<$BlogRSDUrl$>

2005-11-20

Vínsýning hin árlega í dag (og gær líka, reyndar) bara ljómandi vel heppnuð. Við ætluðum að vera svona einn og hálfan til tvo tíma en enduðum í fjórum. Maður er farinn að þekkja svolítið marga af starfsmönnum og eigendum fyrirtækjanna þannig að við gátum yfirleitt doblað þá til að gefa okkur smakk af fínu vínunum uppi í hillu eða undir borðum. Höfum sérpantað frá mjög mörgum af fyrirtækjunum, það er alltaf góð byrjun. Mikið gaman að spjalla við kunnáttufólkið þarna.

Sýningarstjórar voru með ýmsar þrautir, að þekkja kryddilm, þekktum pipar, negul og kanil, vissum hvaða þrúgur áttu ekki heima á listum yfir hvítvín og rauðvín, rúlluðum upp servéttubrotum (ég reyndar kunni þau fyrir þannig að það var ekki mikið mál), hittum hins vegar hvorugt einum einasta tappa ofan i kælifötu. Það var reyndar seint í smakkinu...

Eina sem ég varð fyrir vonbrigðum með voru glösin sem maður fékk til að smakka og eiga svo á eftir. Í fyrra og hitteðfyrra voru þessi líka fínu Riedel glös, vel samboðin vínunum sem voru þarna en núna var það greinilega skorið niður og glösin voru ósköp venjuleg glerglös, allt of belglítil fyrir sum vínanna. Nutu sín engan veginn.

Tokaji var síðan toppurinn, alveg eins og í fyrra.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?