<$BlogRSDUrl$>

2007-02-02

fékk 

bréf í póstinum í gær sem ég bara verð að birta (já, búin að fá leyfi). Hér kemur:

Sæl.


Ég verð að fá að ausa aðeins úr skálum reiði minnar við ykkur.

Í borgum eða bæjum í Evrópu þar sem stundum svæði á stærð við 101 eða jafnvel mun stærri eru öll undir svokallaðri hverfisvernd sem hefur verið kölluð verndun götumyndar hér á landi er stundum gripið til þess ráðs að byggja hús sem eru eftirlíkingar af annað hvort húsinu sem fyrir var eða einfaldlega af húsastílnum sem er ríkjandi. Þetta getur verið mjög eðlileg ráðstöfun til að yfirbragð hverfisins haldi sér á svæðum þar sem meginreglan er að ekki meigi hrófla við neinu.

Deiliskipulagið í miðborg Reykjavíkur á ekkert skylt við þetta fyrirkomulag, verndun götumynda er notuð á einstaka húsaraðir ( stundum 3 hús í röð eða stundum 1 hornhús) en engin heildstæð verndun götumynda er gangi í miðbænum. Síðan vill það stundum verða að fólk vaknar upp við það að búið er að reisa blokk á næstu lóð þar sem við lýði var verndun götumynda eins og gerðist á Lindargötu og þá er einfaldlega vernduninni aflétt eftir á en það er annað mál.

Það er undarlegur bræðingur að taka upp þessa aðferð við að byggja eftirlíkingar þegar um er ræða örlítið brot af þeim húsum sem fyrir eru. Dæmið um Laugaveg 74 er alveg stórfurðulegt, Við Laugaveg er nú leyfilegt er að rífa 75% af húsum byggðum fyrir 1918 og í öllum þeim tilvikum er ekki verið að gera neinar ákveðnar kröfur um útlit nýbygginga, fullyrðingar stjórnmálamanna um að arkitektar myndu í þetta skiptið reyna að byggja hús sem féllu að þeirri byggð sem fyrir er hafa ekki gengið eftir.

Laugavegur 74 tilheyrir einni af þeim sárafáu húsaröðum sem áttu að vera undir hverfisvernd. Saman eru þau 3, Laugavegur 70,72 og 74 sem samkvæmt auglýsingabæklingi sem dreift var í öll hús eru:

"Samstæða reisulegra timburhúsa sem njóta verndar sem mikilvæg í götumynd Laugavegar, reist árið 1902"

Í þessum sama bæklingi stóð einnig:

"Nauðsynleg uppbygging og viðhald sögulegs umhverfis haldist í hendur"


Stuttu eftir að þetta er skrifað samþykir skipulagsráð að hús nr. 74 verði rifið með því skilyrði að byggð verði eftirlíking af framhliðinni. Það fannst þeim nægja til að viðhalda vernd götumyndar og fannst ekki einu sinni að þyrfti að kynna þetta
(ástæða þess að þetta mál komst upp er að lóðaeigendur ákváðu að reyna að selja lóðina þegar þeim hafði áskotnast nægilegt byggingarmagn). Þar sem einungis er um að ræða 3 húsa röð er barnaskapur að halda að þetta hús verði einhvers virði þegar framhliðin er leikmynd. Ef að lóðaeigandi myndi síðan sækast eftir því eftir einhvern stuttan tíma að fá að breyta framhliðinni í eitthvað allt annað þá er ekki líklegt að nokkur myndi standa í vegi fyrir honum enda eftirlíkingar sjaldnast einhvers virði. Í rauninni er ekki svo ólíklegt að fallið verði frá því að byggja leikmyndina.

Þetta mál er ekkert annað svik við þessa agnarlitlu húsverndarstefnu sem lofað hafði verið. Skipulagsráð er að fara í kringum kerfið sem það hannaði sjálft. Ég veit ekki hvort að þetta telst löglegt yfir höfuð en siðlaust er það að minnsta kosti.


Ég er á því að þetta mál verði að komast í hámæli, þannig að þeir sem hafa aðgang að blaðamönnum ættu að láta í sér heyra.


Kveðja


Þórður Magnússon

Efnisorð:

This page is powered by Blogger. Isn't yours?