<$BlogRSDUrl$>

2004-12-31

Nýi Maltbjórinn frá Agli er bara ári góður. Nær ekki alveg Andechs, uppáhalds bjórnum mínum ever, en þar sem hann fæst ekki hér, og kemur ekki til þess að fást hér í fyrirsjáanlegri framtíð (þolir ekki flutning né geymslu neitt sérstaklega vel) er gott að finna eitthvað sem minnir mann á hann. Bara vonandi að þetta haldi áfram að fást.

Nei, ég er ekki farin að ganga á birgðirnar fyrir aðra nótt, þessi var keyptur sérstaklega fyrir kvöldið í kvöld ;-)

2004-12-30

Ég skil ekki hvað fólk þarf alltaf að andskotast út í að áhersla í fréttum hér um þessa hrikalegu atburði í Indlandshafi sé á þá Íslendinga sem eru týndir. Þetta hefur ekkert með það að gera að Íslendingar séu neitt merkilegri en Indónesar eða Balíbúar eða allir hinir sem lentu í þessu heldur er þetta fyrir þá fjölmörgu landsmenn sem eru ættingjar og vinir þessarra landa okkar sem voru á svæðinu.

Maður hefur annars samviskubit yfir að finna ekki meira til með fólkinu en svo að hátíðahöld halda bara áfram eins og ekkert hafi í skorist. Í þessum skrifuðum orðum fer ég nú og hringi í 907-2020. Hvet lesendur til hins sama, hafi þeir ekki gert það nú þegar.

2004-12-29

4 1/2 kíló af ossobuco sneiðum komin í hús ásamt lifandis býsnum af risottogrjónum, parmaosti og fleiru. Spennandi að búa til svona stóra skammta, við höfum yfirleitt verið með stóra steik í þessum stórboðum.

Keypti hins vegar ekkert snakk fyrir gamlárskvöld, treysti á gestina með það (hint, hint ;-)) Gummi mágur á reyndar sjoppu í Garðabæ og er vanur að koma með helling. Kannski maður kaupi nú samt bjór fyrir byrjun nýja ársins.

Splæsum þremur megaflöskum í partíið, geri aðrir betur. Einni sauternes, einni Barolo og einni góðri kampavín. Spennó.
já og svo vann ég Jón Lárus í Trivial í gærkvöldi, gerist sko ekki oft, verð að monta mig smá! Hei, Hallveig, er Trivial frá mér heima hjá þér? Fundum ekki nema þessi 2 elstu en eigum pottþétt eitt í viðbót.
Fórum á vínkynningu í gærkvöldi, hann Arnar hjá Vínum og mat bauð upp á smökkun rándýrra ástralskra vína í samvinnu við Jóa í Ostabúðinni, var með eðalfínar snittur og svo ost hrærðan upp með gráfíkjum og frystan. Snilldarkvöld, ekki ódýrt en vel þess virði. Maður hefði aldrei tímt að kaupa sér neitt af þessum vínum ósmökkuð en við erum að hugsa um að panta amk eina ef ekki fleiri flöskur. Líka búin að ákveða að skipta um forrétt á gamlárskvöld...

2004-12-28

Smá öppdeit á sjónvarpssögurnar, tækið svínvirkar núna. Það sem betra er (hmm, eða verra, kannski?) er að núna geta sjónvarpið og dvd tækið alveg talað saman, hef ekki heyrt eitt hikst í hljóðinu síðan tækið kom úr seinni viðgerðinni. Betra, jú það er náttúrlega aðallega betra en þetta bendir nú til þess að heilinn hafi allan tímann verið eitthvað bilaður, nokkuð sem þeir hjá Öreind (eða Örend eins og þeir heita á okkar bæ núna) sóru fyrir þegar við vorum að reyna að fá gert við þetta hljóðvesen - á meðan tækið var ennþá í ábyrgð.

Veit ekki hvort ég á að telja það betra eða verra að hafa splæst í heimabíó út af þessu.

2004-12-27

Nú er orðið jólalegt í Reykjavíkinni, 3 dögum of seint.

Er með krampa í skafhendinni eftir að hafa skafið af einum og hálfum bíl, fyrst skófum við Jón Lárus af okkar, fórum svo út á flugvöll til að sækja bílinn hans Óla, ég skóf alein af honum. Erfitt að slá á lyklaborðið með litlafingri.

Svo verður borðað heima í kvöld, fyrsta skiptið í 4 daga. Búin að vera jólaboð til skiptis hjá foreldrum okkar, mamma og pabbi bæði á aðfangadag og svo í gær. Ekkert smá. Við eigum okkar boð eftir, ekkert að brjóta hefðirnar svona að ástæðulausu. Alltaf með boð á gamlárskvöld fyrir báðar fjölskyldurnar. Minnir mig á, þarf að hringja í Nóatún og panta kjötið.

2004-12-26

sofa, lesa, borða, lesa, sofa svolítið meira, borða -

Bókastaflinn hjá Fífu tvöfaldaðist í gær, bættust við Börnin í Húmdölum, Öðruvísi fjölskylda (kom í tvítaki, ein handa Freyju, verður skipt), Birta (trúlega líka skipt, Fífa er ekki komin á ástarvelluunglingabókaaldurinn, hnussaði í henni þegar hún las efstu setninguna aftan á bókinni) og svo Stríðið um Trójuborg, sem mér sýnist vera skrifuð sem söguleiðrétting á myndinni Troy.

Ég kláraði Molly Moon í morgun og er núna komin vel á veg með Börnin í Húmdölum. Frábært hvað Fífa er orðinn mikill bókaormur. Hún var nú samt ekki síður ánægð með Sims - Living Large leikinn sem systir hennar fékk...

2004-12-25

Letilíf eins og tilheyrir deginum, lagaði reyndar ís sem ég var búin að lofa mömmu að gera í eftirmat fyrir eitt jólaboðið en orkaði ekki á þorláksmessu og náði ekki í gær. Ekkert sniðugt heldur að vera að eiga við mat fyrir fullt af fólki, þegar maður er með magapest...

Gærkvöldið snilld, vorum í Garðabæ hjá mömmu og pabba, vantaði bara liðið að austan til að fullkomna kvöldið. Litlu krakkarnir urðu reyndar örlítið æst og litla frænka svekkt þegar pakkaflóðið var búið. Freyja kvartaði undan því á heimleiðinni hvað frænkan hefði fengið miklu fleiri pakka en mínir krakkar, áttaði sig ekki á því að seinni hluti flóðsins kemur í dag. Tengdaliðið allt eftir.

Við fengum engar bækur, búhú, huggun harmi gegn að Fífa fékk fullt af góðum bókum sem eru vel lesandi fyrir fullorðna líka. Ljónadrengsbækurnar báðar, Barist við ókunn öfl og Molly Moon 2. Er að verða hálfnuð með Molly Moon, bara skemmtileg.

Klifruð aftur upp í rúm að lesa, bless á meðan :-)

2004-12-24

GLEÐILEG JÓL

2004-12-23

núna ætti ég að vera niðri í bæ að kíkja á mannlífið og fá mér heitt kakó eða rauðvínsglas á Laugavegi einhvers staðar. Skoða flottu ísskúlptúrana hjá Dressman, troðast inn í brjálæðið í MM og svo framvegis. En það gerir maður ekki lasinn í skítakulda. Annars er ég að skríða saman, lagði í pasta með gráðostasósu í kvöldmatinn og svo einn bjór í lokin. Virðist þola þetta.

Sjónvarpið fór aftur á verkstæðið í dag, er komið til baka og virðist vera í lagi. Kemur í ljós í stóra barnaefnismaraþoni á morgun...
Okkur er boðið í skötuveislu í kvöld en ég afþakkaði. Ekki það að við borðum ekki skötu og alveg burtséð frá magaveikindum; ég er hætt að gera þau mistök að hreyfa bílinn eftir svona klukkan 4 á Þorláksmessu. Fórum einu sinni af bæ á bílnum á Þorláksmessukvöld, vorum 3 kortér að komast frá Snorrabraut heim til okkar vestast á Njálsgötunni (uppi við Klapparstíg). Aldrei aftur!

Lesendur, ef þið ætlið ykkur að kíkja í stemninguna á Laugaveginum í kvöld (nokkuð sem ég mæli með af öllu hjarta), takið nú leigubíl eða strætó. Er ekki frítt í strætó í dag, eins og venjulega á Þorlák?
Hananú, hefndist mér fyrir að hía á litlusystur hér fyrir nokkrum dögum. Hún hafði náttúrlega misst heila helgi úr jólaundirbúningi, var með skemmtilegu gubbupestina sem er að ganga. Nú er ég náttúrlega komin með magapest :-( Held nú reyndar að það sé ekki sú sama, en hér ligg ég nú samt sem áður. Tja, drattaðist reyndar með stelpurnar að spila fyrir litla bróður sinn og hina leikskólakrakkana, draugföl. En restin af deginum nýtist trúlega takmarkað, kannski get ég pakkað inn.

Og ég sem ætlaði í Þorláksmessuboðið hennar Nönnu í ár eins og í fyrra. Súrt.

2004-12-22

sjónvarpshryllingsóperan heldur áfram.

Komin með stóóóra þuuuunga sjónvarpið heim aftur og nú virkar ekki fjarstýringin og stafirnir detta ekki af skjánum (ss. EXT 1 eða STEREO eða eitthvað) Stundum hverfur myndin líka. Við erum í fýlu :-(
rændi þessari af síðunni hennar Fríðu Bjarkar, nokkuð góð:
Búið að taka til í aðal augnþyrninum í húsinu, bókaskápnum í skrifstofunni. Orðinn voða fínn, engar hrúgur ofan á bókunum og geisladiskarnir í snyrtilegri röð. Úrklippusafnið mitt er hins vegar í tómu tjóni, þarf að spá í hvernig hægt sé að koma því á viðunandi form. Hmm, skanna, kannski? Langar samt ekki til að farga blöðunum.

2004-12-21

urrr!

Sjónvarpið mitt er í viðgerð, hálft ár síðan það datt úr ábyrgð að sjálfsögðu. Heilinn farinn, kostar þrjátíu þúsundkalla að gera við draslið. Ákváðum nú samt að splæsa í það, sambærilegt tæki sjálfsagt á um 60-70 þúsund, minnst. Endingin samt afleit. Tvö og hálft ár, súrt.
3 jólatré úti í garði hjá mér núna, 2 blágreni og 1 rauð, ég pant eiga rauðgrenið ;-) Send með Landflutningum austan af landi, höggvin í fyrradag (frekar en gær), fóru í bílinn seinnipart gærdagsins og hingað komin. Þurftum reyndar að borga undir bíl, ekki fræðilegur að koma þessum flykkjum öllum í bílinn okkar. Minnið mig á að rukka familíuna.

En jólunum sem sagt reddað á Njálsgötu, Ásgarði og Sunnuflöt. Best að koma trjánum í hús svo þau verði ekki horfin í fyrramál.

2004-12-20

síðasta jólagjöfin komin í hús, snilld :-)

Búið að pakka því sem á að fara út á land. Sörurnar hálfnaðar (baksturinn, sko, ekki átið, eigum eftir að setja kremið og hjúpa), þarf að taka til í skrifstofunni og svefnherberginu og skreyta smá, en þá er þetta bara smollið. Ekkert jólastress á þessum bænum, eitthvað annað en hjá litlusystur hehe.

hmm, þarf reyndar að leita að jólagardínunum mínum, hvar í dauðanum setti ég þær nú í janúar?
Grrr! Mál og Menning tvírukka mig fyrir tæplega 16 þús kallinum sem ég eyddi þar í gær. Eins gott að vera með stjórn á fjármálunum. Ég kaupi bækur í bókabúðum ekki Bónusum og Hagkaupum en ég er ekki til í að tvöfalda greiðsluna til að styðja bókabúðirnar samt...
Renata Tebaldi er látin

Ein af albestu óperusöngkonum allra tíma, Toscanini sagði hana hafa rödd engils (og Toscanini hrósaði helst aldrei neinum).
Tebaldi varð áttatíuogtveggja ára. Sjónarsviptir.

2004-12-19

Einn vetur fyrir óralöngu (veturinn 89-90) stjórnaði ég kór Fjölbrautaskólans í Garðabæ. Kunni ekki neitt. Hef látið það vera að stjórna síðan þá, nema stöku afleysingaæfingum í Hljómeyki. Nú er ég hins vegar búin að stjórna á þrennum tónleikum á innan við mánuði. Spurning um eitthvað subtle shift í karríer? Tja, ætli það nú, en mikið væri samt gaman að fara á einhver námskeið í þessu...
Birti þetta á kommentakerfi áðan, hef oft sagt þetta við fólk (og þyrfti örugglega að minna sjálfa mig á það stundum) en held ég hafi aldrei birt það hér. Nei, ekki mín hugmynd en bara snilld:

Heldurðu að þú sért ómissandi? Hér er pottþétt próf: Taktu glas og fylltu það af vatni. Stingdu fingri ofan í vatnið. Dragðu fingurinn upp úr. Sé hola í vatninu ertu ómissandi..."

2004-12-18

hvers vegna kemur þetta ekki á óvart? ;-)

You Are From the SunOf all your friends, you're the shining star.
You're dramatic - loving attention and the spotlight.
You're a totally entertainer and the life of the party.
Watch out! The Sun can be stubborn, demanding, and flirty.
Overall, you're a great leader and great friend. The very best!What Planet Are You From?
Nú er runninn upp sá tími sem er bæði frábært og ömurlegt að búa í miðbænum.

Frábært vegna stemningar, snilld að rölta niður á Laugaveg og fá jólastemningu í æð, skoða bækur í Máli og Menningu, alls konar skemmtilegar vörur hér og þar, fá sér heitt súkkulaði á Mokka, Tíu dropum eða Sandholtsbakaríi og margt fleira.

Ömurlegt vegna þess að það er skelfilegt að reyna að fá stæði nálægt húsinu heima hjá mér. Reynum að hreyfa bílana sem allra minnst. Þykist himin hafa höndum tekið ef er laust stæði fyrir utan. Finnst ekkert mál að fólk leggi hér í smá stund meðan það skreppur á Laugaveginn, það er liðið sem vinnur niðurfrá og leggur hér allan daginn sem pirrar mig... Notið nú bílastæðahúsin, folks, eða þá fríu stæðin niðri á Skúlagötu!
Var að koma af Jólasöngvum Langholtskórs og Graduale, bara heilmikil stemning. Krakkarnir unnu...

Nei nei, Langholtskórinn var líka fínn, pínu lengi í gang og tenór hafði stöku sinnum tendens til að vera yfir tóninum en sópraninn undir, alls ekki alltaf en tvisvar-þrisvar samt. Nýja jólalagið hans Helga Braga var fínt, hefði þurft pínu betra rennsli, verður örugglega enn betra á tónleikunum á morgun og hinn daginn. Hlakka til að heyra það aftur. Ágúst Ólafs alltaf jafn flottur, ég þurfti samt svona hálft erindi til að kúpla honum úr Sweeney hlutverkinu (sem ég heyrði hann í síðast) og inn í hátíðlegu jólalögin. Resident soprano flott í Helgu Nóttinni að venju, þar spilaði flautuleikari á slagverk, slagverksleikarinn trúlega farinn heim, hvað segir stéttarfélag slagverksleikara við þessu ;-)

2004-12-17

Í morgun var jólaball og sýning hjá árganginum hennar Freyju í Austurbæjarskóla. Ekkert smá hvað þetta hefur verið metnaðarfull bygging á sínum tíma, með bíósal og sundlaug. Fer ekki mikið fyrir svoleiðis í nýju skólunum.

Bekkurinn hennar Freyju var með heillangt atriði, þetta er víst svolítið óþekkur bekkur en atriðið var mjög flott og þau sungu langbest, enginn lagvilltur í bekknum, óvenjulegt. Hinir bekkirnir voru líka með fín atriði, sérstaklega einn sem söng 13 daga jóla (Jónasarævintýrið með gjafirnar). Þetta er satt að segja eina skiptið sem ég hef heyrt þetta lag og þótt það skemmtilegt, venjulega þoli ég það ekki. En börnin höfðu svo gaman af þessu og voru að vanda sig svo mikið að það var ómögulegt annað en að hrífast með.

Í bekknum hennar Freyju er ein stelpa, Ingibjörg Anderiman Samper, hún gæti átt eftir að ná langt. Ekkert smá flott hjá henni. Lék alveg helling. Spurning hvenær pabbi hennar fer að nota hana í myndir eða leikrit...

2004-12-16

Það sem maður lendir nú ekki í!

Nú er búið að biðja mig að stjórna tónleikum í Neskirkju á sunnudaginn, tvær æfingar og tónleikar, verkið hef ég einu sinni heyrt þannig að nú stúdera ég það af krafti. Maður er bara orðinn eftirsóttur stjórnandi, ómægod! Bara eins og frægir stjórnendur frá útlöndum sem er foræft fyrir og þeir mæta á síðustu stundu til að stjórna.

Kemur reyndar ekki til af góðu, organistinn sem átti að spila forfallaðist þannig að kórstjórinn svippaði sér yfir á orgelið og ég skuldaði honum greiða... Ekki hefði þýtt að biðja mig um að spila á orgelið, svo mikið er víst.
Hvernig stendur á því að á meðan Bretar loka sendiráðum út um heim eru Íslendingar með flottræfilshátt og opna ný?

2004-12-15

Í gær fór ég í Hljómeykispartí, fámennt en afskaplega góðmennt, borðaði indverskan mat og drakk fullt af bjór og rauðvíni. Var þunn í vinnu í dag. Tókst að týna bíllyklinum mínum, ekki gott því hinn er líka týndur og það er bæði þjófavörn og startvörn á bílnum. Sem betur fer fannst lykillinn nú aftur þannig að það þarf ekki að draga bílinn innan úr Garðabæ.
Ég hef tvisvar á ferlinum verið vænd um hlutdrægt blogg.

Þið sem lesið; ég vona að þið áttið ykkur á því að að hluta til er síðan mín sjálfskrítík með háðsívafi, að öðrum hluta stolt yfir því hvað fjölskylda mín er að gera gott á listasviðinu (fullt, sorrí!) og í þriðja lagi real krítík sem ég er satt að segja afskaplega spör á og kem ekki með nema mér finnist full þörf á því í samhenginu.

Ég er hreint ekki sátt við að vera vænd um að "halda með" einhverjum, nema eðlilega held ég með minni nánustu fjölskyldu og því sem þau og ég eru að fást við, án þess sannarlega að vera á móti því sem aðrir eru að gera í samkeppni við okkur, ég gleðst yfir því sem vel er gert, en leyfi mér að krítisera það sem mér finnst ekki nógu gott og vil gjarnan vera laus við fá á mig persónuleg komment af því tilefni! Eðlileg mótmæli við krítík eru allt annað mál.

Þið þessir nafnlausu lesendur sem hafið athugasemdir við það sem ég skrifa; vinsamlegast gerið það við mig og helst undir nafni, allt sem kemur fram hér á síðunni er undir nafni og ég stend við það.

takk!

2004-12-14

Dómar í mogga í dag, fínir hér í bænum en heldur síðri fyrir norðan. Hér brot úr þeim betri:

"SINFÓNÍSK tónverk fyrir börn hafa hingað til ekki verið fyrirferðarmikil á verkalistum íslenzkra tónskálda frekar en t.a.m. kammerverk fyrir áhugamenn. Skal í engu til getið um hvort slíku efni þyki almennt fylgja of lítil vegsemd, eða hvort einfaldleikinn reynist nútímatónhöfundum um megn þegar á hólminn er komið. Það var því óneitanlega nýjungarbragð að 22 mín. melódrama Hildigunnar Rúnarsdóttur við jólasmásögu Jóns Guðmundssonar um ungt hrekkjusvín sem er öllum til ama, unz því vitrast loks náðarsýn til sjálfsbetrunar. Sagan minnti að nokkru leyti á jólasögu Dickens um gamla nirfilinn Skrögg, en var ekki verri fyrir það; fyndin og jafnvel skáldleg á köflum og glimrandi vel upp lesin á milli hljómsveitarinnslaga af bróður tónskáldsins, Ólafi Einari Rúnarssyni. Tónlistin var, að svo miklu leyti sem heyrðist úr glymjandi kirkjunnar, fersk og aðgengileg við hæfi, og kæmi ugglaust enn betur út við kjöraðstæður."

Hlýt að telja að flutningurinn hafi bara verið betri hjá okkur ;-) Sagan var reyndar meitlaðri, Óli skóf utan af henni á laugardeginum og það var of seint til að senda hana norður, fannst mér.

Óli og Hallveig fengu líka fínar umsagnir:
"Hallveig Rúnarsdóttir er stöðugt vaxandi söngkona, eins og mátti m.a. heyra á fjölbreyttari raddbeitingu en fyrrum, og fór glæsilega með hina krefjandi einsöngsmótettu Mozarts frá 1773. Ólafur Einar söng síðan nokkar aríur og söngles úr Messíasi með sérlega fallegri bjartri tenórrödd, og vantaði aðeins egóstyrkrænan herzlumun upp á öryggi stjörnuklassans."

Klykkt út með stjórnandakrítík, Rikki er ekki alveg sammála mér með hraðavalið eins og sést:
" SÁ lék að lokum Flugeldasvítu Händels - á stundum nokkuð óhefðbundnum hraða. Mér vitandi lak t.d. hið venjulega orkuskoppandi Bourrée löturhægt áfram, meðan fyrri hluti forleiksins var í efsta kanti. Samt gætti töluverðra tilþrifa, ekki sízt í 1. trompet, þó að dýnamíska svigrúmið hefði almennt mátt vera meira, svo og hrynskerpan. Á hinn bóginn var varla auðhlaupið að því fyrir lítt reyndan stjórnanda að stilla saman áhugamannasveit í jafnerfiðu húsi, og raunar afrek út af fyrir sig að sleppa stórslysalaust fyrir horn."

Get ekki annað en verið sátt við þetta, eller hvad?

2004-12-13

fra tonleikunum 

Hér er verið að flytja Jólasöguna - Stjarnan mín og stjarnan þín, sveiflan greinileg. Fékk fínar viðtökur, skal hent inn í Sinfó, aldrei að vita hvort þetta detti inn á fjölskyldutónleika næstu jól eða þarnæstu...
fra tonleikunum
Originally uploaded by hildigunnur.
nýr og spennandi víninnflytjandi, matur og vín, hendist í tenglasafnið. Höfum smakkað nokkur af vínunum þaðan og aldrei klikkað. Innflytjandinn gerir í því að velja vel, bara gæðavín, ekkert rusl til að fylla upp með. Enda kemur varla út Gestgjafi án þess að eitthvað af vínunum þaðan fái fína umfjöllun.
Jæja, business as usual. Búin að fá leyfi til að gefa krökkunum tvöfalda tíma í dag, læt tímana skarast og sleppi næsta mánudegi. Hvaða krakkar myndu svo sem mæta í tónfræðatíma þann 20. des? ég bara spyr! Allir einkakennararnir búnir að kenna af sér, gefa krökkunum jólahóptíma og hvað veit ég. Höfum huggulega jólatíma í þessarri viku, spilum tónfræðispil og bingó eða horfum á Fantasíuvídeó eða eitthvað þannig lagað. Gott mál.

2004-12-12

það er vanillukeimur af kampavíninu mínu! mmm!
Erla, á tenglalista, stóð sig flott á tónleikunum í dag.
spennufall des Todes

Gekk bara ljómandi vel, kom heim með blómvönd og fullt af hamingjuóskum, systkinin nottla brilleruðu, Fífa stóð sig líka mjög vel og ég fæ pottþétt að stjórna aftur einhvern tímann síðar, kannski á næsta starfsári.

Var óhemju skemmtilegt að heyra loksins verkin með öllum röddum, slagverki og 3 hornum.

Og nú er bara setið hér, eða hálflegið meira að segja við tölvuna í spennufalli. Gaman að því. Verður skrítið að fara að kenna á morgun, reyndar. Og svo að setjast bara inn í hljómsveitina sem venjulegur rank and file spilari eftir áramót. hehe!
Jæja, lokaplögg fyrir tónleikana.

Klukkan 17.00 í dag, sunnudag, verða haldnir tónleikar í Seltjarnarneskirkju. Frumflutt verður glæný jólasaga eftir undirritaða og Jón Guðmundsson. Prógrammið hljómar svona:

Hildigunnur Rúnarsdóttir/Jón Guðmundsson Stjarnan mín og stjarnan þín
W.A. Mozart: Exsultate, jubilate, einsöngur Hallveig Rúnarsdóttir

hlé

G.F. Händel: Resitatíf og aríur úr Messíasi, einsöngur Ólafur Rúnarsson
G.F. Händel: Flugeldasvítan

Aðgengilegt prógramm, fínt verð, hljómsveitin í fínu formi

Svo á ég eftir að tala einu sinni um hvernig þetta gekk, og þá verður kannski hægt að fara að lesa síðuna aftur ;-)

2004-12-11

Var á æææææðislegum tónleikum áðan, svo ég tali nú einhvern tímann um eitthvað annað en mína eigin tónleika á morgun og vandræðin í kringum þá. Já, Jólaóratoría Bachs, fyrri hluti, í Hallgrímskirkju var algjör snilld, kórinn frábær, Eyvi minn bara bestur, að hinum ólöstuðum, maður gat ekki þurrkað brosið af andlitinu meðan hann var að syngja. Mínuspunktar tónleikanna fáir en þó til, sópransólistinn réði engan veginn við verkefnið, og hljómsveitin var ekki alltaf samferða, veit ekki hvort það skrifast á bandið eða stjórnandann. Blásararnir oftast mjög flottir, nema í einni aríunni tókst fyrsta trompet ekki fullkomlega upp, víst mjög skiljanlegt, andstyggilega erfitt að eiga við þessa barokktrompeta. Var samt óhemju fyndið; þegar kaflinn var búinn setti trompetleikarinn lúðurinn niður og leit á hann, ég sá bara fyrir mér The Great Gunzo að kíkja í trompetinn sinn eftir misheppnaðan blástur. Hristist þarna í sætinu eins og vitleysingur, reynandi að hlæja ekki upphátt.

En samt, brill tónleikar, spörkuðu mér inn í jólaskapið. Gott mál.
Haldið þið ekki að fyrsti hornleikarinn sé framtannarbrotinn, á að reyna að fixa það í dag, en hann lofaði að koma nú samt á morgun og reyna að spila í þessu. Ekkert smá vesen með hornin. Hún Erla er algjör hetja, spilaði 3. horn af blaði á þriðjudaginn var og svo 2. horn í dag, nefnilega skárra að sleppa 3. horni en 2. ef maðurinn getur ekki spilað á morgun. Takk Erla mín :-) Lét mig reyndar lofa því að rétta henni ekki 1. horns partinn á tónleikunum.

2004-12-10

síðasti spilari kominn í hús, og svo vann ég rauðvínspottinn í vinnunni. Nú getur jólaskapið látið á sér kræla. Life is good...
hann Pavel (nei, ekki Bartoszek) ætlar að spila á continuo, nú er bara 2. horn sem stendur á. Spurning um að setja þumalskrúfurnar á litla snillinginn hann Halldór frænda minn, þó hann hafi verið búinn að segja nei...

Var líka að ráða stjórnanda fyrir upptökurnar okkar í janúar, svei mér þá, þegar hornleikari er kominn á hreint get ég farið að hlakka til jólanna.

2004-12-09

enn lengist tenglalistinn hjá mér. Veiga og Elfa Rún Meira að lesa, maður, eins og það sé aldrei neitt að gera...
Continuo! Mig vantar ennþá continuospilara. Hætt við að gerast hljómsveitarstjóri, allt of margt sem þarf að hugsa um.

2004-12-08

Allt potast þetta nú smám saman, slagverkið komið á tært, meira að segja spilari sem getur reddað hljóðfærunum fyrir mig. snilld. Held að þetta náist saman á endanum.

tonleikarnir 

Opinbert plögg númer 1:

Á sunnudaginn kemur verða haldnir fjölskyldutónleikar í Seltjarnarneskirkju, klukkan 17.00. Aðgangseyrir 1000 krónur, 500 kr. fyrir nemendur, eldri borgara og öryrkja, frítt fyrir börn.

Ég er að sjálfsögðu að tala um fjölskyldutónleika minnar fjölskyldu, þó aðrar fjölskyldur geti líka komið að hlusta.

Á efnisskránni er verk eftir mig, bróðir minn les og syngur, systir mín syngur, dóttir mín spilar í hljómsveitinni og ég stjórna.

Ókei, það er reyndar fleira á dagskránni líka og fleiri sem spila.

En endilega látið sjá ykkur, mjög fjölskylduvænt prógramm (í alvöru ;-))

tonleikarnir
Originally uploaded by hildigunnur.
SÁ tónleikarnir að smella, nú vantar mig bara 1 slagverk og ég veit ekki með 1 horn. Verst að það þarf fjári góðan slagverksleikara...

Síðasta fasta æfing í kvöld, aðalæfing á laugardag, væri voða gaman að hafa alla þar ;-) Tónleikar á sunnudaginn. Gaman.
vá, lætin hjá honum Daníel, þvílíkur æsingur og blammeringar, meira að segja flutt yfir á heimasíðu viðkomandi rifrildisaðila, meiri blammeringar og óhróður. Fjör ;-)

2004-12-06

Búin að vera að gera smáleiðréttingar á jólasögunni, er orðin þokkalega pússuð núna og tilbúin til rennslis. Hef ekki sögumanninn á morgun, er reyndar ekki alveg búin að manna þetta, humm. Morgundagurinn fer í hringingar í slagverksleikara og fleiri. Vantar ennþá kontrafagott og kannski eitt horn í Händel og svo 2 slagverksleikara. Þessir slagverksvinir mínir alveg að klikka á þessu, annar ekki í bænum og hinn að spila í einhverri Jólaóratoríu eftir einhvern steindauðan Þjóðverja í kirkju á holti, skil ekkert í honum að taka ekki áhugamannabandið fram yfir ;-)
Nei, ég er ekki týnd. Hins vegar búin að vera á Akureyri frá því á föstudag, Sinfóníuhljómsveit norðurlands frumflytur verk eftir mig á sunnudaginn kemur (í Akureyrarkirkju klukkan 16.00, ef einhver að norðan er að lesa), jólasögu fyrir börn og fullorðna, sagan eftir Jón Guðmundsson, semsagt glænýtt efni, bæði saga og tónlist. Ég get ekki verið við frumflutninginn þar, þar sem þetta er flutt hér í bænum sama dag, nánar til tekið Seltjarnarneskirkju klukkan 17.00, undirrituð heldur á sprota þannig að hún getur víst ekki verið fyrir norðan líka.

Við gamla settið fórum sem sagt á föstudaginn, bjuggum til úr þessu afslöppunarferð. Stóð líka undir nafni, komum norður um þrjúleytið á föstudaginn, töltum um bæinn, hef ekki komið til Akureyrar í mörg ár, nema í mýflugumynd, fengum okkur að borða á ljómandi ágætum kínverskum stað og svo bjór um kvöldið uppi á hóteli. Laugardagsmorguninn fór í æfinguna, eftir hádegið stóð til að fara í sund og kíkja á tónlistarlífið, var tónlistarhátíð í Ketilhúsi, stanslaus músík, kórar, hljóðfæraleikarar, kynningar, allt mögulegt. Nema hvað, eftir hádegismat fórum við á hótelið, fengum okkur einn bjór og það slokknaði á mér. Man síðast eftir að hafa tautað - já, en mig laaangar í sund... - vaknaði svo um sexleytið.

Verð nú reyndar að viðurkenna að ég þurfti verulega á þessu að halda.

Allt upppantað á Fiðlaranum þannig að við töltum út á Greifann og fengum okkur steik og rauðvín í kvöldmatinn, steikin mín var seig svo ég sendi hana til baka, fékk aðra, ekki eins seiga en ekki hægt að segja að hún hafi verið medium rare eins og ég bað um, nær því að vera medium well done, rétt glitti í rautt. Kunni nú samt ekki við að senda aðra steikina í röð til baka, þannig að ég lét mig hafa það. Jón Lárus fékk hins vegar algjöra snilldar lambasteik, rósmarín og sinnepslegna, bráðnaði í munni. Brown Brothers Cab Sauv verulega ljúft með, þó steikurnar hefðu trúlega ráðið við meira þungavigtarvín.

Komum svo heim í morgun, sóttum krakkana í Garðabæinn, gott að koma heim, að venju.

Við Fífa sungum síðan á tónleikum með Palla og Móniku í kvöld, gaman og mikil stemning. Frumraun Fífu með Hljómeyki, ekki kannski alveg komin inn í hópinn (svona 4-5 ár þangað til, myndi ég segja), en gaman að leyfa henni að vera með í svona léttmeti.

2004-12-03

af hverju er ég ekki hissa á þessu?

þetta eru asnar, Halldór!
jæja, ætli ég verði ráðin á veðurstofuna í bráð? Allt hvítt hér úti.

Nú síðdegis verður tilkynnt um tilnefningar til íslensku tónlistarverðlaunanna. Spennt að vita hvort nýútkomni diskurinn okkar ratar inn. Ekkert smá flottur diskur, Hljómeyki syngur verk Jóns Nordals, frábær verk og meiriháttar flutningur, þó ég segi sjálf frá. Diskurinn kom hins vegar ekki út fyrr en á þriðjudaginn í síðustu viku, þannig að það er ekki víst að hann hafi náð inn í tilnefningu, fresturinn var fram á mánudag.

Fylgjumst með á netinu.

2004-12-02

vá! þokkalega risastórar snjóflyksur fyrir utan gluggann minn. Ekki held ég nú samt að það komi til með að sjá mikið á jörðinni.

2004-12-01

Ég á von á stórum og feitum GSM reikningi á næsta tímabili. Eins gott að ég get rukkað kórinn um helling af því. Búin að tala við nærri allan hópinn í dag og í gær, og það ekki neitt stutt.

Er í foreldraráði fyrir bekkinn hennar Fífu og mig vantar ennþá eitt foreldri til að manna föndurdaginn sem er hjá þeim á laugardag. Ein mamman ætlar að vera allan tímann og tvær aðrar (hmmm, tómar mömmur!) búnar að bjóðast til að taka sín hvorn klukkutímann. Ætli ég neyðist ekki til að biðja þær tvær um að lengja tímann upp í einn og hálfan tíma. 24 krakkar í bekknum, 48 foreldrar + nokkrir fósturforeldrar og nást ekki saman 4 foreldrar til að manna pakkann. Skamm!

Fífa spilaði annars á tónleikum í Tónó áðan, konsertkafla, utan að, með píanói, gekk bara mjög vel. Duglega skotta. Freyja og Finnur eiga svo bæði að spila um helgina, verður fjör, maður. Föstudagurinn hjá Freyju hljómar: Skóli, 8.50-14.50 Hóptímaæfing 15.00-15.45. Hljómsveitaræfing 16.15-17.15. Hlusta á bróður sinn á víóluhóptímaæfingu 18.00-18.30. Önnur hljómsveitaræfing 18.30-19.00

Nei, vitið þið, ég er að hugsa um að sleppa barninu við amk 1 af þessu! Barnaþrælkun, hvað?

This page is powered by Blogger. Isn't yours?