<$BlogRSDUrl$>

2005-08-07

fór annars í Skálholt í gær, síðasta tónleikahelgi. Hálfsá eftir að hafa ekki frekar farið í dag, vissi ekki að nýju verkin yrðu líka flutt í dag, ásamt verkinu hennar Þóru. Verður ekki breytt úr þessu.

Tvennir tónleikar, fyrri með Skálholtskvartettinum, verk eftir Haydnbræður og Boccherini, ágætis tónleikar nema fyrsti fiðluleikarinn er eiginlega orðinn fullgamall, spilaði því miður ekki nægilega hreint. Truflaði mig svolítið. Hinir voru allir fínir. Síðasta verkið, kvartettkafli eftir Boccherini, tókst best og var líka svo ljómandi skemmtilegur. Brá fyrir flamencotakti og meira að segja stefi úr Star Wars (stríðsstef Darth Vader).

seinni tónleikarnir voru hins vegar tær snilld. 8 frábærir sellóleikarar spiluðu 3 glæný verk ásamt tveim eldri (ekki mjög gömlum þó). Frumflutt verk eftir þrjú staðartónskálda, Önnu Þorvaldsdóttur, Gunnar Andreas Kristinsson og Huga Guðmundsson. Allt flott stykki, Önnu verk mikið stemningsstykki, flaututónar mjög ráðandi. Gunnars verk var kannski það sem höfðaði mest til mín, mikið flæði hugmynda, hugvitsamlega unnið úr þeim, mjög flott notkun á yfirtónaröðinni (sem þýðir notkun á kvarttónum, utan tóntegundar). Flutningurinn var frábær, aðdáunarvert hreinir kvarttónar. Ekkert sérstaklega létt að samstilla þá. Verk Huga var vandað og fallegt eins og hann á vanda til, hef þó heyrt önnur verk eftir hann sem hafa hrifið mig meira. Kannski þarf maður að þekkja það betur, stundum svoleiðis.

Síðan var verk eftir rúmenska tónskáldið Doinu Rotaru. Aldrei heyrt um þessa konu áður en á eftir að sækjast eftir að heyra meira. Snilldarverk,flott í forminu, áhrifaríkt, nýtir hljóðfærin til fullnustu. Hún verður eitt af staðartónskáldum næsta sumar, maður má ekki láta þá tónleika fram hjá sér fara, nokkuð ljóst.

Tónleikarnir enduðu síðan á ljómandi fallegu verki eftir Snorra Sigfús Birgisson, byggðu á Liljulagi. Snorri stjórnaði einnig tónleikunum af myndarskap.

Sá ekki eftir að hafa drifið mig á tónleika. Krakkarnir fóru öll með og tóku þátt í Tónlistarsmiðju unga fólksins, frábært tiltæki að henda ekki krökkunum bara í pössun á meðan tónleikarnir eru heldur fá þau sína hluti að glíma við og halda síðan tónleika fyrir foreldrana í lokin. Finnur var kannski aaaðeins of lítill en hafði samt mjög gaman af þessu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?