<$BlogRSDUrl$>

2005-01-31

komin heim af tónleikum, elsku Hljómeyki, Hallveig, Lenka, Frank og Marteinn voru snilld. Gekk semsagt hörkuvel. Smá freyðivín á eftir, drakk hálft glas og þakkaði svo mínum sæla fyrir að Jón Lárus hafði skutlað mér og komið svo aftur á tónleikana á bílnum, ég þurfti sem sagt ekki að keyra heim. (takk Sæli minn ;-)

Svei mér þá ef við fáum okkur ekki bara kampavín hér til að halda upp á þetta. Mmmmm.
LOKAPLÖGG!

Allir að drífa sig á tónleikana okkar klukkan 22.00 í kvöld í Seltjarnarneskirkju. Ef einhver sýnir sig, endilega komið eftir á og kynnið ykkur :-)

Farin á tónleika
nú nálgast óðfluga fimmtíuþúsundasta heimsóknin á síðuna mína. Sá sem sér töluna má alveg kvitta í kommentakerfið, aldrei að vita nema verðlaun séu í boði...

2005-01-30

tekinn og þýddur frá Lilju Dögg, algjör snilld:

Birnirnir þrír og PMS mamman.

Það var sólríkur morgunn í skóginum þegar bangsafjölskyldan reis úr rekkju, einn daginn.

Bangsi litli töltir inn í eldhús, sest við morgunverðarborðið, lítur ofan í litlu skálina sína og sér að hún er tóm. Hver hefur borðað grautinn minn? spyr hann, ámátlegum rómi. Þá kemur bangsapabbi, hlammar sér í sæti sitt, lítur í stóru skálina sína og sér að hún er líka tóm. Hver hefur borðað grautinn minn? urrar hann.

Bangsamamma lítur upp frá eldhúsbekknum og segir: Ó mæ god, hvað oft þurfum við að fara í gegn um þetta? Bangsamamma vaknaði fyrst allra. Bangsamamma vakti ykkur hina. Bangsamamma hitaði kaffið. Bangsamamma tæmdi uppþvottavélina og raðaði upp í skápa. Bangsamamma lagði á borðið. Bangsamamma hleypti kettinum út, tæmdi kattabakkann og gaf kisu að éta og drekka. Bangsamamma fór út og sótti blaðið. Og nú, þegar þið drattist loksins á fætur og parkerið ykkar súru trýnum við morgunverðarborðið... hlustið vel, þetta segi ég bara eitt skipti í viðbót: ÉG ER EKKI BÚIN AÐ BÚA TIL HELVÍTIS GRAUTINN ENNÞÁ!!!!
Eitt spúkí atvik um helgina: Á laugardagskvöldinu, undir miðnætti, slagverksleikarinn var að enda við að spila síðustu tóna kvöldsins, Halldór upptakari kallar fram í gegn um kerfið sitt: jæja, þetta er komið. Á sama sekúndubroti sló rafmagnið út í kirkjunni.

ég held að hann Palli í kjallaranum (fyrir óinnvígða: Páll Jónsson biskup, beinagrind í fornri steinkistu) hafi verið að segja okkur að hætta, verið orðinn leiður á okkur og viljað fá að fara að sofa.
Skreið hér inn klukkan hálfátta, elsku fólkið mitt með matinn tilbúinn. Ætlaði að reyna að fara á opnunartónleika Myrkra músíkdaga en hreinlega meikaði það ekki. Synd, er örugglega gaman. (svo er líka alltaf freyðivín og eitthvað með því eftir opnunartónleikana ;-)

Upptökurnar gengu bara vel, þrátt fyrir brjálað veður og hvin í kirkju á laugardag, Þorbjörn kom ekki neitt, ekkert flogið, hefði getað komið í morgun en við vorum búin að ná inn erfiðu stöðunum sem ég ætlaði fyrst og fremst að nota hann í. Tenórarnir mínir stóðu sig eins og hetjur. Reyndar allur kórinn, hörkugóður núna. Mæli með tónleikunum annað kvöld, við erum þvílíkt vel samsungin. Marteinn lánskórstjóri var líka frábær.

Ein auka altsöngkona var með okkur fyrir austan, miikið væri nú gaman ef hún vildi halda áfram með okkur.

2005-01-29

kannski erum við búin að ná hinu og þessu inn, hmmm, gæti nú alveg hugsað mér að renna því í gegn með tobba bró. plísplís vera flogið í fyrramálið.

2005-01-28

Jæja, Fífa komin. Ég spurði hana hvort ekki hefði verið geðveikt gaman á Reykjum og hún svaraði - jú jú, - í ekkert of upprifnum tóni. Það var semsagt skítsæmilega geðveikt gaman hjá þeim.

Var víst mjög gaman :-)

Og núna er ég að fara í Skálholt, Fífa ekki fyrr komin en ég sting af. Þetta verður trúlega síðasta bloggið fram á sunnudag, sé til hvort ég hendi einhverju inn í Skálholti. Er reyndar net þar, ekkert svo seinvirkt, þannig að það getur alveg verið að komi einhver færsla.

2005-01-27

heimabíópakkinn kominn upp. Verið að hlusta á Shrek. Schnilldin, barasta.
Úff. Spáin vond á morgun, vona að Þorbjörn komist í bæinn fyrir upptökurnar. Vonandi líka að það heyrist ekki mikið á, uppi í Skálholti, einu sinni þurftum við að skipta um kirkju í upptökum, það hvein svo mikið í Skálholtskirkju. Væri reyndar erfiðara núna, við erum með svo miklar græjur, slatta af slagverki og svo notum við orgelið.

Úpps, gleymdi að hringja uppeftir og panta matinn. Ætti að verða nóg á morgun. Ýmislegt sem þarf að gerast á morgun, annars, spurning með prógramm fyrir tónleikana á mánudaginn.

já, plögga, maður! Við verðum með tónleika á mánudaginn, með efninu sem við erum að fara að taka upp. Seint, klukkan 22.00 um kvöldið, í Seltjarnarneskirkju, ætti enginn að hafa afsökun fyrir að mæta ekki ;-) Garanterað áheyrileg tónlist...
hann Finnur er heima lasinn, magapest hjá ræflinum. Humm, spurning hvernig við komum Freyju í dansinn inn í Kópavog klukkan hálffjögur. Any takers?

Verra að ég ætlaði náttúrlega að vinna á fullu í dag, það er ótrúlega erfitt með lítinn gaur í biðröð að komast í tölvuna. Ertiggjað verða búin? Hvað verðurðu lengi? Are we there yet?

2005-01-26

arrrg og garrg!
sveimér þá!

fyrst man ég ekki eftir að óska elsku Óla bróður til hamingju með afmælið í gær þegar ég hitti hann, hún Hallveig varð að minna mig á það

Og svo kom ekki einu sinni ammlisbloggfærsla á réttum tíma!

Til hamingju með daginn, Óli minn :-) bestastur!
Fífa hefur ekkert hringt frá Reykjum (úr tíkallasímanum sko, bannað að taka gemsa með). Ætli hún sé alveg búin að gleyma okkur?

Æi, annars gott að það sé gaman hjá þeim. Verið að byrja að rífa sig lausan frá m/p Ógurlega tómlegt hérna heima, samt, sérstaklega eftir að litlu krakkarnir fara að sofa og maður er vanur að spjalla við Fífu um heima og geima, hjálpa henni með heimanámið og þannig lagað.

Hlakka til þegar hún kemur heim aftur.

2005-01-25

Búin æfing í áhugamannabandinu, þetta verða bara nokkuð góðir tónleikar Hlakka ekkert smá til að fá sólistann með okkur á þriðjudaginn kemur, hún er flott :-)
Þessar kvennakirkjukonur eru vitlausari en ég hélt. Hvað er nú eiginlega að því að spyrja: Ætla ekki allir að mæta? Hver misskilur það eiginlega sem þýðandi: Ætla ekki allir karlmennirnir að mæta? Ég skil þetta sem allir viðstaddir af báðum kynjum. Tóm hártogun. Hvað finnst lesendum?
jæja, það þarf ekki að reka neinn úr rúmi, við þurfum að troðast þarna öll. Við fáum 2 hús (lúðrasveitin er með skálann og 1 hús - bannað að hafa svo mikil læti að við getum ekki sofið... HAHAHAHAHAHA!), biskupskjallarann, og trúlega eitt til tvö herbergi í skólanum. Úff, mér var ekki farið að lítast á blikuna. Við vorum sko skráð þarna tveimur helgum síðar. Kannski ég sjái um bókanirnar sjálf næst...

2005-01-24

síðasta æfingin fyrir upptökur búin, þetta verður fínt. Tveir Davíðssálmar svolítið sjeikí ennþá en hitt gott. Fínt að fá Þorbjörn með.

Annars virðist vera eitthvað klúður, tvíbókað í svefnskálana. Hmmm. Hringi uppeftir strax í fyrramálið. Keep u posted ppl.
manndrápsfæri úti, Finnur hrundi á hausinn, meiddi sig sem betur fer ekki neitt. Ég hætti við að fara Bjarnarstíginn og sundið hjá litla róló á leiðinni heim frá leikskólanum, Skólavörðustígurinn sandaður. Gangstéttin auð fyrir framan hjá mér, tók góðan tíma fyrir hitakerfið að vinna á klakanum sem var kominn, en nú ætti þetta að verða í lagi héðan í frá, amk ef óveðrin og kuldinn verða ekki þeim mun verri.

Get ímyndað mér að það verði slatti að gera á slysó í dag.

2005-01-23

mmm, Drappiel árgangskampavín 96 er ekki vont!

hikk
Veislan búin, allt étið upp til agna, mathákar þessar fjölskyldur okkar! Eina sem er eftir er smá biti af snittubrauði og tveir hálfir ostar.

Mér sýnist við alveg geta farið á morgun og keypt hátalarana fyrir heimabíóið, gaman gaman. Verður myndaveisla hjá okkur næstu daga, sýnist mér. Verst að Fífa verður ekki heima...
bóndinn fertugur í dag, kaffisamsæti hjá okkur. Mistókst að baka svampbotn í gær, neyðarbotn í perutertuna í ofninum. Hann fékk Tivoli Pal í afmælisgjöf, alsæll. Enginn tími til að blogga, bless í bili :-)

2005-01-22

Þrjár glænýjar þjóðlagaútsetningar liggja hér útprentaðar á borðinu hjá mér, ægilega fínar og penar og bíða eftir að kórstjórarnir sæki sig. Búin að ná í annan og leggja skilaboð til hins. Alltaf gott þegar eitthvað er frá.

2005-01-21

hmm, einhver (Hörður, vona ég) er að flippa út á klukkuverkinu uppi í Hallgríms. Fjör.

Annars gerði blessuð klukkan þar mér grikk um daginn, átti að mæta á jarðarfararæfingu klukkan 12 inni í Fossvogi, vissi ekki betur en klukkuna vantaði kortér í, þegar klukkan hringdi hádegishringinguna. Eins og flestir vita eru klukkufésin ekki alltaf sammála, oftar vitlaus en rétt, en hringingin hefur samt alltaf verið rétt. Fékk áfall, þar til að ég sá að klukkurnar hérna heima voru sammála um að vanta ennþá kortér í, meðal annars tölvuklukkan sem tékkar sig af oft á dag út til London. Úff!
mínúta í fiðluverkið, tæp mínúta í dúett fyrir sópran og tenór (ekki búin að fá leyfi til að nota textann, vonandi verður það í lagi)

ekki slæmt, miðað við að morguninn fór í tónlistartíma með krakkana + að leita að bekknum hennar Freyju, þau fóru niður að tjörn til að gefa andaræflunum. Búin að geta unnið í svona 2 tíma.

Svo er að vinda sér í messuna. Svissa milli verkefna, bara gaman að því. Þarf líka að setja texta við 3 þjóðlagaútsetningar sem ég er nýbúin með.
Finnur fór í víólutíma í morgun, kennarinn hans gapir alveg yfir því hvað honum gengur vel. Bara takið eftir honum, eftir svona 10 ár, verður farinn að spila konserta með Sinfó eða eitthvað. (það er að segja ef það verður enn siðmenning við lýði... ;-)

Annars er ekkert skrítið þó barninu gangi vel. Hann fær tíma í tölvunni í verðlaun þegar hann æfir sig; kemur iðulega og segir: Mamma, ég vil æfa mig. Mamman stenst það að sjálfsögðu ekki, þannig að hann æfir sig jafnvel tvisvar á dag í tíu til fimmtán mínútur í senn. Svaka tími fyrir fjögurra ára. Svo fær hann að fara í leiki á netinu. leikir.is og garfield.com vinsælast

2005-01-20

Þetta er heví. úff!
Finnur kominn með gubbupest, vona að hún gangi fljótt yfir. Skárra en flensan samt, við höfum sloppið ennþá, má eiginlega alls ekki vera að því að standa í svoleiðis leiðindum...
Bara til að fyrirbyggja misskilning þá var síðasta færsla mestmegnis í nösunum á mér. Auðvitað á MR fullt erindi í sjónvarpið, mikil eftirsjá að því að bestu liðin detti út svona snemma.

Ég held ekki með neinu sérstöku liði, gamli skólinn minn, FG hefur ekki lagt neinn sérstakan metnað í keppnina, (eiginlega aldrei getað neitt) og ég hef engan metnað fyrir þeirra hönd.

Einstefnan var náttúrlega að drepa þessa keppni, úrslitin voru alveg hreint hætt að vera spennandi. Manni virtist líka stundum sem ónefndir dómarar (ekki skot á þann sem situr núna) bæru á stundum meiri virðingu fyrir MR liðinu en góðu hófi gegndi, alveg upp í það að trúa liðinu betur en eigin svörum.

MR er frábær menntaskóli, en þrátt fyrir það hefði ég ekki farið í hann þó mér hefði verið borgað fyrir það, á sínum tíma. Hef aldrei séð eftir því heldur...

2005-01-19

MR kemst ekki í sjónvarpið, híhí

ætli þetta lið verði ekki stoppað upp og stillt upp á góðum stað í fjölbrautaskólanum við útitaflið, framtíðarliðum sem víti til varnaðar.
Hef aldrei spáð í orðið gotterí

Hlýtur það ekki að þýða umbúðirnar um sælgætið? ég meina, gott er í?

2005-01-18

Konsertmeistarinn hjá okkur í SÁ beilaði þannig að ég er að leiða. Gaman, en það þýðir að ég þarf að fara að æfa mig. Maður þarf víst að standa klár á sínu þegar maður er konsertmeistari. Jamm, aþþí ég hef nebbla ekkert að gera.

Bloggerinn minn er annars kominn yfir á kínversku, eins gott að maður ratar þar inni!
hí hí, ég vann rauðvínspottinn annað skiptið í röð :-)

hikk!
Snilld, snilld, er komin með íslenska stafi í Finale forritið mitt, jibbíliggalái.

Gat semsagt opnað forritið í íslensku útgáfunni af Panther, það var ekki hægt í 2004, kom alltaf villumelding. En núna þarf ég ekki lengur að prenta öll kór- og sönglög úr gamla jálkinum niðri. Þá verður hún ekki notuð í neitt nema stöku Pacman eða eitthvað þvíumlíkt.

Gat reyndar ekki skráð forritið, þeir hjá Finale virðast allt í einu ekki taka serial númerið mitt gilt. Hmm, best að hringja í sölumanninn og spyrja ráða.
Ég bara verð að kópíera þetta hérna frá henni systur minni:

"Blámann in memoriam.

Móðir okkar systkina var alla tíð gífurlega mikið á móti því að fá gæludýr. Við áttum aldrei ketti né hunda enda ekki skrýtið þar eð það að eiga 4 börn, bíl og einbýlishús í Garðabænum á eintómum opinberum launum var og verður orsök ógurlegs vinnuálags. Ekki mikill tími né orka eftir til að þrífa eftir eitthvað loðið, slefandi, gjammandi (eða breimandi ef svo ber við) kikvendi.

Ekki dóu þó bræður mínir elskulegir ráðalausir og vældu út ýmislegt smálegt eins og sjálfétandi gullfiska og svo eftir að þeir voru búnir, páfagauk. Þetta var með þeim skilyrðum að við börnin sæjum alfarið um þrif eftir dýrið og að hann yrði mestan part í búrinu sínu. hardíharhar..

Við fórum í gæludýrabúð og völdum fuglinn, hann var pínulítill papagúi, blár á lit og fékk nafnið Blámann eftir einhverjum fíl í sjónvarpinu að mig minnir. Hann var nú frekar ræfilslegur svona til að byrja með og tókst á strax á kaupdegi að gera fyrsta skandalinn sinn, hann náði að fljúga bak við skáp heima hjá ömmu og láta okkur bögglast við það að ná honum í um 3 klukkutíma eða svo. Pabbi náði honum að lokum með því að láta hann setjast á einn fingur og klemma annan yfir lappirnar á honum og setja hann þannig inn í búr. Blámann settist eftir þetta ALDREI á stakan putta.

Hófust nú allskyns þjálfunarbúðir fyrir fuglinn og var farið eftir kúnstarinnar reglum við að kenna honum að tala. Þarna húkti greyið hnípinn undir hálfu handklæði inni í búrinu sínu og hlustaði á okkur þylja "Blámann" allan daginn. Datt auðvitað ekki í HUG að vera að herma þetta eftir okkur.

Blámann var strax frá upphafi frekar mikið laus úr búrinu. Kom svo að því einn daginn að Hlín vinkona hennar mömmu var í mat og eftir matinn var sest inn í stofu og boðið upp á kaffi og koníak. Blámann var forvitinn að eðlisfari og strax orðinn mikill lífskúnsner þannig að þarna sá hann sér leik á borði, settist á koníaksglasið hennar Hlínar og fékk sér nokkra sopa. Ráfaði það sem eftir var kvölds um stofuborðið, segjandi í sífellu: "Blámann.. Blámann.."
Var hann eftir þetta mikill drykkjufugl, og það sem verra var, líka stórreykingafugl. Mamma reykti pakka af Winston á dag á þessum tíma og þegar hún sat við eldhúsborðið að fá sér sígarettu kom Blámann á öxlina á henni og gleypti reykinn í gríð og erg.

Eftir koníaksatvikið var ekki nokkur leið að þagga niður í fiðurfénu. Hann talaði óvenju mikið, var með orðaforða upp á nokkra tugi orða og fannst okkur sérstaklega skemmtilegt að kenna honum sniðuga frasa. Þó var mest í uppáhaldi hjá honum "komdu og KYSSTU mig!" og "eelsku kallinn!". Var mjög notalegt að fá svona kveðju þegar maður kom heim úr skólanum. Sérstaklega minnisstætt var þegar séra Bragi Friðriksson kom í heimsókn heim og Blámann tók á móti honum í dyrunum, settist á öxlina á honum og sagði: "komdu og KYSSTU mig, eeelsku kallinn!"

Blámann hermdi líka eftir útvarpinu. Það var yfirleitt skilið eftir í gangi fyrir hann þegar við vorum ekki heima og þegar vel lá á honum mátti heyra hann tala í mismunandi tónhæðum eitthvað bull og inn á milli söng hann vel valin lög. Það verður þó að viðurkennast að hann afrekaði það að vera sá eini í fjölskyldunni sem var vita laglaus, enda jú ekki blóðskyldur okkur.

Við vildum auðvitað monta okkur af þessum óvenjulega gauk þegar gesti bar að garði en ekki gekk það nú of vel, Blámann samkjaftaði sko ekki þegar fólk var að tala en þegar allir þögnuðu til að hlusta á hann þagnaði hann auðvitað líka og horfði á okkur í forundran.

Blámann var þrifinn fugl og fannst honum skemmtilegast að þrífa hnökra af sokkum við mikið kitl viðkomandi og svo þreif hann tennurnar í okkur.
Einnig fannst honum sniðugt að taka til á stofuborðinu, ef þar var t.d. spilastokkur gat hann dundað sér við að taka eitt og eitt spil í gogginn, rölta með þau fram á brúnina og láta þau gossa fram af. Þegar stokkurinn var búinn var fuglinn ánægður með sig og fór að huga að öðru, sá hvað var draslaralegt á gólfinu og tók að ná í eitt og eitt spil þaðan og fljúga með aftur upp á borð.

Blámann var algjör snillingur og yndislegt gæludýr og hef ég aldrei frétt af jafn kláru eintaki af papagúa og honum. Ég gæti haldið lengi áfram að rifja upp gjörðir þessa vinar okkar en læt staðar numið hér. Kannski skrifa ég seinna framhald, það er aldrei að vita.


Þessi er frekar líkur Blámanni okkar, en þetta er nú ekki hann.
Bara einhver fugl útí heimi."

Veit ekki hvort ég myndi nú samt vilja fá mér svona úndúlata. Ekki allir eins skemmtilegir og Blámann, sko! Og svo reykjum við ekki...

2005-01-17

hlýna, já, mér er svo kalt hérna við tölvuna að ég er búin að kveikja á 12 kertum inni á skrifstofu (ofninn hér inni virkar ekki nógu vel) Svo er bara að passa að ekki kvikni í kisu, helmingurinn af kertunum er þar sem hún er vön að sitja, úti í glugga...
Nú fer að hlýna, það er ég viss um.

Það er nefnilega verið að tengja snjóbræðslukerfið sem við létum setja í gangstéttina síðasta sumar...
Kötturinn kom inn með sprelllifandi fugl áðan, fyrsta skipti sem hún hefur veitt eitthvað, að því við vitum. Fuglræfillinn slapp frá henni og flaug hérna um stofuna, dauðhræddur að sjálfsögðu, flögraði svo út í glugga og barðist þar við að komast út. Ég gat opnað gluggann og náði að koma greyinu út. Loppa er hins vegar ógeðslega móðguð. Hleypur hér út um allt og reynir að komast út um gluggann.

Gætum þurft að kaupa á hana stærri bjöllu.

2005-01-16

Henti litlu krökkunum út í garð í snjóinn og skipaði þeim að búa til snjókarl eða eitthvað. Vilja helst bara sitja inni í tölvunni, bara kemur ekki til greina.

Annars erum við Fífa að fara í bingóþáttinn á Skjá einum í kvöld, bekkurinn hennar verður í salnum og þarf 2 foreldra með til að hafa stjórn á skrílnum. Ég er bekkjarfulltrúi þannig að það dæmist á mig. Fékk pabba einnar vinkonu Fífu í þetta með mér, er ekki alveg í ástandi til að hlaupa á eftir einhverjum óþekktarormum með mjöðmina á mér eins og hún er. Reyndar mun skárri en í gær en það er ennþá vont að ganga upp og niður tröppur, fer alltaf með sama fótinn á undan.

Ég hef reyndar aldrei séð þennan bingóþátt, verður spennandi að vera þarna og vita ekkert hvernig þetta gengur fyrir sig.

2005-01-15

keypti Häagen Dazs ís í Hagkaupum í dag, namminamm! Ætla sko að gera mitt til að þessi ís haldi áfram að fást. Þið megið halda áfram að lofsyngja ykkar Ben&Jerry's, en þetta er nú samt uppáhaldið mitt.

Keypti líka bláar kartöfluflögur (úr alvöru bláum kartöflum) bara varð að smakka. verður ekki keypt aftur. Svo sem ekki beint vont, en engu okkar þótti þetta neitt spes. Rándýrt, líka. Fengust líka bláar kartöflur, svona hráar, sko, ekki bara flögurnar.

Fífa kvartar yfir því að fá bláar kartöflur í mötuneytinu í skólanum sínum, einhvern veginn held ég ekki að það séu þessar sömu...
fínt, fínt! myndi ekki vilja vera neitt yngri en 34 ára anyway!

You Are 34 Years Old34

Under 12: You are a kid at heart. You still have an optimistic life view - and you look at the world with awe.

13-19: You are a teenager at heart. You question authority and are still trying to find your place in this world.

20-29: You are a twentysomething at heart. You feel excited about what's to come... love, work, and new experiences.

30-39: You are a thirtysomething at heart. You've had a taste of success and true love, but you want more!

40+: You are a mature adult. You've been through most of the ups and downs of life already. Now you get to sit back and relax.What Age Do You Act?
Aaahh, tenóraveseninu mínu reddað. Elsku besti bróðir minn reddar málunum, við erum sko að fara í upptökur í enda janúar og mig vantaði illilega tenórsólista, tenórarnir mínir eru fínir en eiginlega enginn sólisti í pakkanum, ekki enn að minnsta kosti. Var búin að tala við alla sem komu til greina og voru ekki allt of langt í burtu (hreint ekki svo margir sem myndu ráða við þetta með svona stuttum fyrirvara) Þorbjörn kemur eins og frelsandi engill frá Egilsstöðum í tvígang til að bjarga mér.

Annars lentum við í smá samstuði í dag í hálkunni, bíllinn snerist og lagðist mjúklega upp að afturenda Toyota RAV4 sem sat fastur. Sem betur fer sá varla á bílunum, kom sprunga í dekkjahlífina aftan á jepplingnum en sást ekkert á okkar.

Ég er hreinlega að drepast í mjöðminni, hökti um draghölt. Ekki skemmtilegt :-(
nýr kokkteill hér á bæ

Parfait amour

þeir sem þekkja mig vita að ég er fjólublá í gegn, nú er ég loxins búin að finna kokkteil og reyndar líkjör í stíl + samnefndam

kúl :-)
tímavélin ennþá í gangi, greinilega.
hmmmm?

Ég er stödd í tímavél hér. Tilvitnunin í Tótu Pönk var send út nærri klukkutíma seinna en Parfait amour bloggið.

Hvers vegna gat þetta ekki verið í kring um útdrátt í lottóinu, ébbara spyr? Og mig sem langar svo til að eignast pínulitlu rándýru íbúðina í risinu, eina sem við eigum ekki í húsinu okkar. garrrg!
Verð bara að vitna í Tótu Pönk hér. Búin að biðja um leyfi en get ekki beðið eftir svari. Snilldarfærsla:

"Margt þótti mér áhugavert og sumt áhugaverðara en annað. Tildæmis það að sjálfstæðismenn hafa tilhneigingu til þess að svara öllum spurningum sem fyrir þá eru lagðar alveg eins og næsti sjálfstæðismaður á undan eða eftir. Sönnun þessa fékk ég þegar Gísli Marteinn Baldursson, Hannes Hólmsteinn og Hanna Birna Kristjánsdóttir svöruðu sitt í hvoru lagi ýmsum spurningum um það sem þeim þætti best og verst á árinu osfrv. Öll sögðu þau nákvæmlega það sama. Davíð Oddsson og skattalækkanir ríkisstjórnarinnar þegar þau voru beðin að nefna það sem var best á árinu. Afskipti forsetans af fjölmiðlalögunum og R-listinn þegar þau voru beðin að nefna það sem var verst á árinu.
Skyldi vera einhver heilaþvottastöð í Hrísey (við hliðina á einangrunarstöðinni) þangað sem Flokkurinn sendir fólk (kannski bráðvelgefið og heilbrigt) og lætur þar ganga fasískar maskínur allan sólarhringinn sólarhringum saman, sem mola fólk mélinu smærra, allar skoðanir þess, hugsjónir, manngæsku, réttsýni osfrv. osfrv.? Út koma síðan þessi stökkbreyttu og óhugnanlegu sjálfstæðisskrímsli steypt í sama mót og tyggja vitleysuna hvert upp eftir öðru með vélrænu látbragði sem maður fær fjaðrir við að horfa á. Bleah."

kannski hætta einhverjir sjálfstæðismenn við að panta verk eftir mig núna; vel þess virði! Það er ekki eins og Sjálfstæðisflokkurinn eigi ekki litríkt fólk og mismunandi; þegar að því kemur að velja og kjósa er það bara heilaþvegið. Punktur.

2005-01-14

Ekki get ég sagt að ég sé öflugasti Microsofthatari í heimi, þó ég sé svosem ekki neitt hrifin af þeim pakka, Makkafrík og alltsaman...

Get ekki neitað því að Excel er frábært forrit en hvernig stendur eiginlega á því að sama fyrirtæki sem stendur að því semur líka ofurruslið Word? Hljóma yfir/undirmannaviðtölin svona: Tja, þú ert hreint ekki búin/búinn að standa þig, ég var nú að hugsa um að láta þig fara, en er í staðinn að spá í að setja þig yfir í Word hópinn...

Hvernig væri að Tiger fylgdi eitthvað snilldarritvinnsluforrit? Plíís!
ekki orð um skólabruna á Mogga eða Rúv, þannig að þetta hefur greinilega ekki verið neitt. Ekki það, ég er það nálægt skólanum að ég hefði pottþétt heyrt sírenur og læti ef þetta hefði verið eitthvað stórt.
Fífa hringdi í mig áðan; það kviknaði víst í Austurbæjarskóla og öllum krökkunum var mokað út! Hún hafði ekki séð systur sína, ég þorði ekki annað en keyra fram hjá skólanum en þetta virtist nú ekki vera mikið mál/bál. Fullt af krökkum úti á skólalóð en ekkert sjáanlegt annað. Fífa er svo ekki komin heim ennþá (átti að vera búin fyrir rúmu kortéri) þannig að annaðhvort er þetta ennþá spennandi eða þeim hefur verið haldð aðeins lengur út af trufluninni.
jú jú, harðsperrur mættar á svæðið. Mesta furða, samt.

Fífa er að fara í 7. bekkjarferðina sína í Reykjaskóla í þarnæstu viku. Mikil tilhlökkun. Ætli ég sleppi henni nú ekki við að taka fiðluna með sér. Verður tómlegt að vera Fífulaus í 5 heila daga. En ætli við þolum það nú ekki í þetta skiptið. Hún fer svo til Spánar með kórnum sínum heila 10 daga í júní, ennþá skrítnara. Hún er búin að eignast vini í kórnum núna, þó hún sakni samt bestu vina sinna úr undirbúningskórnum, þær koma ekki upp í stóra kórinn fyrr en á næsta ári.

Við vorum í gær að tala um sumarfríið, langar að skreppa til Ítalíu, ég stríddi Fífu greyinu á því að hún fengi ekki að fara með þar sem hún væri að fara til Spánar. Henni fannst það ósköp takmarkað fyndið. Foreldrarnir hlógu þeim mun meira. Ljóta liðið ;-)

2005-01-13

mér sýnist allt stefna í mega harðsperrur á morgun.

en ég gat alveg gert allar æfingarnar. Litist ekkert á pallaleikfimi, eiginlega bara vont í tröppuhlaupum.

kannski maður ætti að láta kíkja á þetta?
Ræktin á eftir, fyrsta skipti síðan snemma í desember. Borgar sig sko að kaupa árskort, já já ;-)

Annars er mér illt í annarri mjöðminni, sé hvað ég held út. Ellin lætur á sér kræla.

2005-01-12

Er að uppfæra aðalforritið mitt (Finale nótnaskriftarforrit), sölumaðurinn lofar mér því að það sé búið að laga gallann sem er búinn að vera að fara með mig á taugum síðastliðið ár, ég verð voða glöð ef það er rétt, annars verð ég ógnar fúl. Keep u posted, ppl.

2005-01-11

Ekkert smá gaman í Sinfóníuhljómsveit áhugamanna núna, framsýn sinfónía eftir Haydn (maður finnur bæði Beethoven og Brahms í henni), svo Mendelssohn fiðlukonsertinn, alltaf skemmtilegur. Gaman að vinna með Óliver líka, var verið að munstra hann sem aðalstjórnanda SÁ, Ingvar Jónasson, stofnandi hljómsveitarinnar var að hætta vegna aldurs.

Segi nú ekki að það hafi ekki verið ennþá meira gaman að stjórna, samt ;-)
Ætti að vera að semja en er búin að vera að slúbbertast í morgun, hanga á netinu ossoleis :-) Stendur til bóta. Er annars að tölvusetja fyrstufiðlupartinn úr verki sem við erum að spila í Áhugamannabandinu, parturinn kannski ekki beinlínis illa skrifaður en maður er bara orðinn algerlega afvanur að lesa annað en tölvusett eða þá prentað, steinhættur að nenna að rýna í hvað aukalínurnar eru margar í handskrifuðu. Veit nú ekki hvort ég klára þetta í dag, en á næstu æfingu verður fyrsta fiðla voða glöð en hinar raddirnar ógurlega afbrýðisamar (nei, ég nenni ekki að skrifa fleiri parta. Hellings vinna!)

Hins vegar hefur þetta þýtt að ég hef ekki haft neinn tíma til að æfa þetta...

2005-01-10

Aaaaahhhh! búin að slá inn allar mætingarnar í Hafnarfirði + gefa miðsvetrareinkunnir. Tveir og hálfur tími. Gott að vera laus við þetta, ekki skemmtilegasta verkefni ársins.

Sáum árekstur á mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar í gær, einhver hálfvitinn fór yfir á hárauðu ljósi, keyrði á hornið á bíl sem var að beygja og snéri honum í hálfhring. Var ekki að sjá að fyrri bílstjórinn tæki neitt eftir hinum, reyndi ekki að sveigja frá eða hægja eða neitt. Kannski verið í símanum. Okkur sýndist enginn meiðast, ég vona að það hafi verið tilfellið.
Tók Dýrðlegt fjöldasjálfsmorð á bókasafninu um daginn, ég sit við tölvuna og les Makkaspjallþráðinn; Jón Lárus inni í eldhúsi að lesa bókina, hlær og hlær. Ég í bókina!

2005-01-09

dagar hinna stuttu blogga, greinilega!
Borðuðum yfir okkur í dag, fyrst barnaafmæli með ógnar kökum og kræsingum; síðan buðu systkini mín okkur í mat heim til mömmu og pabba, ofurnautasteik með heimagerðri bearnaise + all the trimmings. Búmm.

2005-01-08

Minnið mig á að kveikja ekki á útvarpinu í dag, Elvis er ekki í uppáhaldi á þessum bænum, amk ekki ballöðurnar, ojbara væmið!

2005-01-07

Maðurinn minn fékk hamborgarhrygg í jólagjöf frá fyrirtækinu (ásamt reyndar Gullmolum frá Nóa og bréfi af parmaskinku). Við elduðum síðan ekkert um jóladagana, jólaboð til skiptis hjá foreldrunum og reyndar hamborgarhryggur í eitt skiptið. Hryggskrattinn var síðan að renna út þannig að við neyddumst til að hafa jólagjöfina í mat í kvöld, með brúnuðum kartöflum, ananas, (komma) maltesíni og uppáhaldshamborgarhryggssósunni (vá, langt orð)

maður fær bara flashback hér um tvær vikur!
urr! þarf að vinna um helgina, á eftir að færa inn mætingar fyrir alla haustönnina. Megasúrt að geta ekki gert það heiman frá sér í rólegheitum, en get víst ekki tengst tónlistarskólatölvunni héðan. Á vorönninni skal ég sko færa þetta inn jafnóðum. Ekkert smá leiðinlegt. Fékk einn tíma lausan um daginn, annar nemandinn var fastur í barnapössun en hinn svaf yfir sig (nóta bene klukkan 6 síðdegis), ætlaði að nýta hann til að byrja á þessu en nei, þá hafði skrifstofuliðið SLÖKKT á móðurtölvunni þannig að ég gat ekki gert neitt. urr aftur!

2005-01-06

Finnur las alla fyrstu vísuna í Vísur fyrir vonda krakka fyrir pabba sinn í gærkvöldi, ekkert smá duglegur. Er orðinn nokkuð hraðlæs sem er ekki slæmt miðað við að hann á ennþá nærri 4 mánuði í 5 ára afmælið.

mont mont ;-)

Hann á það til þegar hann er að lita í leikskólanum að gleyma sér og fara að lesa á litina, Crayola crayon eða eitthvað því líkt. Veit á gott.

2005-01-04

sá alvöru tilfelli af road rage áðan (hvað heitir það fyrirbæri annars á íslensku?) Var að keyra heim úr Hafnarfirði, nokkuð fyrir framan mig á vinstri akrein ók bíll á hámarkshraða, 70 km á klst, hálkan þó nokkur en umferðin rann þó fram úr honum hægra megin. Beint fyrir aftan hann var annar bíll sem blikkaði ljósunum svo hratt að ég skil ekki almennilega hvernig hann fór að því. Um leið og viðkomandi bílstjóri sá sér færi á, skaust hann yfir á hægri akrein og fram úr þessum ,,hægfara", köttaði svo fram fyrir hinn eins nálægt og hann gat. Ég saup hveljur, sá fyrir mér amk 5 bíla klessu ef þeir hefðu lent saman. Klikkaður!

Var svo ein af þessum sem mjökuðu sér fram úr 70 km manninum hægra megin, og auðvitað var hann í símanum! Ætli hann hafi nokkuð tekið eftir hinum?
Kláraði Furðulegt háttalag hunds um nótt í gærkvöldi, ekkert smá góð! Já, já, titillinn er fáránlega þýddur en ég læt það ekkert pirra mig ;-) Finnst bókin ekkert illa þýdd að öðru leyti. Hef reyndar ekki lesið hana á ensku en ég tók mjög lítið eftir þýðingunni, sem mér finnst yfirleitt dæmi um góða þýðingu. Stundum er maður alltaf að hugsa - hvernig skyldi þetta vera orðað á frummálinu; það gerðist ekki oft í þessari bók.

Ótrúlegur hugarheimur hjá drengnum sem skrifar, mjög sannfærandi lýsing á einhverjum sem skilur ekki tilfinningar og getur ekki sett sig inn í hugarheim annarra. Magnað.

2005-01-03

Búin að sofa lítið undanfarnar tvær nætur af orsökum sem verða ekki tíundaðar hér, en mikið var ég fegin að þurfa ekki að fara að kenna í dag. Ætlaði reyndar að vera viðgeðslega dugleg, binda endahnút á Sanctus kaflann úr Vídalínsmessu og koma mér vel áfram með Agnus Dei ásamt því að endurskoða Maríuvísurnar frá í fyrrasumar, þær eru að fara í upptökur núna í enda janúar. Hins vegar, þegar ég var búin að koma drengnum í leikskólann hrundi mín bara aftur í bólið og svaf til klukkan eitt eftir hádegið, þakkykkur fyrir! Þannig að ég rétt náði að skrapa endurskoðunina á Maríuvísunum og er búin að vera að reyna að potast í hinu með útvarpsfréttir öðru megin við mig og barnaefnið í sjónvarpinu hinum megin. Búin að gefast upp í bili, kíki á þetta í kvöld eftir kóræfingu og svefntíma hjá krökkunum.

En mikið var nú samt gott að sofa svona :-) Báðar stelpurnar uppi í, grey karlpeningurinn í leikskóla og vinnu.

2005-01-02

Ég var hrædd um að kötturinn yrði hálftrylltur fyrstu áramótin sín, en ekki Loppa, hún sat sko í eldhúsglugganum og fylgdist af áhuga með skotunum upp í loftið. Kisuhetja.

fjolskyldan min :-) 

a Hallgrimstorgi a gamlarskvold.
fjolskyldan min :-)
Originally uploaded by hildigunnur.

Flottur 

Litli gaurinn minn, heima hjá ömmu og afa í Garðabæ.

Svona fyrir fjölskylduna, þá var ég að henda áramótamyndunum inn á myndasíðuna, svo sem ekki áhugavert fyrir ykkur hin, nema þið hafið áhuga á fjölskyldualbúmum annarra ;-)

Flottur
Originally uploaded by hildigunnur.

2005-01-01

Þá er árið 2005 runnið upp í allri sinni dýrð.

Boð og partí hér í gærkvöldi, gekk bara mjög vel, Er samt ekki viss um að ég nenni að búa til rísottó fyrir 17 manns aftur í bráð. Varð nú reyndar fyrir mun fleiri en 17, hellingur eftir. Mmm, hlakka til kvöldmatarins.

Okkur fannst skaupið bara snilld, hefur ekki verið svona gott síðan Óskar Jónasson sá um það. Hlógum og hlógum. Svo var Tobbi bróðir að syngja undir hjá útvarpsstjóra ásamt fleirum að austan.

Fórum að sjálfsögðu upp að Hallgrímskirkju um miðnætti, stemningin ótrúleg. Hef oft verið þar sem maður sér vel yfir á gamlárskvöld en það er samt miklu skemmtilegra að vera í miðju látanna eins og hér uppi á holti.

Héldum síðan út til klukkan rúmlega 6 í morgun, langt síðan úthaldið hefur verið svona gott. Mjög skemmtilegt, og nei, ég hékk ekki á netinu, kíkti bara tvisvar hvort einhver væri búinn að svara nýárskveðjunni ;-)
GLEÐILEGT NÝTT ÁR

This page is powered by Blogger. Isn't yours?