, verst að það voru ekki fleiri til að njóta. Samt talsvert langt frá all time low í Salnum, um daginn mættu víst bara 8 manns á tónleika. Ekki svo slæmt núna. Hefðum samt viljað hafa fleiri.

Kom út tárunum á mér í Ich grolle nicht úr Dichterliebe. Það er náttúrlega líka lagIÐ. Ekki smá flott. En hitt var líka flott. Britten flottur, Atli - tja, Atli á til góða hluti, ætli hann hafi verið að vitna í Magnús Blöndal í einu laginu eða...?

En Dichterliebe var samt toppurinn á kvöldinu. Frábært.

píanótríó 

pantað af Suzukiskólanum að skríða inn í vinnslu. Verður skemmtilegt verkefni, á að vera tiltölulega einfalt þannig að elstu krakkar geti spreytt sig.

gott að vera komin af stað aftur.

að falla á tíma 

uppgötvaði í gær að ég á að vera búin að gefa Suzukikrökkunum mínum umsögn og einkunn fyrir 5. maí. Það er snúið. Ég á eftir að láta þau taka tvö próf, nú er komið tveggja vikna páskafrí, næsti tími hjá þeim er tuttugastiogfjórði apríl, svo er fyrsti maí á mánudegi. Hmmm. Eins gott að fá frest fram á áttunda.

skólaárið er að verða búið.

2006-04-03

tónleikar, einn ganginn enn: 

hei, that's what we do!

Má ég vekja athygli ykkar á tónleikum annað kvöld, þriðjudag, í Salnum í Kópavogi. Þar syngur Ólafur Rúnarsson tenór yndislegt prógramm, meðal annars Dichterliebe eftir Schumann og uppáhalds lagaflokkinn minn í öllum heiminum, On this Island eftir Britten. Meðleikari er breskur píanóleikari, Peter Ford.

Mæli sterklega með mætingu, Óli er mjög vaxandi söngvari, held ég geti lofað snilldartónleikum.

nánar hér:

2006-04-02

Það tekur alltaf stóran part laugardags og sunnudags að láta krakkana æfa sig (í Suzukikerfinu er maður með þeim allan tímann). Áður en nokkur fer að benda mér á hvað þetta sé mikið sjálfskaparvíti bendi ég á móti á að ég þarf ekki að vera að taka til á meðan, nokkuð sem Jón Lárus er mjög duglegur í. Góð skipti.

Loksins byrjuð á heimasíðunni minni langþráðri, svindla, keypti iLife og þar er snilldar heimasíðuforrit. Vonandi að Listaháskólaserverinn bjóði upp á Ajax. Efast reyndar ekkert um það, þar er allt keyrt á Mökkum. Alminlegt, sko.

2006-04-01

Aprílgabbið 

í Blaðinu í dag er bara snilld:

Mistök við útgáfu reglugerðar setja iPod í sama tollflokk og gerist í öðrum löndum. Fjármálaráðuneytið hyggst leiðrétta mistökin á mánudaginn... Mistökin felast í því að iPod er nú skilgreint með sama hætti og gerist í öðrum löndum á Evrópska efnahagssvæðinu...

Eins gott að þessi skelfilegu mistök verði leiðrétt á mánudaginn. Gengur náttúrlega engan veginn að við flokkum þessa vöru eins og aðrir.
Nýr Gestgjafi datt inn um lúguna í gar. Margt spennandi að vanda. Ein smáathugasemd, Þorri er með grein um myrkilsveppi (aða murklusveppi eins og hann vill kalla þá). Vill meina að þeir séu ekki partur af íslenskri flóru. Það má náttúrlega til sanns vegar færa, þar sem sveppir eru ekki jurtir og þar af leiðandi ekki hluti af neinni flóru (nitpicking hvað?) Hins vegar finnast myrkilsveppir á Íslandi, við fundum einn í Öskjuhlíðinni fyrir nokkrum árum. Ekki hægt að segja að þeir séu algengir, samt...
Humarhúsið stóð vel undir væntingum. Mmmm. Nánar hér

This page is powered by Blogger. Isn't yours?