<$BlogRSDUrl$>

2007-02-24

Vínsmakk 


Vínsmakk
Originally uploaded by hildigunnur.
Við hjónin urðum þess heiðurs aðnjótandi að fá að starta vínsmakkblogghala. Hann Arnar hjá Vínum og mat gaf okkur þessa líka fínu vínflösku og bað okkur að smakka, gefa smá umfjöllun á síðunni og skora síðan á annan bloggara.

Mjög skemmtilegt verkefni og við settumst á fimmtudagskvöldið með The Footbolt Shiraz frá d'Arenberg. Við höfum reyndar smakkað þetta vín áður, og eigum gjarnan flösku af því til að grípa til, en höfðum ekki lagst í alvöru smakk á því áður.

Þegar við tókum flöskuna upp var hún reyndar fullheit, byrjuðum að smakka við um 21°. Kældum hana síðan örlítið niður, enduðum í um 19°, þar fékk vínið betur að njóta sín, var mun ferskara. Ilmurinn er mjög mildur og fínn, minnir á dökk skógarber, sérstaklega brómber.

Fyrsta bragð leiddi í ljós meiri skógarber, lakkrís og dökkt súkkulaði. Eftirbragðið er ekki sérlega langt en mjög gott. Þegar áfram var haldið í flöskunni fannst örlítil tjara og jafnvel smá brennisteinn (svona eins og þegar maður er nýbúinn að slökkva á eldspýtu). Jón fann ekki brennisteininn en hann fann hins vegar ristaðar möndlur, kannski sama bragð sem við erum að finna á svona mismunandi hátt.

Vínið þoldi vel tvenns konar ost sem við vorum með, parmaost og spænskan geitaost.

Við drukkum síðan aðra flösku af sama víni í matarboði í gærkvöldi og getum vottað að það fer afskaplega vel með lambakjöti með steinselju- og laukfyllingu :-)

Ég skora á hana Lindu blindu sem næsta hlekk í halanum.

Efnisorð: ,

This page is powered by Blogger. Isn't yours?