<$BlogRSDUrl$>

2005-08-31

æ, er hún ekki bara komin sjálf þessi elska. Þurfti ekkert að hringja. Alltaf gott að þurfa ekki að nöldra of mikið í unglingunum...
arrg

Ætlaði að henda inn færslu, skráði mig inn og nú man ég ekkert hvað það var sem ég ætlaði að skrifa um.

Fífa og bekkjarsystkinin eru úti á skólalóð í einhverjum boltaleik sem ég kann ekki skil á. Á sko að fullnýta síðasta kvöldið sem þau mega vera úti til 12. Ég er nú samt að hugsa um að vera leiðinlega mamman og fara að hringja eftir henni, skóli í fyrramálið og svona...
Er verulega að bræða með mér hvort ég á að vera með í sumaróperusýningunum í vor.

Verði ég það, missi ég af heilum tveimur utanlandsferðum, báðir gömlu skólarnir mínir fara í vinnuferð til útlanda í vor. Prag og Kaupmannahöfn. Svo til allt borgað. Mér finnst mjög skemmtilegt í óperuvinnunni en það eru nú takmörk.

Auðvitað er ég ekki mikið fyrir það að lofa mér einhvers staðar en hætta við það ef mig langar meira að gera eitthvað annað. Ekki góður mórall. Hins vegar veit ég líka að sópraninn er best staddur, margar góðar stelpur að syngja og kunna þetta vel. Þannig að sýningin hrynur ekkert þó ég detti út. Hmmmm?

2005-08-30

Jæja, þá er maður búinn að kenna fyrsta daginn sinn í LHÍ, hefði átt að vera stressaðri - eða ekki. Hreint ekki sem verst, krakkarnir í Tónheyrn 1 eiginlega alveg á sama standard og þau sem eru að byrja hjá mér á þriðja árinu í Hafnarfirði. (áfangi sem er eiginlega kominn fram yfir framhaldsskólaskylduáfanga og upp á háskólastig) Maður er greinilega að gera bara allt í lagi hluti þar.

(gott líka að geta bara gengið í sama námsefni, ekki satt...)

Svo voru þvílíkar omvæltninger í Sinfóníuhljómsveit áhugamanna, leiðurum bæði fyrstu og annarrar fiðlu velt úr sessi, fólki róterað fram og til baka. En mætingin var snilld, 8 fyrstu fiðlur, 9 aðrar, 6 víólur, 6 selló og 3 bassar. Lofar verulega góðu fyrir veturinn.

2005-08-29

Búið að raða öllum Suzukikrökkunum á tíma, þá er bara að bíða eftir öllum brjáluðu foreldrunum sem hringja og skammast yfir því að barnið þeirra hafi verið sett í tíma þar sem það kemst ekki. Þeim var nær að vera ekki búin að skila inn stundatöflu eins og átti að vera búið á föstudaginn var.

Og á morgun tekur alvaran við, tónheyrnarkennsla í LHÍ. Úff. Hef ekki einu sinni getað sett nemum fyrir á netinu þar sem ég er ekki komin með lykilorð að kerfinu. ópró, ég...

2005-08-28

Miðbæjarrotturnar mættar aftur á svæðið. Vesturferð fín, fullur dallur af krækiberjum en bláberjauppskeran olli vonbrigðum. Svolítið löng ferð fyrir tvo heila daga, ekkert þó á við að fara í helgarferð til Bandaríkjanna. Verðum amk ekki tímaveik næstu vikuna.

Myndir fljótlega.

Býð annars nýjan bloggara velkominn í hópinn. Fjórða tónskáldið sem ég veit til að haldi úti bloggsíðu. Svo er bara að sjá hvernig gengur...

2005-08-25

búin að vera á þeytingi frá hádegi, steikja kjúklingaleggi, finna flíspeysur, húfur og úlpur, pakka niður, já, við keyrum vestur í Dýrafjörð á eftir. Búin að fá fólk til að passa Loppu og húsið. Berin kalla...

2005-08-24

seinni hluti skyndihjálparnámskeiðsins var fínn. En maður klórar nú bara rétt í þekkinguna með svona tveggja morgna kynningu. Væri alveg til í að fara á lengra námskeið.
uss, hvaða vitleysa, spáin er ekkert vond. Hmm, kannski maður ætti bara að drífa sig...
mér sýnist ekkert verða af því að við förum vestur á Núp í sumar, ætluðum að reyna að fara einhverja helgina núna. Spáin er óspennandi núna um helgina, næsta helgi er reyndar enn inni í myndinni, (þó ég þurfi þá að sleppa kóræfingu sem ég er sjálf búin að boða). Vonandi komumst við, mig er farið að langa til að komast vestur.

2005-08-23

Þá eru kvöldæfingar búnar í bili, maður fer að sjá framan í fjölskylduna, gott mál. Rennsli í gær var reyndar alveg skelfilega lélegt, en það er ágætt að taka annarrarsýningarsjokkið frekar núna og passa sig betur þegar að því kemur.

Skyndihjálparnámskeið í morgun í Hafnarfirði, ég hef ekki farið á slíkt síðan í níunda bekk (og það eru sko möööörg ár síðan ég var í níunda bekk) Ógurlegur töffari sem hélt námskeiðið, verður gaman að fara á seinni hlutann í fyrramálið ;-) Lærði svo sem ekki mjög mikið nýtt, mest bara svona kommon sens dæmi um viðbrögð, smá breytingar á því hvernig maður fer með þann slasaða. En á morgun verður meira farið í hluti sem er líklegra að komi upp í skólanum.

Kennslan hjá mér byrjar annars í smáskömmtum, næsta vika í LHÍ, þarnæsta í Hafnarfirði og tvær vikur í Suzuki. Tónfræðin byrjar yfirleitt viku síðar en einkatímarnir. Kvarta svo sem ekki...

2005-08-22

Þetta er snilld. Passið ykkur, þetta er eiginlega bannað samt.
þá er maður búinn á tölvunámskeiði í LHÍ, búin að fá netfang þar en kemst ekki inn á það ennþá, (veit ekki leyniorðið), fæ hjá þeim heimasvæði (engin afsökun lengur fyrir að setja ekki upp heimasiðuna, garg. Þarf að læra mun meira í html)

2005-08-21

Bara vinnan á morgun. Kynning á tölvukerfi Listaháskóla í fyrramálið, kennarafundur í Hafnarfirði eftir hádegi, þarf að kíkja í Tónastöðina líka, svo námskeið og fundir fram eftir viku. Svo sem allt í lagi nema ég hlakka ekki til að raða stundatöflunum í Suzukiskólanum. Það er svona púsluspil þar sem alltaf eru svona 20 stykki sem ekki passa og svo vantar líka helling. Kemur í ljós.

Hef ekkert fengið að vera í tölvunni í dag, búhú. Bakaði bláberjaköku og vöfflur fyrir bloggvinkonu sem ætlaði að koma í heimsókn en náði því svo ekki (treysti á þig næst, Harpa ;-) ). Kallaði bara á mömmu og pabba og Óla bróður í kaffi í staðinn, ekki gátum við farið að borða þetta allt sjálf...

2005-08-20

jæja, mín menningarnótt búin, horfðum á flugeldasýninguna á tröppum fjölbrautaskólans við útitaflið, hellirigning, þakka fyrir að einhver starfsmaður Íslandsbanka var að dreifa fríum regnhlífum við rásmark maraþonsins í dag. Annars var dagurinn bara hreint ljómandi fínn, tónleikarnir tókust vel, sérstaklega þeir seinni, veðrið var eins og best varð á kosið, fyrir utan tvær svona skúrir var bara sól og fínt. Eftir tónleikana var síðan boðið upp á freyðivín (sætt sull reyndar) og ljómandi góða tapasrétti uppi á háalofti í Iðnó. Ég hef aldrei komið þangað upp áður, mjög sjarmerandi.

en nú er ég farin í háttinn. Bloggvinkona boðaði sig í heimsókn á morgun, þarf smá að taka til ossoleis ;-)
menningarnótt í dag, nú verður gaman. Bara vonandi að veðurspáin klikki og hann haldist þurr.

bíllinn minn verður ekki hreyfður í dag. Enda þarf þess svo sem ekki. Allt í göngufæri. Þarf að skjótast niður í Dómkirkju og bera palla yfir í Iðnó. Ætli maður kíki þá ekki á startið á maraþoninu í leiðinni.

Annars ekki smá margt sem mig langar að sjá og heyra. Verst að eitthvað af því rekst á við okkar tónleika í Iðnó.

2005-08-19

Þá tæmast allar buddur og veski og reikningar, skólarnir eru að byrja. Innkaupalistar ekki komnir á síðu Austurbæjarskóla þó þau haldi það reyndar sjálf, skv heimasíðu heimasíðuhönnuðum skólans ætti þetta nú ekki að klikka, perónuleg þjónusta og allt...

(hvað er peróna annars? lítil pera?)

2005-08-18

æ æ

vesalings fólkið í Langholtskirkju...
ég er búin að skipta um skoðun. Held að þetta verði flottasta sýning Sumaróperunnar frá upphafi. Sporin sem við tökum eru barasta hreint ekkert út í hött þegar þetta kemur allt í samhengi. Músíkin er snilld, ég get ekki beðið eftir að fá hljómsveitina.

Bara eitt spor sem ég er ósátt við, sjáum hvort við náum því út annað kvöld.

Syngjum tvo kafla úr óperunni klukkan 5 og klukkan 8 á menningarnótt í Iðnó. Allir velkomnir að sjálfsögðu. Verðið samt að ímynda ykkur hvernig þetta hljómar með 80 manna hljómsveit...
snilldarveður og mig langar út á pall. Var hins vegar löt í morgun og síðustu tveir dagar fóru fyrir lítið í tónsmíðunum þannig að ég verð víst að vera inni og vinna. Fífa er hins vegar í fermingarfræðslu (já ég veit, þið kæru trúleysinigjar sem lesið, en hún ræður þessu sjálf) og þau áttu að fá að fara í Viðey í dag, grilla pylsur, skemmta sér og fræðast. Heppin með veður amk.

Ójæja. Rennsli í kvöld, spennandi að vita hvernig gengur.

þetta mun vera fimmtánhundraðasta færslan á síðuna. Gaman að því.

2005-08-17

broskallinn er búinn að missa brosið. Súrt.
ég er að sofna og nenni ekki á æfingu. grrr

2005-08-16

langur dagur þetta og ekki alveg búinn enn. Keyrt í slagveðri austur (hmm, suður?) í Flóa, stelpuskottin spiluðu í dag eins og þær ættu lífið að leysa, ættu að vera komnar í háttinn. Veðrið mun skárra á heimleiðinni, amk var ég ekki alltaf með lífið í lúkunum þegar ég mætti stórum trukki. Fjögurra tíma óperuæfing gekk fínt en nú á ég eftir að skrifa nótur inn í líbrettóið áður en ég gleymi öllum þessum frístælsporum sem við eigum að stíga þarna fram og til baka. Síðan aftur í Flóann í fyrramálið, heim síðdegis og svo meiri æfingar. Sumarfrí kennara, ha?

2005-08-15

Þá er verið að pakka fyrir sellónámskeið yngri frökenarinnar á bænum. Myndavélin, já, nærri gleymdi ég henni. Brunum austur í Þjórsárver (félagsheimilið þ.e.a.s.) í fyrramálið og svo verður spilað og spilað. Ein nótt í gistingu, ég kem nú samt í bæinn, get ekki sleppt sumaróperuæfingu, ekki veitir af þeim tíma sem við höfum í Þjóðleikhúsinu. Færsla annað kvöld ef ég nenni.
búin að negla stjórnanda fyrir Hljómeyki í vetur, sjálfur dómorganistinn tekur okkur að sér. Ekki smá fegin. Hundleiðinlegt að vera stjórnandalaus kór.
svei mér þá, mér finnst ég ekki gera annað en borga skatta.
Fyrir nokkrum dögum var ég að kalla eftir nýrri útgáfu af Trivialspurningum. Við spiluðum í kvöld (nú vann ég), vorum komin tvo hringi í fjólubláa spurningakassanum þannig að við bökkuðum í gula kassann. Yfirleitt allt í lagi nema íþróttaspurningarnar voru gersamlega ómögulegar: Hver vann Bautabikarinn í golfmóti Bautans á Akureyri árið 1986? Ef þið getið svarað þessu án gúgls ber ég óendanlega virðingu fyrir ykkur - uuu, eða kannski ekki...

2005-08-14

rifsberjahlaup komið á níu krukkur, vonandi hleypur þeð. Hefur strítt mér áður og harðneitað að hlaupa. Trúlega vegna þess að ég kreisti helst ekkert berin, til að hlaupið verði tært. Gerði málamiðlun núna og kreisti fyrri helminginn (þurfti að sjóða í tvennu lagi)

húsmóðurbloggi lokið í bili eða þar til rabarbarasultan verður soðin...
Fyrir nokkrum mánuðum var ég að kvarta yfir fjölda umferðarljósa á Bústaðavegi/Snorrabraut. Snorrabraut sýnu verri. Nú eru þeir held ég samt algerlega farnir yfirum. Gönguljós á mótum Snorrabrautar og Grettisgötu. Giska á að það séu um fimmtíu metrar frá þessum verðandi ljósum í ljósin á Laugavegi/Snorrabraut, heldur lengra að Bergþórugötuljósunum. Hvenær megum við búast við ljósum á Njálsgötuhornið? Myndi fullkomna pakkann.

2005-08-13

þá er Áslákur tunnusmiður um það bil að verða búinn með tónleikana sína. Verð að viðurkenna að ég sé ekki eftir að hafa misst af þeim.
Nú er eldavélin mín endanlega að gefa upp öndina. Stærsta hellan (og sú sem við notum mest) slær alltaf út aðalrofann í húsinu. Neita að gera við hana, ekki þess virði. Þá er bara að fara að skoða. Svakalega flottar gasvélar í Kokku, rándýrar reyndar, veit ekki hvort við tímum því. En ég er hrædd um að við neyðumst til að brjóta eigin reglu og kaupa á afborgunum, arrgh.
næsti bar í kvöld eftir sumaróperuæfingu óvenjulegt að fara á pöbb að kvöldlagi og kjafta bara um óperur og þann pakka allan, bara skemmtilegt, en reykingafýlan af mér ómægod! liggur við að það sé sturtan bara núna, fötin amk beint í vél. ojbarasta.

var verið að tala um stjörnumerki, „fræðingunum“ tókst gersamlega ekki upp, gott mál, hehe...

2005-08-12

Fórum í hádeginu og ætluðum að sampla píadínur í Stúdentakjallaranum, einhver var búinn að segja að þar fengjust góðar slíkar. Þar var hins vegar allt lokað og læst. Síðan þeirra er niðri. Veit einhver hvenær er opið? eða er bara matsala þar meðan háskólinn er í gangi.

Elduðum píadínur eftir uppskrift frá Nönnu um daginn, segi eins og hún að okkur tókst ekki að fá þær nógu þunnar og svo var aðeins of mikið brauðbragð (of lítið flatkökubragð) fyrir minn smekk. Hmmm. Prófast aftur.
þá er yngri dóttirin farin í aðra vinnuna sína á ævinni, hún gerðist fyrirsæta um daginn, verður í einhverri auglýsingu frá Póstinum. Núna er hún að tala inn á teiknimynd. Ætli hún verði eitthvað í fjölmiðlum þegar hún stækkar?
rifsberjahlaupsgerð í dag, ekki seinna vænna, áður en öll grænu berin hverfa. Hananú, nú er ég búin að gera það opinbert, neyðist til að standa við áætlunina. Efast nú samt um að ég fari með hlaupið mitt í sultukeppnina á markaðinum uppi í Mosfellsdal á morgun. Get ekki hugsað mér að „bragðbæta“ hlaupið með engifer eða kóríander ;-)

En á markaðinn skal ég, ætla að kaupa mér næpur. Næpur eru uppáhalds grænmetið mitt. Alltaf jafn pirruð á því að þær fáist ekki í búðum.
Þetta er frábær grein um fæðingarorlofsmálin. Gæti ekki verið meira sammála.

2005-08-11

Nú sýnist mér vera að koma tími á að Hljómeyki haldi tónleika með þemanu: Tónlist eftir kórfélaga. Ekki smá mörg tónskáld í kórnum í vetur. Fyrir utan undirritaða eru Elín Gunnlaugs og Hreiðar Ingi búin að vera lengi með, Skúli Hakim semur og semur, Andrés nýi tenórinn er að byrja í Listaháskólanum í tónsmíðum og síðast en ekki síst er hún Þóra að byrja í kórnum. Skemmtilegt.

2005-08-10

mágkona mín glænýr bloggari. Kíkið endilega.
ég varð mjög glöð og ánægð um daginn.

Mér þykir ferskur kóríander algerlega óætur. Það er ekki hipp og kúl. Allar matreiðslubækur sem gefnar eru út nútildags stæra sig af ógrynni af ferskum kóríander til skrauts og „bragðbætis“

Svo kom hann elsku Hjörtur minn garðyrkju- og plöntufræðingur með útskýringu.

Það er nefnilega arsenikbragð af ferskum kóríander. Finna það ekki allir, það er eitthvað genetískt. Annaðhvort finnur maður þetta eða ekki. (alltílagi, hann er ekkert eitraður, bara fjarskyldur arsenikættingi). En allir þeir sem finna þetta finnst eins og mér að það sé ekki nokkur leið að láta þessa skelfingu inn fyrir sínar varir.

Sem skraut getur maður notað breiðblaða steinselju, varla nokkur leið að sjá muninn (því miður, ég verð alltaf að spyrja hvort þeir séu búnir að eitra fyrir mér eða þá biðja Hallveigu systur að smakka fyrir mig).

Skamm Nigella!
garg!

ætlaði í fiskbúðina mína, úti á Freyjugötu, þá er hún bara lokuð um óákveðinn tíma. Vonandi ekki endanlega, þessi fína gamaldags fiskbúð.

2005-08-09

er gersamlega að sofna hér yfir Vídalínsmessu, var að klára allan sönginn í kórköflunum. Hún er komin upp í tæpar 25 mínútur, með resitatífunum giska ég á svona 35 mín í allt. Bara passlegt, ekki alveg eins löng og Guðbrandsmessan sem var 3 kortér.

Á eftir að orkestrera svolítið (skrifa út fyrir hljóðfærin, sko), byrja á því á fullu á morgun. Jú, og velja texta fyrir resitatífin. Verst að ég missi alltaf einbeitinguna yfir Vídalínspostillu. Ekki smá hvað maðurinn gat skrifað af löngum ræðum.
mig langar svolítið í þessa bók. Hljómar spennandi. Spurning hvort maður sé nógu góður í eðlisfræði til að nýta sér hana.
Þetta er ekki smá flott.

2005-08-08

já og svo steingleymdi ég að auglýsa eftir áttugþúsundasta gesti á síðuna, þar missti einhver af verðlaunum. Ætli ég sleppi þá ekki 90þúsundinu líka og hafi næst bara 100.000.
nú ætlaði ég að skrifa skammarblogg og hugsaði þá til systur minnar sem skammar mig alltaf fyrir að vera ekki dipló á blogginu. Þannig að ég sleppi því í þetta skiptið.
þessi nýjasta Trivialútgáfa frá árinu 2000 er að verða ansi hreint gömul. Hvað er með tómar Friendsspurningar í bleiku kategóríunni, nevermænd fótboltaliðin sem vinna íslandsbikar kvenna árið 1997? Hvenær kemur ný útgáfa með spurningum úr Lost og Desperötuðum hjásvæfum? Ég kem nú reyndar ekkert frekar til með að geta spurningarnar um strandblakstitil ungmenna árið 2005...

2005-08-07

fór annars í Skálholt í gær, síðasta tónleikahelgi. Hálfsá eftir að hafa ekki frekar farið í dag, vissi ekki að nýju verkin yrðu líka flutt í dag, ásamt verkinu hennar Þóru. Verður ekki breytt úr þessu.

Tvennir tónleikar, fyrri með Skálholtskvartettinum, verk eftir Haydnbræður og Boccherini, ágætis tónleikar nema fyrsti fiðluleikarinn er eiginlega orðinn fullgamall, spilaði því miður ekki nægilega hreint. Truflaði mig svolítið. Hinir voru allir fínir. Síðasta verkið, kvartettkafli eftir Boccherini, tókst best og var líka svo ljómandi skemmtilegur. Brá fyrir flamencotakti og meira að segja stefi úr Star Wars (stríðsstef Darth Vader).

seinni tónleikarnir voru hins vegar tær snilld. 8 frábærir sellóleikarar spiluðu 3 glæný verk ásamt tveim eldri (ekki mjög gömlum þó). Frumflutt verk eftir þrjú staðartónskálda, Önnu Þorvaldsdóttur, Gunnar Andreas Kristinsson og Huga Guðmundsson. Allt flott stykki, Önnu verk mikið stemningsstykki, flaututónar mjög ráðandi. Gunnars verk var kannski það sem höfðaði mest til mín, mikið flæði hugmynda, hugvitsamlega unnið úr þeim, mjög flott notkun á yfirtónaröðinni (sem þýðir notkun á kvarttónum, utan tóntegundar). Flutningurinn var frábær, aðdáunarvert hreinir kvarttónar. Ekkert sérstaklega létt að samstilla þá. Verk Huga var vandað og fallegt eins og hann á vanda til, hef þó heyrt önnur verk eftir hann sem hafa hrifið mig meira. Kannski þarf maður að þekkja það betur, stundum svoleiðis.

Síðan var verk eftir rúmenska tónskáldið Doinu Rotaru. Aldrei heyrt um þessa konu áður en á eftir að sækjast eftir að heyra meira. Snilldarverk,flott í forminu, áhrifaríkt, nýtir hljóðfærin til fullnustu. Hún verður eitt af staðartónskáldum næsta sumar, maður má ekki láta þá tónleika fram hjá sér fara, nokkuð ljóst.

Tónleikarnir enduðu síðan á ljómandi fallegu verki eftir Snorra Sigfús Birgisson, byggðu á Liljulagi. Snorri stjórnaði einnig tónleikunum af myndarskap.

Sá ekki eftir að hafa drifið mig á tónleika. Krakkarnir fóru öll með og tóku þátt í Tónlistarsmiðju unga fólksins, frábært tiltæki að henda ekki krökkunum bara í pössun á meðan tónleikarnir eru heldur fá þau sína hluti að glíma við og halda síðan tónleika fyrir foreldrana í lokin. Finnur var kannski aaaðeins of lítill en hafði samt mjög gaman af þessu.
var að koma heim úr partíi hjá Árna Heimi, hittum þar Hallveigu, Jón Heiðar, Gunnar Hrafn, Elfu Rún, Helga og Hrönn, Skúla, nöfnu mína, Helgu Þóru og Víking. Sjálfsagt hafa verið fleiri bloggarar á staðnum, kannski er ég að gleyma einhverjum en þetta er nú ekki sem verst eða hvað?

2005-08-06

er að drekka fljótandi Pipp á la San Marino

þetta er EKKI vont!

2005-08-05

húkkt

á einhver ónotaðar sudokuþrautir handa mér? bækur? vefsíður? 3 í kvöld og á enga fyrir morgundaginn. Gunnar Hrafn???
Finnur fyndni að verða lasinn?

Mamma, mér er illt í öllu. Nei, ekki alveg öllu, ekki rassinum.
er að hugsa um að aðstoða hana systur mína; vegna dræmra undirtekta á hennar síðu.

Langar ekki einhvern ógn í sjöttu HarryPotter á svakalegu útsöluverði? fimmtánhundruðkall. Harðspjalda í fullorðinskápu. Tilvalin gjöf fyrir unglinginn sem er næstum farinn að lesa á ensku, ekki nóg til að kaupa sér bókina en er samt spenntur fyrir sögunni. Kommentið bara beint hjá henni...
enn með harðsperrur, ágætt að það er ekki æfing í kvöld. Engar jassballetthreyfingar í dag, takk. Þarf annars að skrifa niður þessar hreyfingar allar í nóturnar, væri örugglega auðvelt að gleyma þeim.

2005-08-04

smá mynd að komast á fyrsta hlutann af Freischützinum. Við hlaupum út um allt svið, röðum okkur í tvöfaldar raðir og þríhyrninga, frjósum í 3-4 mínútur (erfitt). Hlæjum og ógnum. Allt á - tja svona 8 mínútum giska ég á. Partí á morgun, sleppi því trúlega, kvöldin undirlögð í þetta í heilar 3 vikur, langar mun meira að hitta fólkið mitt annað kvöld.
tók aðeins til á tenglalistanum, 3 farnir út, einn virðist hættur og tveir ekki hreyfst síðan í apríl. Nógu langur listinn minn samt.
neibb, ég heiti ekki Snati. Ekki alveg eins slæmt og ég var hrædd um samt, munar þar örugglega öllu að kunna góðar teygjur. En ég þarf að gera einhverjar æfingar til að ráða við þessar hreyfingar fallega, það er ljóst.
og talandi um fyndna ketti þá er þetta ansi gott líka. (og talsvert saklausara)
viðvörun - ekki fyrir tilfinninganæma, bara svona andstyggilegt fólk eins og mig ;-)

fann þetta hjá Halli, langt síðan ég hef hlegið eins mikið. Grey kötturinn, samt...

2005-08-03

ef ég á ekki eftir að vera með fokvonda strengi á morgun má ég hundur heita. Fyrsta sviðsæfing á Freischütz áðan, ég hélt að danshöfundurinn myndi drepa mig. Reyndar eiginlega ekki nema ein æfing sem var svona vond, hitt var ekkert mál. Niður á annað hnéð, sitja þar í smá stund, upp aftur, endurtekið svona 117 sinnum. Framlærvöðvar mínir standa ekki alveg undir svonalöguðu. Gat varla gengið eftir æfinguna, réði ekki við 4 tröppur (ég er ekki að ýkja, ég hrundi niður síðustu tröppuna af sviðinu í Iðnó, lenti á hnénu) Ætla nú samt að reyna að teygja svolítið betur áður en ég fer að sofa. Læt ykkur vita í fyrramálið hvort þið megið fara að kalla mig Snata.

Fýlan úr Tjörninni var mun skárri í dag, kannski bara önnur átt.
Einhvern vegnn rámar mig í það að ýmsir lesendur hér hafi verið að lýsa fýlunni úr síkjunum í Feneyjum. Skal bara segja ykkur það að umrædd fýla kemst engan veginn í hálfkvisti við fýluna úr blessaðri Tjörninni okkar Reykvíkinga. Og það þrátt fyrir talsverðan mun á hitastigi. Æfðum í Iðnó í gær, opnuðum út í átt að Tjörn og það var nær ólíft í salnum. Ojbara. (eða Eeuwww eins og unglingurinn minn myndi líklega orða það)

2005-08-02

Töfraskyttan er ekki smá skemmtileg ópera. Fullt að gera fyrir kórinn, annars veit ég ekki hvort ég myndi standa í að taka þátt, ólaunað. Einhvern tímann skal ég komast í kórinn í Óperunni. Ágætt að hafa þá smá reynslu.
Sitzprobe á sumaróperunni (sem endar víst reyndar á að verða vorópera næsta vor) í kvöld. Spennandi. Frumsýning ekki fyrr en á listahátíð 2006, en við verðum með tvenna tónleika á Menningarnótt. Þétt æfingaprógramm framundan, reyndar nærri á hverju kvöldi næstu þrjár vikur. Öll kvöld nema núna á föstudaginn, þá er bara partí í staðinn. Veit nú ekki með það, kannski maður sjái framan í fjölskylduna svo sem eitt kvöld.

farin á æfingu. Útlistun síðar.
Ég held að börnin mín séu öll orðin að unglingum. Og það er bara eitt af þeim komið með opinbert unglingaleyfi. Steinsofandi allan morguninn. Nei, þarna heyri ég einhverja hreyfingu, sá litli líklega.

Tókst að borga skattinn í annarri tilraun, léttir mikill.
í símanum við tollinn:

- enn eru allar línur uppteknar, símtölum verður svarað í þeirri röð sem þau berast. -

6 minutes and counting...

2005-08-01

arrg, þetta skattakjaftæði gerði það að verkum að ég steingleymdi mér og er nú búin að missa af tónleikunum í Skálholti sem ég ætlaði annars þvílíkt á :-( muuu
var að reyna að borga stóra ljóta skattinn minn (ágústgreiðslu) en tókst ekki að finna bankanúmer tollstjórans. Verð að hringja strax í fyrramálið og vonast til að fá ekki dagsekt.

venjulegt fólk lætur jú launagreiðandann sinn borga þetta fyrir sig en aumingja Anna á Suzukiskrifstofunni hringdi alveg eyðilögð í mig út til Ítalíu, ég á að borga meiri skatt á mánuði heldur en útborgunin sem ég fengi. Ég gat róað hana með því að ég ætti nú alveg fyrir þessu, væri búin að leggja fyrir (örlitlar ýkjur reyndar), þannig að okkur samdist um að ég borgaði þetta bara sjálf. Gerðum reyndar sama í fyrra en ég finn hvergi númerin samt. Skrítið.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?