<$BlogRSDUrl$>

2005-11-17

Hann Tryggvi kollegi minn og vinur var með athygliverðan pistil á síðunni hjá sér fyrir nokkrum dögum. Ég ræni honum hér í heild, tek algerlega undir með honum:

„Tónlistarmenn lítilsvirtir!!
Ég hafði reyndar frétt af þessu, en var minntur á það í Mogganum í dag að nú er að hefjast ein viðamesta kynning á íslenskri samtímalist í Þýskalandi, nánar tiltekið í Köln. Þar koma fram helstu fulltrúar þjóðarinnar í myndlist, bókmenntum, kvikmyndagerð, ljósmyndun, tísku og hönnun og tónlist, eða er það ekki annars? Ef maður lítur yfir lista þátttakenda, sem sjá má á bls. 17 í Mbl. í dag, má sjá nöfn sem maður er vanur að sjá á kynningum sem þessum: Friðrik Þór, Dagur Kári, Ragnar Axelss. (rax), Gabríela Friðriks, Gjörningaklúbburinn, Þorvaldur Þorsteinss, Einar Kárason, Guðbergur Bergss og Sjón. Allt saman listamenn sem sóma sér vel á hátíðum sem þessum. Þegar kemur að tónlistinni lítur nafnalistinn í heild sinni svona út:
Apparat, Biogen, Claudio Puntin,Einar Örn & Ghostigital, Frank Schulte, Gerður Gunnarsdóttir, GusGus, Heimir Björgúlfsson, Hilmar Jensson, Jacob Kirkegaard, Jaki Liebezeit, Jóhann Jóhannsson, Kippi Kaninus, Matthías Hemstock, Mugison, Seria, Ozy, Skúli Sverrisson, Steintryggur, Stilluppsteypa og Thor DJ.
Er þetta í alvörunni meiningin? Er þetta kynning á íslenskri samtímatónlist eins og hún gerist best? Hvað er að gerast?
Nú vil ég alls ekki tala illa um þetta ágæta fólk á listanum hér að ofan og eflaust verður það landi og þjóð til sóma, en það er fáránlegt að bera saman lista rithöfundanna, þar sem vart er þverfótað fyrir handahöfum norðurlandaverðlauna og annara viðurkenninga og lista tónlistarmanna sem einkennist að mestu af misflinkum tölvuáhugamönnum. Þau nöfn sem hægt er að tengja við alvarlega tónlist á þessum lista eru þarna sem fylgifiskar einhverra af þessum poppurum.
Samkvæmt Mbl. er það þýski tónlistarfræðingurinn Dirk Roul ábyrgur fyrir þessu vali, en þar sem íslensk ráðuneyti eru á annað borð að leggja peninga í þetta finnst mér að það hefði mátt sýna fram á fjölbreyttari flóru íslensks tónlistarlífs en hér varð raunin.“

Svo mörg voru þau orð.

Heyrði síðan í pistlahöfundi á Rás 1 í dag fjallandi um þetta. Hún las upp pistilinn hans Tryggva og kom síðan með einhverjar stórfurðulegar pælingar um hann, eitthvað með að íslenskir rithöfundar hlustuðu ekki á íslenska samtímaklassík heldur skrifuðu bækur sem hétu Bítlaávarpið og létu sögupersónur sínar segja að klassísk tónlist væri bara eins og intró að popplagi. Ekki veit ég hvað það hefur með málið að gera.

(endurskoðað. Ég sá hver pistlahöfundurinn var og hún veit helling um nútímatónlist, nútímatónlistarmaðurinn sjálfur. Pistillinn var samt stórskrítinn. Náði reyndar ekki endinum á honum, kannski var einhver punktur í lokin sem breytti öllu)

En ég get alveg lofað íslenskum samtímarithöfundum (sem vilja líklega ekki að verkin sín séu flokkuð sem intró að Rauðu ástarsögunum) að ef þeir leggja sig eftir nýrri íslenskri músík finni þeir eitthvað sem þeir geti sætt sig við og jafnvel haft gaman af. Á sunnudaginn var voru til dæmis frumflutt tvö bráðskemmtileg verk, annað eftir Þórð Magnússon og hitt eftir Harald V. Sveinbjörnsson, ég held ég geti lofað því að maður þarf ekki að vera sprenglærður til að kunna að meta verkin.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?