<$BlogRSDUrl$>

2005-03-31

hann Gunni sæti tenór og ofurlæknanemi er kominn með blogg í Ameríkunni. Fer að sjálfsögðu strax á tenglalistann.
urr

sé fram á að vanta einn tenór í sumar, aaldrei þessu vant, nei nei! Gunni, geturðu ekki skotist heim í viku? ;-) Er þó með þrjá, hefur svo sem verið verra. Spurning um hvort maður ætti að fá einn lánaðan úr Hamrahlíðinni, þau eru núna að syngja stærsta verkið sem við verðum með í sumar.

mínídiskspilarinn farinn af svæðinu og ég ekki einu sinni búin með tvo af fjórum diskum. Mjakast, þetta mjakast...

2005-03-30

Kom heim frá Hafnarfirði beint í grillaðan kryddleginn þorsk, Jón Lárus búinn að draga grillið fram + kaupa kol og elda. Ekkert smá gott. Fyrsta grill „sumarsins", við eigum ekki gasgrill, né kolagrill með loki, þannig að við grillum almennt ekki yfir vetrartímann, nema veðrið sé því betra.

þetta var amk tær snilld.

Upptökurnar mjakast, ég er þó ekki alveg viss um að ég nái að klára áður en ég missi afnot af minidiskspilaranum. Óli bróðir á hann og þarf að taka með út á laugardaginn. Gæti neyðst til að snapa annan í láni til að geta rúllað þessu upp. Verður frábært að klára. Vonandi verður síðan ekki tveggja ára bið í diskinn, annað eins hefur nú gerst...
mikið hrikalega er erfitt að velja svona tökur. Hjálpar ekki að upptakarinn gleymdi að búa til tracks (trökk?) fyrir amk 18 mismunandi tökunúmer þannig að ég þarf sífellt að vera að hægspóla yfir fullt af efni. Svo eru teknir mislangir bútar, þvílíkt mál að halda utan um hvað er komið og hvað ekki, tína hljóma og takta innan úr hinni og þessari tökunni til að spasla í það sem var ekki alveg pottþétt í grunntökunni sem verður notuð af þessum bút...

vitið þið, ég er ekki að hugsa um að gera þetta alveg ókeypis. Hinn upptakarinn sem við notum oftast vinnur þessa grunnvinnu nefnilega alltaf, svo kemur maður inn og fínpússar með honum. Glætan að ég láti útgefandann spara sér þann kostnað með því að gefa þessa vinnu! Þó þetta sé mín eigin músík.

2005-03-29

Stafýlókokkar og loftóháðar bakteríur í eyra á stráksa, Zitromaxið á að taka það, sem betur fer, fékk samt líka dropa til að setja í eyrað. Ekkert smá fegin að hann sleppur við innlögn og sýklalyf í æð. Hefði ekki verið skemmtilegt (enni þurrkað með feginssvip)
rokkdrottningin og dætur í mat (nei, ekki þannig, mannæturnar ykkar, það var nú bara kjúklingur í matinn)

myndi einhver lesenda minna mæta á tónleika með Megadeth? spurning um hvort þeir komi hér í sumar. Eini rokkarinn sem ég þekki finnst þeir of heavy.

2005-03-28

blogger erfiður núna.

annars eru tenglarnir mínir eitthvað að týna tölunni, henti út tveimur sem voru búnir að loka síðunum :'-( Sumir eru líka komnir á gjörgæslulistann, engin hreyfing fulllengi fyrir minn smekk.
uppþvottavélin er það besta sem ég veit. Úff hvað við hefðum þurft að standa við vaskinn í dag, ættum við ekki svoleiðis verkfæri. Örugglega 4 tíma, minnst. Og annað matarboð í kvöld (minna, reyndar, en samt...)
gamla páskamyndin mín virðist vera erfið, best að skella nýrri hér inn í staðinn, fengin frá tótu.


vonandi sést þetta!

2005-03-27

Herr, herr, herr, unser Herscher -

Jóhannesarpassíon rúlar, tveim dögum eftir besta spiladag (útrunnin, haaa???).

vorum annars með páskalamb des Todes, kryddjurtalæri frá Nönnu, tótal snilld

tengdamamma er samt best, þetta læri gat ekki mælt sig við hennar. Hilda amma var eina sem ég þekki sem náði lambalærum í sömu hæðir og tengdó. Maður á langt eftir.

Forrétturinn hennar mömmu og desertinn hennar Hallveigar stóðu veeel fyrir sínu, samt...


Gleðilega páska(ef þið sjáið ekki sætu páskamyndina mína, þá er hún hérna)
(má ég núna, Hallveig ;-)

2005-03-26

Veit að ég hljóma eins og biluð plata (fyrir þá sem vita hvað biluð plata er), en ég sakna kommentakerfisins míns. Bannsett þrjóska bara, að vera ekki búin að skipta yfir í halló'skan, en ég tími ekki að týna gömlu kommentunum og þar fyrir utan er enetation að mörgu leyti skemmtilegra kerfi. En ekki eins stabílt, það er víst óhætt að segja það!
las nýjustu Kathy Reichs bókina í einum rykk í dag, fékk lánaða hjá þessum bloggvini. Fannst hún reyndar betri en Bare Bones, næsta bók á undan.

Og ég sem ætlaði að vera að vinna í dag. Gat reyndar klárað að velja tökur fyrir eitt lag og byrjað á öðru, er að vinna í klippingum á verkunum sem við tókum upp í lok janúar. Verður víst að gerast svo diskurinn komi einhvern tímann út...
nú fer að nálgast sextíuþúsundasta heimsóknin á síðuna. Vonandi verður kommentakerfið uppi, þannig að sá sem fær töluna geti látið vita af sér

(Þorbjörn, skulda ég þér ekki annars vinning? Kíkjum á það næstu helgi)
dagurinn í dag jafnerfiður og í gær. Sko, gærdagurinn; tvær veislur, fermingarveisla des Todes og svo þessi scwakalega matarveisla heima í Garðabænum. Svo í dag: matarboð hjá tengdó, jafnflott og það alltaf er, matur og svo 3 mismunandi tegundir af desert. Síðan áttræðispartí (ókei, tvíburafertugsafmæli) endalaus matur og annað eins að drekka. Látið mig vinsamlegast vita af innsláttarvillunum hér, ef þið finnið...

Spjölluðum við Eirík Nönnubróður og Guðrúnu, gaman að því.

2005-03-25

Á ekki af Finni ræflinum að ganga. Ágmentínið virkaði ekki bofs, nú er hann kominn á Zitromax fallbyssu, einu sinni á dag í 3 daga, við búin að fara með sýni í ræktun, vonandi sleppur hann við að leggjast inn með sýklalyf í æð. Það gæti verið næsta skref, ef þetta virkar ekki :-(

2005-03-24

ef þetta Fischer mál hefur gott í för með sér, þá er kannski betur af stað farið en heima setið.Gleðilega hátíð, allir :-)þessi blóm voru svo fín hjá Farfuglinum að ég bara varð að ræna myndinni.
stelpurnar eru hér enn, og enn að horfa á sjónvarpið. Held nú samt að þær hafi náð að sofa eitthvað, allar fjórar í einni hrúgu í sjónvarpssófanum. Það hefur verið þröngt.

Svo byrjar spurningakeppni fjölmiðlanna á rás 2 í dag, hún er alltaf svo skemmtileg. Ætli hún verði ekki örugglega sett á netið?

2005-03-23

það er greinilega ekkert hægt að grípa fyrir augun á skelfilegum stöðum í þessari mynd, þeir koma allir óundirbúið. Skrækirnir, maður minn, og móðursýkislegi hláturinn sem fylgir. Ungdómurinn nútildags... ;-)
unglinganáttfatapartí í gangi hér heima, litlu systkinin farin í gistingu en foreldrarnir neituðu að vera fjarverandi; láta þó lítið á sér bera. Stelpurnar niðri í (heima)bíói að horfa á Anacondas (með loforði um að halda fyrir augun þegar svakalegustu atriðin koma), borða popp og snakk og garga. Ég með popp, snakk og bjór og blogga...
ahhhh :-)
ekkert smá hvað enetation hefur hrunið illa núna. Eins og það er búið að vera stabílt upp á síðkastið! Sé að það er komið á sumar síður, vonandi fer það að sýna sig á minni fljótlega. Öll kommentin sem ég er búin að missa af að fá, búhú!

2005-03-22

hvar eeeer kommentakerfið mitt? :'(
þriðji dúettinn kominn. Þvílíkt popp sem þessir dúettar eru. Aldrei samið neitt líkt. Spurning hvort maður sé kominn með eitthvað icerapp syndróm (ROTFL....) Hlakka ekkert smá til að heyra. Frumflutt 12. apríl í Salnum. Mega.
Tvisvar á ævinni hef ég tárast á tónleikum, við að heyra flutning á tónverkum sem ég hef ekki heyrt áður.

Annað skiptið var það Óttusöngvar á vori eftir Jón Nordal
hitt skiptið var það Veni, veni, Emmanuel eftir James MacMillan

Óttusöngvana hlusta ég mjög oft á, verkið hefur ekki dalað með tímanum.
Og ég fann Veni í 12 tónum í dag. Best að taka fram vasaklútana.
voðalega er maður eitthvað handalaus að komast ekki inn á síðuna sína. Enetation búið að vera í einhverju tjóni í dag og ég hef ekki komist inn á mína eigin síðu nema með höppum og glöppum. Allir tenglarnir mínir þar að þvælast, þarf í einkabankana og hitt og þetta annað, glætan að ég muni öll þessi url.
þá er að redda pössum fyrir krakkana, ekki að hugsa um að lenda í sama veseninu og þegar við Fífa fórum til Englands fyrir tveimur árum og ég uppgötvaði kvöldið áður en við fórum út að passinn hennar var útrunninn. Fengum framlengingarstimpil hjá tollvörðunum þannig að við sluppum með skrekkinn. Úff. Fórum í morgun að láta taka myndir af þeim, voða fínar bara :-)

2005-03-21

Finnur ræfillinn með eyrnabólgu einn ganginn enn, lyfið virðist ekki virka við henni, hann á að fara á einhvern megabolta. Þetta eyrnastand eeeer svooo leiðinlegt fyrir þessi litlu grey, tala nú ekki um foreldrana. Annars er hann voða duglegur að taka meðul, ég vona bara að þessi Augmentínmixtúra sé ekki of svakalega bragðvond.
sveimérþá, það er nú bara ekki normal hvað ég verð alltaf orkulaus eftir ræktina. Ætli ég sé ekki bara með ofnæmi fyrir endorfíni eða eitthvað?

2005-03-20

við erum að hlusta á Orð skulu standa, uppáhaldsútvarpsþáttinn okkar, en hvað á það að þýða að vera að pína mann með Savannatríóinu. Ojjjj! Þetta fína írska þjóðlag, og eyðilagt með íslenska áttundaáratugatríósándinu.
ekki er ég sammála sumum sem ég þekki um að Ørnen sé leiðinlegur þáttur. Þvert á móti, fullur af kolsvörtum dönskum húmor, aðeins öðruvísi en enska írónían. Tveir hrikalega fyndnir comic relief gaurar. Og bara töluvert spennandi.
fjölskyldukaffiboð bara fínt, tókst að hafa nóg að borða í þetta skiptið, ekki eins og síðast þegar allt kláraðist upp til agna og ég sá spurnina í augum fólks, er ekki meira???

best að henda ostasalatinu inn á brallið líka, samkvæmt beiðni. Ekkert smá gott. Minnir samt einhvern veginn að Nanna hafi verið að frábiðja sér fleiri ábendingar um uppskriftir að salötum með camembert, þannig að óþarfi að skoða þetta ef fólk er hundleitt á svona salötum ;-)

2005-03-19

búið að taka til í (nærri) öllu húsinu + útbúa eitt salat og 2 kökur á leiðinni. Átvöglin í familíunni (tja, flest átvöglin amk) koma á morgun í síðbúið afmæliskaffi hjá mér. Hvað gerir maður ekki til að snapa sér afmælisgjöfum? ;-)

setti annars uppskriftina að hrrrikalega góðri súkkulaðihnetuköku hér ef einhver vill.
formúlan lítur vel út, skv síðustu keppni og svo fyrri tímatöku fyrir þessa keppni verður þetta engin einstefna í ár, amk ekki sama átt af einstefnu og hefur verið undanfarið, sérstaklega í fyrra. Var líka orðið hundleiðinlegt, ég var steinhætt að nenna að horfa á keppnirnar, kannski maður byrji aftur núna.
Ég á aldrei aftur eftir að fara eftir uppskrift sem segir að maður geti notað eggaldin án þess að setja þau í saltmeðferð fyrst. Ojbara. Áferðin eins og gúmmí og vökvainnihaldið fáránlega mikið. Sjálfsagt rétt að það sé búið að rækta eitthvað beiskt bragð úr eggaldinum en saltið dregur úr vökvainnihaldinu og snarbreytir áferðinni. Ónýtur matur hjá mér í gærkvöldi :-(

2005-03-18

óratími síðan ég hef sett inn netpróf, en þetta kom bara nokkuð vel út. Passar líka svo vel við litaskemað á síðunni sko:Your Gemstone is Ruby


Daring, enthusiastic, and spontaneous.

You are energetic and passionate, with an appetite for life.


What Gemstone Are You? Take This Quiz :-)

Féll fyrir freistingunni að kaupa Incredibles DVD diskinn í gær. Var settur á í gærkvöldi, ekkert smá sem hann nýtur sín í heimabíóinu, húsið titraði í látunum. Ekki smá skemmtileg ræma.

Og svo var ég að fá Tom Lehrer safnið mitt, jei :-) Skal sett í spilarann ekki síðar en núna.

2005-03-17

ég er farin að hafa mjög ákveðinn grun um hver rýnirinn geti verið. Tengist því að ákveðinn, skemmtilegur og mjög áberandi bloggari hefur ekki verið tekinn fyrir. Ekki gruna ég bloggarann sjálfan heldur mann sem tengist...
sveimérþá ef fríið er ekki farið að nýtast! Kvennakórslagið komið, bara smá sparsl og púss í layoutinu í kvöld, þá get ég skilað á morgun, snilld. Þá er að sjá hvort ég næ dúettinum á morgun...

2005-03-16

PÁSKAFRÍ
niðurtalning: einn tími eftir.
niðurtalning: 2 tímar eftir.
Tónleikarnir í gær gengu bara mjög vel, ekkert sérstaklega vel sótt. En þetta er sniðugt konsept, mann vantar upptökur, halda upptökutónleika. Fær fínt rennsli í lögin, ekkert verið að klippa og dauðhreinsa lögin af eðlilegu músíkölsku framhaldi, upptakarinn þarf ekkert að vera að fara í felur með hljóðnema og maður fær eitthvað upp í kostnað við upptökuna. Snilld.

Eitt alveg ofboðslega fallegt lag eftir hann Tryggva Baldvins, Þú ein minnir mig að það heiti. Hlakka til að heyra það aftur í Salnum þann 12. apríl (forplögg, sko ;-)

2005-03-15

haha, bara hasar og læti! kíkið á kommentahrúguna við færsluna um Toscu, hérna svolítið neðar á síðunni. Aldrei fengið aðrar eins langlokur í komment hjá mér, ágætt að vera ekki með halló'skan núna, það tekur ekki svona langar athugasemdir.
mæli sterklega með tónleikum kvöldsins Verð á svæðinu sem tæknimaður sjálf, fjölhæf hún ég ;-)

(uuu, verð reyndar bara í því að skipta um glærur, þar sem þetta eru upptökutónleikar á ekki að vera prógramm, ekkert skrjáf í pappír, (heldur ekki selt konfekt í hörðum plastpokum). Sjáum til hvort ég ræð við að setja glærurnar rétt á, ekki á hvolfi, ekki spegilskrift, ekki of ofarlega, ekki of neðarlega...)

2005-03-14

aaahhh, góður endir á afmælisdegi. Mentor vínið frá Peter Lehmann er bara svoooo gott.

mmm
flottur broskall hjá henni Eygló
Sort of duckless today.

Ekki sniðugt, þar sem ég ætti að vera að leggja síðustu hönd á einn dúett og eitt kvennakóralag. Hmm, Vonandi missir maður ekki andagiftina við að verða 41s árs.

Nei annars, þetta er örugglega út af því að ég fór í ræktina áðan, alltaf alveg búin þegar það er frá. Best að vafra bara á netinu í smástund og sjá hvort ég hjarni ekki við.

2005-03-13

Tónleikar gengu fínt, nærri fullt hús og það er talsverður fjöldi, Neskirkja er stór.

Guðrún Anna spilaði eins og engill, áslátturinn mjúkur og Mozarttilfinningin í toppi. Held að okkur hafi ekkert tekist svo illa upp heldur, örfáir smá klúður staðir en það er nú bara viss passi hjá dílettantabandi. Ekkert mjög skrítið.

Verð hins vegar ekki með á næstu tónleikum, finnst prógrammið ekki nægilega spennandi, satt að segja. Eitt verk eftir Charpentier sem ég væri reyndar alveg til í að spila, en svo verða þetta svona silkihúfuóperuaríutónleikar. Og það finnst mér satt að segja ekki sérlega skemmtilegt. (það er að segja ef ég er ekki að syngja aríurnar, sko ;-)

Líka bara ágætt að vera heima næstu 5 þriðjudagskvöld, tja, fer reyndar á tónleika á þriðjudaginn kemur, en 4 þriðjudagskvöld eftir það amk...
Plögg dagsins:

í dag, sunnudag, klukkan 17.00 verða haldnir þessir líka fínu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar áhugamanna. Tónleikarnir verða í Neskirkju sem þrátt fyrir nafnið er ekki úti á Seltjarnarnesi.

Á efnisskrá verður forleikurinn að Cosi fan tutte og Píanókonsert # 17 eftir Mozart, einleikari á píanóið Guðrún Anna Tómasdóttir. Eftir hlé verður Ófullgerða sinfónía Schuberts. Allt saman yndisleg músík og ef okkur tekst vel upp ætti þetta að verða bara mjög skemmtilegt.

Stjórnandi er hinn bráðefnilegi Daníel Bjarnason.

Allir að mæta...

2005-03-12

Tosca afgreidd

Ekkert smá gaman að heyra og sjá. Hef aldrei farið á sýningu á henni án þess að vera að spila sjálf, þó að ég eigi náttúrlega músíkina á diski.

Söngvarar, hljómsveit og uppsetning allt saman mjög flott, en það er alveg satt hjá Jónasi, það er dósahljóð í hljómsveitinni. Hörkuband, mjög vel skipað og Kurt er fínn stjórnandi þannig að það hlýtur að vera húsið. Synd, sérstaklega vegna þess að Puccini notar hljómsveitina best af stóru óperutónskáldunum. Maður þolir frekar að heyra úmpapaið í Verdióperunum úr gryfjunni heldur en þessa safaríku hljómsveit sem einkennir Puccini.

Einhvern veginn man ég ekki eftir þessari svakalegu notkun á rörklukkum í upphafi 3. þáttar. Annaðhvort var þeim hreinlega bætt inn í, eða þá ýktar stórkostlega. Ég hef reyndar aldrei séð þessa túlkun á þessum kafla, yfirleitt er þetta ungur hjarðmaður að syngja til stelpu sem hann er skotinn í. Sniðugt.

2005-03-11

Nú eru Ædolúrslitin í gangi. Mér hefur tekist að sjá engan þátt í ár, sá einn í fyrra. Nei, skrökva því, ég horfði á einn ruglaðan þegar hann Skúli var ennþá með. Þannig að ég sá einn í ár og einn í fyrra. Fífa fór hinsvegar í ædolpartí hjá vinkonu sinni.

Jón Lárus fór í ræktina. Nokkuð viss um að þar eru ekki margir núna. Ég veit að það var felld niður sýning á Óliver fyrir norðan, það voru ekki seldir nema 10 miðar eða svo í kvöld...
fundur forsvarsmanna ýmissa tónlistarhópa áðan, í sambandi við blessað tónlistarhúsið. Heyrið væntanlega af honum eftir viku eða svo...
ljóðabókin fundin

Fífa greinilega dottin í ljóðalestur, bókin var inni hjá henni. Engin afsökun, best að fara að vinna meðan ég get. Út að kaupa 2 fermingargjafir á eftir, sýnist mér á öllu.
garg

ég er að semja lag fyrir Kvennakór Hafnarfjarðar en ég er búin að týna ljóðabókinni sem ég var að nota! get ekki unnið í þessu. Hún var bara hér á skrifborðinu mínu. súri pakkinn.
nokkrir tenglar í viðbót, hef trassað að setja þá hér inn: Kristín, Björn, Begga og Hallur, reyndar bæði þriðja Kristínin og þriðji Björninn hjá mér, sérkennilegt. 1-2 á leiðinni í viðbót, listinn minn er orðinn þokkalega langur...

2005-03-10

jahá!

það var þetta með rauðvínssegulinn

mér sýnist allt stefna í rauðvínspottspartí hjá mér mjög fljótlega...
Kattaþing úti á litla róló hér bakvið í morgun, heilir 5 kettir að stara hver á annan. Loppa hafði tiltölulega lítinn áhuga, rak nefið inn í garðinn en kom svo með okkur upp í leikskóla eins og venjulega.

Nú liggur talsvert á að fara að ákveða hvað við syngjum í sumar í Skálholti. Voðalega í lausu lofti eitthvað. Stjórnandalaus og verkefnalaus kór, ljóta ástandið á okkur!

2005-03-09

þetta er bara snilldin tær og hrein:hér eru fleiri.
vííí

pantaði mér heildarútgáfu á Tom Lehrer + nýjustu Jasper Fforde bókina. Fæ þetta í afmælisgjöf. Gaman gaman :-) Reyndar er Fforde ekki á lager hjá þeim þannig að þetta kemur ekki alveg strax, en ég get vel beðið...
vá, þetta var erfitt!

(þeir sem nota Blogger og hafa reynt að pósta núna í morgun ættu að skilja þessa færslu)
Raunveruleikaþættir svokallaðir er fyrirbæri sem við sjáum ekki mikið af hér á bæ. Erum ekki með stöð 2 og sjáum ekki skjá 1, eitthvað sambandsleysi við loftnetið hlýtur að vera, þar sem hann Gunni hér uppi á lofti er með fína móttöku.

Helst að maður sjái þetta í ræktinni, þessi fínu sjónvörp við hverja hlaupabraut. Sá Supernanny á fimmtudaginn var, og stundum eitthvað extreme eitthvað. Gæti vel verið að maður myndi detta í að glápa á svona dæmi, kannski ættum við ekkert að láta laga tenginguna. Fífa er reyndar samt farin að hóta að flytja að heiman ef við förum ekki að sjá skjá 1, hún er ekki viðræðuhæf í skólanum.
4 days and counting...

Annars er ég með strengi, hef greinilega tekið fullmikið á í ræktinni í gær. Eins gott að þetta púl skili einhverju annars verð ég fúl!

2005-03-08

it's been a haaard daaays niiiiight...

Grey Daníel er í sjokki yfir hvað hljómsveitin er léleg, búinn að boða aukaæfingu á laugardagsmorguninn. Og samt var búið að vara hann við að hjá okkur gerðist aldrei neitt fyrr en á lokaæfingu, þá fyrst hrökkvum við í gang. Ætli hann sé búinn að gleyma því ;-)

Annars verður þetta bara allt í lagi hjá okkur, held ég. Tónleikarnir á breyttum tíma og stað, áttu að vera klukkan átta á sunnudagskvöld í Seltjarnarneskirkju en verða klukkan fimm á sunnudag í Neskirkju. Gamli staðurinn, verður gaman að prófa að spila þar aftur eftir tveggja ára hlé eða svo.

2005-03-07

Og mánudagur

Var annars að átta mig á því að ég á bara eftir að kenna 6 daga fram að páskafríi. Ætli maður haldi það nú ekki út. Allir bekkir nema 2 taka tónfræðaprófin sín fyrir páska, Hafnarfjörður búinn, reyndar, nema eftirlegukindur og fallistar. Tímarnir eftir páska fara í hlustun og greiningu og endalausa tónheyrn. Hafa gott af því, krakkarnir.

2005-03-06

Veðrið var alveg fáránlega gott fyrir norðan. Örugglega 10 stiga hiti, sól og logn. Maður fór út um allt á þunnri peysu, meira að segja langt fram á kvöld. Var ekki nema pínulítið kalt að ganga heim frá leikhúsinu. Algjör sumarauki.

Vorum 4 1/2 tíma heim, langaði svolítið að koma við hjá Hörpu sníkja kaffi og rukka um rabarbaravínflöskuna mína, en fólk var ekki alveg í nógu góðu stuði fyrir 40 km útúrdúr. Hefðum trúlega skroppið ef við hefðum verið bara tvö hjónin en krakkarnir voru of þreytt. Seinna, seinna :-)

Maður er annars algerlega óvanur því að keyra þessa leið í svona lítilli umferð. Alltaf vanur að vera í þéttri umferð frá Borgarnesi í bæinn.
ég er hér enn, Rýninum tókst ekki að hrekja mig í burtu ;-)

Allt Rúnarsslektið fór um helgina til Akureyrar um helgina til að sjá Óla bróður í Óliver. Sýningin bráðskemmtileg, flott uppsetning, svolítið mikið slapstick kannski. Óli flottur að sjálfsögðu en Ólafur Egill á nú samt þessa sýningu eins og hún leggur sig. Ekkert smá talent i þeim dreng.

Við leigðum ekkert smá flotta íbúð sem Stéttarfélag verkfræðinga á, beint á móti hinni frægu Brynjuísbúð. Maður neyddist náttúrlega til að fá sér ís, hann er hreint ekki svo vondur þessi ís hjá þeim. Þolir samt ekki dýfuna, ísinn var miklu betri þegar hún var frá. Sleppi henni næst.

Borðuðum á Greifanum fyrir sýningu, 19 manns á einu langborði. Þannig að við tókum Akureyrarpakkann eins og hann lagði sig. Leikhús, Brynja, Greifi, já, líka sund. Snilldarhelgi.

2005-03-04

snilld, snilld :-)

komst í þann frábæra félagsskap, Þórdísar, Stefáns og Begga að vera tekin fyrir af Rýninum, glænýju ólundarbloggi. Heiður að því! lol
Við erum að fara að sjá Óliver, en það var verið að hræða mig með því að sýningin væri bönnuð innan 12 ára. Og krakkarnir eiga öll miða, (líka þessi 4 ára) Hefur einhver séð þetta? Er þetta svona svakalegt, er nóg að halda fyrir augu og eyru hans stundum?
kisa skilaði sér heim um hádegið, ágætt.
Kötturinn var óþekkur í morgun, labbaði með okkur upp á leikskóla eins og hún er vön en þegar ég var að fara heim vildi hún ekki koma með. Hvarf bara inn í styttugarðinn hjá Hnitbjörgum. Ætli hún hafi laumast í tíma hér?

2005-03-03

Mér líkar vel við þetta nýja verðstríð. Rúmlega 3000 kall fyrir 4 fulla poka í Krónunni. Og ekkert verið að spara þannig, pakki af kókópöffsi rataði meira að segja í körfuna. Og það þó það séu hvorki jól né páskar og enginn eigi afmæli. Tja, ég á nú reyndar afmæli bráðum en ég efast stórlega um að það verði neitt eftir af pakkanum þá, ef ég þekki mitt fólk rétt. Klárast um helgina, eldri deildin ekki síður dugleg við kókópöffs en sú yngri. Og það þótt Villi Vonka segi það vera ydd með kakóbragði...
Alveg að koma ógyssla flott tala á teljarann minn. Hver verður númer 55555?

2005-03-02

árans að Hamrahlíðin skyldi ekki hafa það í kvöld, allt of trigger happy. Liðið var annars mjög gott, vissu ekkert minna en þetta fína Borgó lið. Zúrt.
fjölbreytt dýraflóra í sjónvarpsfréttunum áðan.

snilld!
ooohh, það er svo fín mynd af Freyju minni, ásamt Sæunni vinkonu hennar í mogga í dag, bls 4. Freyja er sú í bláu peysunni, ef einhver skoðar. Best að fara og kaupa moggann.
í dag verður drattast í kennslu, heilsan mun skárri en í gær. Fór reyndar á hljómsveitaræfinguna í gærkvöldi, ekki nema 2 æfingar eftir fram að tónleikum. Tónleikarnir okkar rekast reyndar á tónleika Domingos í Egilshöll, þeir fá víst litla aðsókn í höllina, greyin ;-)

eða ekki.

Reyndar skil ég ómögulega hver vill eyða 30 þúsundköllum í að hlusta á overthehill tenórgaulara í íþróttahúsi. Må jeg være fri...

2005-03-01

Finnur og pabbi 

Finnur að hjálpa pabba sínum að þeyta rjómann ofan á súkkulaðikökuna. Voða spennandi.

Hallveig, sástu að það var verið að biðja um uppskriftina, á ég að skella henni inn á brall í bauk, eða vilt þú?

uppfært. Uppskriftin er hér, neðarlega á síðunni, undir titlinum Belgískt ofát. Mmmmm...

Finnur og pabbi
Originally uploaded by hildigunnur.
fjölskyldan reddar málum að venju. Þegar loksins náðist í Hafnarfjörð, var fyrst hringt í Hallveigu til að athuga hvort hún gæti kennt fyrir mig og þegar það gekk ekki var leitað til mömmu. Hún ætlar að kenna fyrstu 3 tímana, en tónheyrnarkrakkarnir fá frí.
garg!

ég næ ekki í tónlistarskólann til að láta vita að ég sé veik. Afleitt. Ómögulegt að krakkarnir séu ekki látnir vita, mæta þau greyin og enginn kennari!
ennþá með fjárans pestina, súrt. Ætlaði þvílíkt að fara að kenna, þóttist allt í lagi í morgun. Labbaði svo með Finn upp í leikskóla og nú allt komið upp í háls aftur. Gæti samt neyðst til að fara á hljómsveitaræfingu í kvöld, sé til hvernig staðan verður. Sleppti sko fyrstu tveim æfingunum og nú eru bara tvær eftir fram að tónleikum.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?