<$BlogRSDUrl$>

2006-12-16

tónleikar, tónleikar, tónleikar... 

tvennir í gær, einir á morgun. Og þá er ég ekki að tala um allt þetta sem Fífa er að gera. Tel það kannski upp í lok færslunnar.

Fór sem sagt á tvenna tónleika í gærkvöldi, eina klukkan átta og aðra klukkan ellefu.

Fyrri tónleikarnir voru jólaprógramm Vox academica ásamt úrvals einsöngvurum, jólahlutinn úr Messíasi (Händel) og Magnificat (Bach). Bach var flottari. En Bach er líka flottari en eiginlega allir. Ójarðneskur (sbr. Douglas Adams). Kórinn fínn, sópraninn pínu seinn í gang en flottur seinnipartinn, einsöngvararnir flottir, held að ekki sé á neinn hallað þó ég hrósi henni systur minni mest, hún bókstaflega átti salinn. Stóri litlibróðir var frábær líka, Ágúst bræðir mann jú alltaf með þessari yndislegu rödd og Sessa var líka fín þrátt fyrir tvennan svolítið vandræðalegan rugling í samsöngsatriðum.

Beint á eftir þessum tónleikum voru síðan jólasöngvar Langholtskórsins, hvar Fífa var að syngja með Gradualekórnum. Því miður get ég nú ekki sagt að ég hafi skemmt mér eins vel á þessum og þeim fyrri. Bæði voru þeir allt of langir og músíkin stóðst engan veginn samanburð. Allt allt allt of mikið af hægum jólalögum í væmnum útsetningum. Meira að segja búið að taka einu hressilegu Öhrvall útsetninguna út. Eina sem maður vaknaði við var jólalagasyrpan sem Graduale söng við undirleik nokkurra góðra hljóðfæraleikara en reyndar bliknaði það við hliðina á sömu syrpu sem þær syngja með Sinfóníunni (heyrði það á æfingu í gær, sungu tvenna tónleika með því í dag). Nýja lagið hennar Eivarar lofaði góðu en því miður var það svo ekki neitt neitt, tvö stef endurtekin út í eitt. Gamla lagið hennar var betra en samt fullmörg erindi.

Og hvað á það að þýða að hafa tónleika sem byrja klukkan 23.00 tvo tíma og kortér? Ég var amk. búin að fá algerlega nóg og ég held ekki að það hafi eingöngu verið vegna þess að ég var þegar búin að fá tónleikaskammt sama kvöld.

Svo ég taki það nú fram var þetta allt saman mjög vel gert, tandurhreint og músíkalskt. Og Bragi minn gífurlega flottur. En bara allt of langt.

Já, ég ætlaði að telja upp tónleikahelgina hjá elstu dótturinni, alveg rétt:

Föstudagur: Mæting 21.30. Jólasöngvar, 23.00-01.15
Laugardagur: Mæting 13.00. Fjölskyldutónleikar SÍ 14.00-15.30. Endurteknir 17.00-18.30. Jólasöngvar 20.00-22.15. Endurteknir 23.00-01.15
Sunnudagur: Jólasöngvar 20.00-22.15
Mánudagur: Mæting 16.30. Fjölskyldutónleikar SÍ 17.00-18.30.

fer þetta ekki að slaga upp í hundraðogelleftu meðferð á börnum?

This page is powered by Blogger. Isn't yours?