<$BlogRSDUrl$>

2006-01-31

Þetta er hverju orði sannara. Margbent tónfræðanemendum á þetta (það er ekkert leiðinlegt í tónheyrn, þarf ekki að benda þeim á...). Fínt að geta bent þeim á færsluna líka.
kannski væri ég til í hund ef hann liti svona út:þessi er næstum því sætur.
er nærri búin að setja annarrarfiðlupartinn af fyrsta kaflanum af Koussevitskykonsertinum, það er bara svoooo leiðinlegt að skrifa parta. Á eftir styrkleikabreytingar á einni blaðsíðu, þá er kaflinn kominn. Langar samt meira til að fara að sofa.

Ekki viss um að ég nái öllum konsertinum fyrir æfinguna annað kvöld.

2006-01-30

Finnur fékk Orkubók Latabæjar senda heim í dag, ég þykist vita að næstu fjórar vikurnar tali hann bara um orkustig og hollustu, ojbara.

Verð að viðurkenna að mig langar í Orkubók, bara á ensku...
hundurinn hér í bakhúsinu gjammar stanslaust. Mig langar ekki í hund. Ekki núna, ekki nokkurn tímann.
vá! (ekki fyrir dyrum, þó)

mig langar í stígvél
Jæja, þá er að byrja á bloggfóníunni! Fékk hálft ár úr Tónskáldasjóði, ætli það dugi ekki fyrir svo sem einum kafla?

2006-01-29

jæja, ástandið mun skárra í dag, náði líka að sofa til tíu. Verð ekki eins hrikalega mygluð á kóræfingu í kvöld. Við Hallveig sátum á æfingunni í gær, hvor annarri fúlli (varabatteríið ekki hrokkið inn) Hlakka reyndar til þegar þessir tónleikar eru frá og við getum farið að kíkja á nýtt efni. Erum búin að æfa þetta upp tvisvar áður án þess að ná að halda tónleikana. Flókið þegar um tvo hópa er að ræða.
Tókst ekki að sofna nema í hálftíma í dag, Finnur hellti niður fullt af Frissafríska appelsínuvaríant og Freyju náttúrlega datt ekki í hug að hjálpa honum, émeina, mar er nottla að spila Sims II héddna, mar!

Kláraði Bookmans Promise, frábær bók. Verð að redda mér hinum eftir höfundinn. Hafið þið lesið hann, einhver?

Annars keyrt sig á varabatteríinu í kvöld, mjög skemmtilegt en ég held að morgundagurinn fari fyrir lítið. Gestirnir bráðskemmtilegir, bæði fullorðnir og börn, krakkarnir horfðu á Júróforkeppni þar til búin, stóru stelpurnar skemmtu sér við að horfa á Grimms Brothers á eftir. Frábært kvöld.

en nú skal sofið og það út! Hmm? Spurning hvað Finnur þolir við í sínu rúmi (í morgun flúði hann í Freyju rúm) Látum á það reyna.

2006-01-28

þreyttur, maður. Svaf afskaplega takmarkað í nótt, litli gaurinn alltaf að koma upp í og svo gat hann ekki legið kyrr þegar hann kom. Sísparkandi í mann. Ég var ekki upp á mitt allra besta á fjögurra tíma kóræfingu í morgun. Kom heim, þá hringdi í mig maður til að fá leiðbeiningar um íslenska stafi í Finale forritinu (þetta er sá þriðji sem ég hjálpa með þetta, ætti að fara að titla mig tölvuráðgjafa og taka pening fyrir). Rukum út í búð, fólk í mat í kvöld. Jón Lárus farin á fótboltamót í vinnunni (fengu búninga og allt saman, verð að muna að taka mynd og henda henni hér inn), setti ossobucoið í gang og nú er ég farin að leggja mig. Vona ég geti sofnað, annars er ég hrædd um að ég verði eins og draugur í kvöld.

2006-01-27

haldið þið ekki að páskaliljurnar séu farnar að kíkja upp? Jújú, sést á græna enda. Og ekki kominn febrúar. Eins gott að þetta er harðgert. Ekkert á við þessar sem blómstruðu hjá mér milli jóla og nýárs hér fyrir nokkrum árum.
Gekk bara geipivel í gær, litlasystir brilleraði ásamt hinum sólistunum, Gunnar og Guðrún Jóhanna voru sérstaklega fín, útlendi sólistinn pínu mistæk en mjög flott á köflum, fínt hjá Rannveigu Fríðu og Davíð ágætur í sínu litla hlutverki.

Stjórnandinn var mjög ánægður með kórinn, ég gæti vel trúað að við fáum fleiri svona tækifæri. Ekki smá gaman. Nema reyndar að sitja á hörðum trébekkjum með engu baki í óratíma milli kafla. Það var ekki gaman.

svo var líka gaman á eftir. Fullgaman, kannski. Mig langar EKKI að fara að kenna. Ekki einu sinni mínir bekkir. Dauðsé eftir að hafa tekið að mér þessa afleysingakennslu. Fimm heilir tímar í dag. Mu!

2006-01-26

frekar undarleg og óvenjuleg tilfinning að vera að fara að syngja á tónleikum og þurfa barasta ekkert að plögga. Uppselt í kvöld. Mæli með útvarpinu, þetta verður mjög skemmtilegt. Renndum þessu í morgun (reyndar ekki í gegn um allar aríurnar) Atli Rafn las millikaflana hans Árna Heimis snilldarlega. Mér finnst þetta bara koma mjög vel út svona. Mozart light, reyndar, en úr því hann samdi ekki resitatífin sjálfur er þetta fín lausn.

Farin í bað og svo tónleikar. Mmmm.

2006-01-25

Æfing með Melabandinu í morgun tókst bara svona ljómandi...

Ekki smá gaman að fást við þessa músík, hún syngur sig eiginlega sjálf. Við syngjum náttúrlega yfirleitt nýja tónlist, íslenska eða erlenda, og svo stundum gamla tónlist, ss renaissance og eitthvað smá fram í barrokkið. Klassík og rómantík ekki hátt á flutningslistum. Kannski breytist það eitthvað með nýjum stjórnanda, þó ekki í vetur. Mozartgiggið annað kvöld, Poulenc tónleikar í febrúar og svo tónleikar með glænýrri tónlist eftir blómann af ungu tónskáldunum hér (bleagh, væmið, maður!) Úlfar Ingi staðartónskáld í sumar, Norrænir músíkdagar í haust, nóg um að ske (eða var það skeast???)

En semsagt, þeir sem ekki eiga miða í stóra bíósalinn annað kvöld, ekki reyna að kaupa, það er uppselt en Ríkisútvarpið Rás 1 okkar allra er með beina útsendingu. Yndisleg tónlist, flottir einsöngvarar, hljómsveitin stendur fyrir sinu að vanda og síðast en ekki síst, snilldar kór ;-)

2006-01-24

Fyrsta hljómsveitaræfingin í kvöld, tónleikar eftir tæpar þrjár vikur (eins og minnuga lesendur kannski rámar í skrópaði ég á þá fyrstu og í síðustu viku var meira áríðandi æfing (semsagt ég skrópaði aftur))

Þetta verður fínt, bráðskemmtileg Haydnsinfónía (já, þær eru sko til), frægur Beethovenforleikur og svo kontrabassakonsert eftir Koussevitsky, Kontri kemur frá Danaveldi og spilar, hlakka mikið til að heyra. Ætli ég fjalli nú ekki nánar um þetta þegar þar að kemur.

Er hins vegar píínulítið hrædd um að æfingar og tónleikar á þessu rekist á æfingar fyrir tónleika sem Hljómeyki og Kór Áskirkju eru að fara að halda uppi í Hallgrímskirkju um miðjan febrúar. Ég get eiginlega ómögulega skrópað á fleiri hljómsveitaræfingar þannig að hitt verður að lúffa í þetta skiptið. Hmmm. Flókið líf. Ef ég fyndi nú einhvern tíma til að semja yrði ég nokkuð ánægð.

(mikið var þetta nú leiðinleg færsla!)
kúl...

2006-01-23

okkur í tónlistardeild og leiklistardeild LHÍ er uppálagt að lækka hjá okkur einkunnirnar. Í tónheyrn eru einkunnir nokk fastar, ef þau gera 75% dæmis rétt fá þau 7,5, erfitt að komast hjá því. Þannig að það eina sem við getum gert er að þyngja prófin. Mér sýnist það hafa tekist í síðustu viku. Einkunnir frá 2,5 upp í (jú reyndar) 9,8. Ekki smá breidd nemenda sem maður er með...
keypti Landsliðsrétti Hagkaupa í afmælisgjöf handa bóndanum (já já, ég veit, en hann fékk garminn í jólagjöf og afsalaði sér þar með fínni afmælisgjöf)

Bókin lítur bara mjög vel út, en hvers vegna í óspökunum (sic) er bók sem er lagt svona mikið í ekki sett í prófarkalestur? Brauðtengingar? HÁRSKINKA???

fyrir utan nú hinar og þessar stafsetningarvitleysur á erlendum matarheitum. Sem maður hefði haldið að landsliðsmenn í matreiðslu ættu að vita rétta stafsetningu á, ef ekki aðrir. Þvuh!
það er alveg að koma svakalega flott tala á teljarann minn.

kvitta í kommentakerfið, takk!
til hamingju með afmælið bestur :-)

2006-01-22

er annars að lesa The Bookman's Promise. Ekki komin mjög langt en bókin lofar góðu. Verð að útvega mér hinar bækurnar um Janeway.
aah, letisunnudagur, sofið til hálftólf (hélt ég gæti þetta ekki lengur), svo bara haft það gott. Krakkarnir reyndar öll búin að æfa sig með dyggri aðstoð móðurinnar og Jón Lárus er að baka og útbúa desert fyrir afmælið sitt á morgun (kakan í vinnuna, vínberjakaka með marsipan) en eftirmatinn fáum við. Líst reyndar lítið á vikuna svona átakslega séð, tvö afmæli, eitt matarboð og svo verður maður nú að fá sér hvítvínsglas eftir tónleikana með Sinfó á fimmtudaginn.

2006-01-21

Finnur er nú ekki aaaalveg svona slæmur...


"Talking"

A mother was worried that her three-year-old
son was unusually precocious, and took
him to a psychiatrist.

"Right," said the shrink, "We'll just try a few
simple tests."

To the boy, he said "Say a few words -
anything that comes into your mind."

The boy turned to his mother and asked,
"Does he want logically constructed
sentences or just a few random and
purely isolated words?"
við vorum alveg óvart ein í kotinu í kvöldmat, frænkurnar frá Egilsstöðum hjá ömmu og afa og krakkarnir fóru þangað í kvöldmat og leiki. Við ákváðum að nota tækifærið og fá okkur fínan og rómantískan kvöldverð. Stímdum í Melabúðina, þar er flottasta kjötborðið á svæðinu (kannski fyrir utan Gallerí Kjöt en það var búið að loka þar). Nýja grillpannan vígð (fengum í jólagjöf). Domaine Drouhin rauðvín frá 1997 var til á bæ. Schnilld.

á morgun er það léttur dagur. Den tid, den sorg.
tjaaah...

2006-01-20

kvöldið farið í að skoða danska veitingastaði í miðbænum og á Vesterbro. Óóótrúlega spennandi staðir þarna, meðal annarra nafni veitingahússins sem ég sakna einna mest, Le Sommelier. Fáránlega flott vínlisti. Svo eru staðir með alls konar undarlegum mat, kengúru, krókodíl, kamel og barramundi, hvað svo sem það nú er.

Verstur fjárinn að það verður engan veginn tími til að smakka allt sem mér finnst spennandi. Spurning um að skjótast í gourmetferð í svona tvær vikur eða svo, alveg burtséð frá þessari.

Svo þurfum við jú að finna einhverja skemmtilega tónleika. Danmerkurdveljandi vinir eru í því verkefni. Kannski maður kíki samt á prógrammið hjá radioorkestret og fleiri góðum.
ég kannast við þetta, úff.
klukkkk

Dívan klukkaði mig.

Fernt sem ég hef unnið við:

tónsmíðar
kennsla
söngur
hittogþetta á Rafmagnsveitu Reykjavíkur (blessuð sé minning hennar...)

Fjórar bíómyndir sem ég gæti horft á aftur og aftur (og geri):

Lord of the Rings, öll serían
Shawshank Redemption
Meaning of Life
Monsters, inc.

Fjórir sjónvarpsþættir sem ég fíla:

Lost
Ørnen
The Julekalender
24

Fjórir höfundar sem ég les: (varð að bæta þessu við, ætlaði að hafa bækur en það varð of erfitt val)

Jane Langton
Minette Walters
Philip Pullman
Anne McCaffrey (nýjustu bækurnar reyndar orðnar pínu þreyttar)

Fjórir staðir sem ég hef búið á:

Njálsgötu 6
Toftebæksvej 55, Lyngby, Danmörku
Sörlaskjóli 4
Sunnuflöt 7

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum.

Massachusetts
Rimini
Osló
París

Fjórar síður sem ég kíki daglega á (þetta verður líka erfitt val)

Mikkalistinn minn (yfirleitt með hann opinn)
Nanna
daglega dópið
Jón Lárus (á prímtöludögum, þeas)

Fernt matarkyns sem ég held upp á: (talandi um erfitt val!)

kóók (er í bindindi núna)
nautasteik með bjarnaeinarssósu á la Hallveig
brjálæðislega góði (og óholli) ostapastarétturinn sem ég hannaði
sinnepskjúklingur

Fjórir staðir sem ég vildi heldur vera á núna:

Karíbahafið
Ástralía
annars eiginlega hvergi, ég hef það bara fínt.

Fjórir bloggarar sem ég klukka

Fífa
Jón Lárus
Parísardaman
Skrudda

og það var nú það.

2006-01-19

síðast þegar ég fór þangað átti ég von á Fífu og var að farast úr ógleði allan tímann (ekkert morgun- neitt). Þar týndi ég líka hæfileikanum til að borða ferskan engifer.

Verður frábært að sjá borgina í nýju ljósi (mental note to self - mind the contraceptives...)
ég var rétt búin að keyra út af Sæbrautinni í dag, ég hló svo mikið. Var að hlusta á þennan þátt, næstsíðasta lagið. Maður verður að vera að hugsa um Prince útgáfuna af laginu, Tom Jones er ekki nógu ólík...

2006-01-18

loppa 

freyja í tilraunaljósmyndun. Heilmiklar pælingar alltaf hjá henni að ná óvenjulegum myndum. Á örugglega eftir að verða góð.
loppa
Originally uploaded by hildigunnur.
Hálfur morguninn búinn að fara í msn og hringingar fram og til baka. En nú er þetta komið á hreint, við Hallveig og Jón Lárus erum að fara til Kaupmannahafnar og Prag í lok maí. Tvær ferðir sem þurfti að sameina, tveir mismunandi tónlistarskólar að fara (hvað er það eiginlega með Listaháskólann, hvernig stendur á því að við erum ekki að fara neitt? til dæmis til Prag og Parísar frá öðrum til sjötta júní)

Eini mínusinn er að við verðum úti á afmælinu hennar Fífu. Svolítið leiðinlegt en henni verður bætt það upp einhvern veginn.

2006-01-17

litli strákurinn og stóra bókin 

Svo sofnar maður út frá henni eftir svona 5-6 blaðsíður.

Hann kláraði Kaptein Ofurbrók í gærkvöldi, nú skal stímt á bókasafn og fá fleiri. Á meðan er það þunga bókin...

litli strákurinn og stóra bókin
Originally uploaded by hildigunnur.
æfing með aðalstjórnanda Melabandsins í kvöld, hörkugaman. Hlakka til að mæta á æfingarnar í næstu viku. Eru ekki annars örugglega allir búnir að tryggja sér miða á tónleikana? La clemenza di Tito, fimmtudaginn í næstu viku, Dívan í stóru hlutverki og fíni kórinn minn og Þóru með nokkra kafla. Ekki viss um hvort það séu neinir miðar eftir, reyndar. En það er nú alltaf útvarpið...
við pabbi erum súr og erum hætt við að vera með í sýningu sumaróperunnar. Þeir mega bara eiga sig!

Sem þýðir að ég kemst til Köben og Prag í vor.

sem er gott :-D

2006-01-16

Klikkaði illilega á því í dag, sem betur fer í rétta átt.

Var með tónsmíðanemandann í morgun og síðan þurfti ég að ganga frá einkunnum allra tónheyrnarkrakkanna í Hafnarfirði fyrir haustönnina. Eftir að ég hafði sent þær frá mér rétt fyrir hádegi átti ég alveg eftir að undirbúa kennsluna í dag. Hjólaði í það af fullum krafti, ekki veitti mér af tímanum. Um hálftvöleytið þegar ég var að prenta síðustu tímaáætlunina fór rafmagnið af hæðinni og síminn hringir. Ég niður að kveikja, tek símann, þá var þar kona sem ætlaði að biðja Fífu um að redda pössun fyrir son sinn, tókum smá tíma í það, hún þurfti að hringja í vinkonu sína sem ætlar að deila pössuninni með henni og mamman náttúrlega vakir yfir þessu eins stjórnsöm og hún er.

Því máli reddað í bili, klukkuna vantar kortér í tvö, ég rýk út, á að mæta klukkan tvö niður í Suzuki. Bíllinn alþakinn snjó, get ekki opnað hann bílstjóramegin, treðst inn hinum megin að ná í bursta (næsti bíll alveg ofan í okkar), hreinsa af bílnum (vel, nóta bene, þoli ekki svona lið sem skefur bara tíkallsstóran blett til að sjá út með öðru auganu). Næ niðureftir klukkan tvær mínútur yfir tvö, bíllinn lokast ekki almennilega, ég þarf að klifra aftur inn farþegamegin til að opna og loka aftur, inn í skóla, engir krakkar.

Ó já, ég byrja víst hálfþrjú á mánudögum...

2006-01-15

Ofurbrókin náði Finni, ég vona að við fáum hann aftur.

Var að lesa áfram í bókinni í kvöld og hlátrasköllin hljómuðu neðan úr herbergi. Greinilega algerlega húmorinn hans.
Krakkarnir allir úti með mismunandi vinum. Þvílíkur blessaður friður í húsinu. Dettur ekki í hug að setja á músík eða neitt, stundum er þögnin bara það besta sem fyrirfinnst.
Þetta er nú með endingarbetri partíum hér uppi sem ég hef vitað. Klukkan orðin níu.

og nei, við steinsváfum, ekki málið
ég tapaði ekki í Trivial kvöldsins, aldrei þessu vant ;-) Vann ekki heldur en með svona gettubeturnörd að spila, maður getur ekki gert ráð fyrir miklu. Viðurkennist samt að bóndinn var óheppnari með spurningar og teningsköst en ég.

Bloggdeitið er lasið, var ekki að spila við hana og hennar mann, stefnt á það síðar. Þessi aumingjabloggari meldaði sig í þeirra stað og vann náttúrlega. Ó vell!

Finnur er hættur í bili að lesa fimmtu Harry Potterbókina og tekinn til við Kaftein Ofurbrók. Aðspurður sagðist hann ætla að lesa bækurnar röndótt, Potterinn í dag, Ofurbrókina á morgun, Potterinn hinn daginn...

2006-01-14

þabbara brjálað partí hér uppi á lofti rasberry Svei mér þá ef það er ekki bara annað partíið í tvo mánuði. Meðeigandinn alveg að fara með okkur... eða kannski ekki. Besti nágranni sem völ er á.

Það er reyndar ágætt að við sofum niðri á jarðhæð, hæðin er síðan á milli og risíbúðin efst (jamm, skrítið!) Heil hæð á milli, þá sjaldan það er partí. Ég held að ég hafi vaknað alveg þrisvar við einhvert partístand á loftinu. Í þessi 10 ár sem við höfum búið hérna.
vá, Stelpurnar, Strákarnir, Spaugstofan og nú síðast Það var lagið. Ég held það sé kominn tími til að koma sér heim...
Eragon búin, mjög fín. Skil ekki alveg þá sem segja Paolini stela frá Hringadróttni og Potter, mér finnast ekki margar samlíkingar þar á milli. Eiginlega engar við Potter, nokkur nöfn og kortið, mögulega við Hringadróttinn.

Þekki hins vegar ýmis atriði bæði frá David Eddings og Anne McCaffrey seríunum, strákurinn hefur greinilega lesið þær bækur. Ekki til vansa, samt, söguþráðurinn allt öðru vísi, karakterarnir líka.

Bara mjög skemmtileg bók. Hlakka til þegar Eldest kemur í hús (ætti að vera núna um miðjan mánuð)

2006-01-13

fyrsta alvöru testið á loftbóludekkin í morgun, stóðu sig hörkuvel.

kannski maður fari með krakkana í sleðabrekku á morgun (ef snjórinn helst, hrumpf)

svo á ég trivial bloggdeit annað kvöld

enginn tími til að vinna í dag, er að lesa Eragon.

2006-01-12

Ný alda af sjónvarpsglápi, sería 3 af Twentyfour komin í gang.

Svo er víst nýja íslenska serían Allir litir hafsins eru kaldir (eða eitthvað þannig lagað) fjári góð. Samkvæmt kvikmyndagagnrýnanda Rásar 2 í dag er þar brotið blað í íslenskri sjónvarpsþáttagerð. Hlakka til að sjá (er hún ekki annars örugglega á Ríkissjónvarpinu?)
kíkið á þetta, horfið á stöðtvö annaðkvöld og kjósið svo rétt ;-)
búin að vera á Fifu tölvu í gærkvöldi og allan morgun, kveikti svo óvart á minni og nú heyrist ekkert þetta skrítna hljóð. Hinkra smá með að fara með hana í viðgerð.

2006-01-11

vinna, já...

Undarlegt hljóð í harða diskinum mínum áðan, þori ekki annað en fara með tölvuna og láta kíkja á hana. Hann er bara eins og hálfs árs, ekki góð ending ef það er eitthvað að honum.

En ég er amk nýbúin að taka afrit af öllu sem skiptir máli og allar bestu myndirnar eru á flickr.

verst að geta ekki unnið neitt af viti. Handskrifa? Píanó? naah! Setti reyndar upp Finale 2006 á Fífu tölvu en fjárans forritið er ekki backwards compatible þannig að ef ég byrja á síðasta kaflanum hér verð ég líka að klára hann hér...
Ég held að ég hafi aldrei nýtt eitt skróp betur en í gær. Ákvað að sleppa hljómsveitaræfingu (sem er í sjálfu sér ekki gott því ég kemst ómögulega á þá næstu) þar sem Óli bróðir fer út í dag og ég varð að láta hann fá nótur. Sem voru ekki tilbúnar. Kláraði einn kafla sem ég átti lítið eftir af og sveimérþá ef ég ruslaði ekki upp nærri heilum kafla í viðbót. Þarf að leggja lokahönd á hann, ætti ekki að vera mjög lengi gert (amk ef ég kemst í svipað stuð og þarna í gærkvöldi) og þá er bara einn stuttur kafli eftir af Vídalínsmessunni. Og þrátt fyrir að alkóhóldrykkja hægi á brennslunni, skv Halli og danska kúrnum skal ein kampavín fjúka, kvöldið sem ég set síðasta píanissimóið og bindibogann og æfinganúmerið í hana!
Hafa skal það sem hneykslar og betur selur
hugsjónir, sannleiki' og réttlæti lítils metið
þegar svo fólkið í fússi hið sannara velur
"fréttirnar" geta þeir Dagblaðsmenn oní sig étið

(ort fyrir nokkrum árum, eftir að DéVibbinn laug upp á vinkonu mína. Alltaf gott að rifja þetta upp við og við)

((þarf að fara að yrkja meira, allt of stirð))

2006-01-10

Ekki alveg eins syfjaður dagur í dag en ég ákvað nú samt að sleppa hljómsveitaræfingu. Líka nóg að gera, þarf að klára einn kafla í kvöld. Reminder to self - starta Finale og byrja. Hætta þessari bloggvitleysu - ja, þangað til á eftir amk.

2006-01-09

dagurinn aflifaður, komin heim af kóræfingu og meira að segja búin að undirbúa kennslu morgundagsins. Frábært. Get farið að sofa með góða samvisku. Nema...

Eða jú annars. Hlýtur að vera í lagi að skipta út tveimur hrökkbrauðsneiðum með léttosti tómat og gúrku fyrir eitt hvítvínsglas. Höfum það.
hvað gengur að fólki á þessum aðal aðhalds- og átakstíma landsins að kaupa kökur til að hafa á kennarastofunni? Arrgh!
ég er gersamlega að sofna.

Vill einhver vinsamlegast segja mér hvernig ég á að lifa af kennslu í fjóra tíma og kóræfingu í tvo? Plís?
ekki slæmt :-)Your Social Dysfunction:
HappyYou're a happy person - you have a good amount of self-esteem, and are socially healthy. While this isn't a social dysfunction per se, you're definitely not normal. Consider yourself lucky: you walk that fine line between 'normal' and being outright narcissistic. You're rare - which is something else to be happy about.
Take this quiz at QuizGalaxy.com


Please note that we aren't, nor do we claim to be, psychologists. This quiz is for fun and entertainment only. Try not to freak out about your results.

Jón Lárus hlær og hlær hér frammi í eldhúsi meðan ég fer blogghringinn. Best að ráðast á þessa bók áður en við þurfum að skila henni á bókasafnið.
Jæja, þá er sú törnin búin. Troðfullt út úr dyrum í Langholtskirkju, væri gaman að vita hvort ónefndur gagnrýnandi hafi núna talið gesti...

Búið að vera mjög skemmtilegur tími, gaman að vinna með þessu fólki en ég held að við höfum nú alveg staðið þeim á sporði. Okkar sánd mun hlýrra, án þess þó að vera með víbrató. En ég hefði verið til í að syngja Miserere eftir Allegri með þeim. Næst, bara.

Fékk nokkra kontakta, þetta fólk er og fer víða, einn syngur með Hilliard Ensemble og ég ætla að senda honum upptökur af völdum verkum. Væri ekki smá frábært að fá verk flutt af Hilliard! Ekki það, best að telja samt ekki þau eggin fyrr en þau koma í körfuna. Líka einn kórstjóri í hópnum og hún vildi endilega fá nótur af einhverjum verka minna. Fer í þetta eftir helgi.

Mestallt jólaskrautið komið í kassa líka og tréð út. Tómlegt í nokkra daga.

2006-01-08

hann Andrew tenór, Carminusöngfélagi frá London upplifði skemmtilegt (að okkur fannst) móment í gærkvöldi:

Var inni á pisseríinu hvort það var á Óliver eða einhvers staðar annars staðar þegar einhver ljóshærður gaur fer að tala við hann á íslensku. Mörg komment, Andrew þykist ekkert heyra enda skildi hann ekki bofs. Sá ljóshærði heldur áfram lengi vel, gefst síðan upp og fer að prófa ensku: The ceiling's low in here, don't you think? Andrew jánkar því léttilega, þykir mómentið ekkert of þægilegt. Gaurinn heldur áfram að tala, spyr ýmissa spurninga, kemst að því að Andrew kemur frá London, segist einmitt fljótlega vera að fara til London, hvort þeir geti ekki hist og svo framvegis. Andrew gefur ekki mikið upp á þetta allt saman, flýtir sér bara að klára sitt erindi og fer fram aftur. Kemur að borðinu sínu, hvar sitja bæði Bretar og Íslendingar. Sest niður og bendir liðinu á borðinu á ljóshærðlinginn sem kemur út beint á eftir honum. „What's with this guy, he was trying to chat me up at the urinal!“ Íslendingurinn við borðið ætlar ekki að verða eldri, frekar en við hin þegar þeir sögðu okkur söguna í kvöld.

Og hver ætli sá ljóshærði hafi verið?


nema...


Geir Ólafs...............

2006-01-07

Það er sko eins gott...

að ég ætlaði ekki í átak fyrr en á mánudaginn kemur, gærdagurinn var amk ekki sérlega átaksvænn. Þrír fundir, veitingar á tveimur af þeim, þar af mjög flottar á hádegisfundinum. Hið árlega stórfjölskylduboð hjá fjölskyldu bóndans, dælt í mann heitum og köldum réttum og svo tertum í eftirmat. Síðast svo matarboð og partí um kvöldið. Hangikjöt og meðlæti og nóg að drekka. Og meiri kökur.

matarlystin var reyndar ekki upp á marga fiska um kvöldið og ég lét drykkjarföngin eiga sig, það var reyndar einungis vegna þess að ég nennti engan veginn að labba heim með krakkana í þessu veðri.

Létum veðrið annars ekki á okkur fá og skutum upp tveimur flottum flugeldum. Hefðum ekki lagt í það ef þeir hefðu verið veigaminni. Sojus IV...

2006-01-06

er að skrifa þetta úr fartölvunni hennar Fífu, fyrsta skipti sem hún er sett í netsamband. Fífa er ekki einu sinni heima, spurning hvort hún verður nokkuð fúl. Er að setja inn Finale 2006, ég hef ekki þorað að setja það upp á mína tölvu, hef ekki tíma til að lenda í vandræðum ef íslensku stafirnir virka ekki þegar í stað. Sama með Tiger. Það var ekki búið að virkja íslenskustuðninginn við tígrisdýrið þannig að ég varð að tengja hana. Sorrí Fífa mín, ég er ekki búin að setja neitt upp - amk ekkert sem þú getur ekki hent út ;-)

(setti reyndar upp Adium en það ætti nú ekki að vera slæmt...)

2006-01-05

litli gaurinn er að lesa fimmtu Harry Potter bókina. Ég hélt að hann myndi nú gefast upp eftir 2-3 síður en nei, hann er kominn á fjórða kafla, síðu 55. Fæst ekki til að fara að sofa á kvöldin. Ég held að bókin sé nærri því jafn þung og hann...
tja, við Væla erum að minnsta kosti þar Bara alls ekki svo skuggalegt...

2006-01-04

Þetta var stutt kennsluvika.

Hins vegar ekki færri en þrír kennarafundir á föstudaginn. Úff.
síðasta æfingin með Ghislaine þar til í sumar. Liðið (humm, strákarnir flestir, engin stelpnanna komst) komu með mér heim og fengu smá hvítvín og rauðvín. Peter Phillips kemur á morgun og tekur við æfingunum. Stjórnar síðan tónleikunum um helgina. Spennandi. Þykir afskaplega góður stjórnandi. Meira síðar.

2006-01-03

Jón Lárus kominn með virka Mikkavefjarlínu, allir setja hann inn ;-)
níu krakkar af sextán mættu í morgun, ég er bara nokkuð ánægð með það miðað við tíu að morgni þriðja janúar og frjálsa mætingu. Tíminn bara fínn, þau lásu og lásu og lásu af blaði, nokkuð sem ég næ of lítið að fara í venjulega. Klukkutíma tónheyrn á viku er bara ekki nóg til að gera allt sem maður þarf. Verð eiginlega samt að leggja meiri rækt við þetta, íslendingar eru alls ekki nógu góðir í blaðlestri. Legg mitt litla lóð á þá vogarskál (ókei, lóðið mitt stækkaði umtalsvert þegar ég tók við tónheyrnarkennslunni í LHÍ. Veit annars alveg hverju ég breyti í þeim áfanga á næsta ári...)

2006-01-02

Annar janúar hlýtur að vera mesti syfjudagur ársins. Og ekki hjálpar lægðin upp á sakirnar. Nenni engan veginn að púsla nótum núna, er alltaf dottin inn í Snood eða sudoku eða bara sjá hvort uppáhalds bloggararnir mínir séu búnir að uppfæra.

Svo vinna á morgun, aukatónheyrnartími fyrir Hafnarfjarðarkrakkana. Sjálf kennslan byrjar á miðvikudaginn. Seinni hluti helgarinnar er síðan undirlagður Tallis Scholars tónleikunum og æfingum og stússi í kring um þá, boði í breska sendiráðið ossona ;-)

Það eru annars víst enn til miðar á fyrri tónleikana, endilega drífið ykkur. Frábær kór.
henti the cocacolapig uppskriftinni inn á brallið ef einhver hefur áhuga.

Blogger reyndar hundleiðinlegur núna, vill hvorki taka gráðumerkið né íslenskar gæsalappir, pirr!

2006-01-01

Boðið í gærkvöldi var bara fínt, 19 manns í mat, bjuggum til borð úr tveimur búkkum og hurðinni inn í herbergi Freyju og Finns. Reyndar voru eiginlega ekki nema 17 sem borðuðu, Finnur og fóstursonur bróður míns smullu saman eins og ég veit ekki hvað, sátu niðri í herbergi sinn með hvora leikjatölvuna og sáust ekki uppi, ekki að ræða það að þeir kæmu upp að borða. Létum þá bara ráða því. Komu síðan svangir upp um tíuleytið og vildu þá bara hringi með mjólk. Þeir um það.

Finnur er annars alsæll að hafa fengið annan strák í fjölskylduna, ekkert nema systur og frænkur. Þessi þremur árum eldri, meira að segja, fínn til að líta upp til.

Gerðum kókakólasteik frá Nigellu, lagði svínabóg í pækil þar sem uppskriftin gerir ráð fyrir light cure kjöti sem fæst ekki hér. Hef einu sinni gert þetta áður, þá með nýju kjöti en þetta var miklu betra. Nanna lagði línurnar með söltunina og þetta tókst bara fullkomlega. Tja, reyndar var hún full mikið elduð, stytti tímann næst en kjötið var samt alls ekki þurrt eða seigt.

Annars voru þetta stóru svínakjötsjól, pörusteik á aðfangadagskvöld (eins og alltaf), hamborgarhryggur hjá tengdó á jóladag, kalkúni reyndar hjá mömmu á annaníjólum, afgangar af pörusteikinni milli jóla og nýárs, kókakólasvín á gamlársdag og síðan hamborgarhryggurinn sem Samskip gáfu Jóni Lárusi í jólagjöf í kvöld. Er furða þó mér finnist vera steinn í maga? Og afgangar til fyrir amk morgundaginn, ef ekki bara þriðjudaginn líka...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?