<$BlogRSDUrl$>

2005-07-12

ég held ég hafi komið einu sinni í Þjórsárdal á ævinni fyrir þetta sumar, amk man ég ekki eftir fleiri skiptum. Fórum tvisvar frá Skálholti í þetta sinn. Tókst í hvorugt skiptið að sjá Heklu né að fara inn í þjóðveldisbæinn. Í bæði skiptin var Hjálparfoss tekinn út samt. Fyrra skiptið með Andrew hobbitatenórnum okkar úr Carminu (mjög impóneraður yfir þessu öllu saman), í seinna skiptið enduðum við nokkrir Hljómeykisliðar í sundlauginni í eyðimörkinni. Frábær staðsetning á laug, maður keyrir fleiri kílómetra í sandauðn með stöku lúpínurunna og svo allt í einu birtist sundlaug með grasbölum í kring.

Nema hvað, við sitjum 3 i heitum potti við laugina, ég, Hallveig og Skúli hinn arabíski, vinur okkar. Smá bakgrunnur hér: Skúli vinnur í kjötborði í Nóatúni, við Hallveig erum miklir gúrmetar og matreiðsluáhugamenn (ef það hefur farið fram hjá einhverjum). Vorum að enda við að ræða um hitastig á nautasteikum, blue, rare, medium og svo þessar ónýtu.

áfram með söguna. Pottarnir eru ekki sérlega vel hitastýrðir, okkar var fínn. Koma ekki tveir bændur, giska á um sextíuogfimm-sjötugs og setjast í hinn pottinn. Sá var víst vel heitur, mælirinn sýndi 45°. Þeir byrja að kvarta um hita þannig að við bjóðum þeim í okkar líka fína 39-40° pott. Þeir þiggja það með þökkum og koma yfir til okkar. Hneykslumst smá á heitum pottum með 45° vatni og ég segi: Ég held maður byrji að eldast um fimmtíu. Annar karlinn lítur á mig svolítið undarlegu augnaráði og segir að það sé nú kannski örlítið fyrr, kannski svona upp úr fertugu. Mér finnst þetta ekki smá fyndið en segi ekki neitt. Karlinn verður alltaf móðgaðri og móðgaðri á svipinn þar til Skúli segir: Hei, ég hélt þú værir að meina að maður byrjaði ekki að eldast, svona eins og kjöt, fyrr en um fimmtíu gráður á celsius. Jú, það var nú einmitt það sem ég meinti.

Karlinn springur úr hlátri, hafði nottla ekki skilið neitt í þessum blammeringum á gömlu karlana þarna.

Ekki að þetta hafi verið nóg, andartaki seinna kallar Daði (annar kórfélagi) utan úr laug: Skúli! komdu og taktu myndir af okkur! myndavélin mín er í Hagkaupspoka við hliðina á pottinum. Skúli nennir þessu eiginlega ekki, er svolítið lengi af stað, þannig að skipunin er ítrekuð: Skúúúúliiii, kommon, ekkert kjaftæði, það er ekkert kalt! Karlgreyið, já þessi fyrrum móðgaði er staðinn upp til að hjóla í myndavélina, hreint ekki skiljandi hvernig í dauðanum Daði vissi hvað hann héti....

This page is powered by Blogger. Isn't yours?