<$BlogRSDUrl$>

2005-06-30

það var nefnilega það! bara vitnað í mann á Dagblaðinu. Og ég sem var að enda við að birta um þá níðvísu í kommentakerfinu hennar Þórdísar.

þetta er ákveðinn áfangi í lífi bloggara, því verður ekki neitað. Ekki reikna ég nú með að ég verði einelt af blaðinu eins og ákveðinn bloggari sem hætti bara.

en mig dauðlangar að sjá blaðið. Kannski maður fari og kaupi. Hvaða dag var þetta eiginlega?

2005-06-29

já og svo er ég fokin í skálholt i 10 daga, á eftir að kíkja hér við örugglega en veit ekki alveg hvenær („netkaffið“ í Skálholtsskóla var skelfilega lélegt síðast, kem heim á sunnudagskvöld amk)
klukkan er rúmlega hálftvö, síðasti lostþáttur í bili, aldrei að vita nema maður kaupi einhvern útlandaútsendingarpakka til að ná abc live. Maður er búinn að vera límdur við tækið (og ef þið þekkið mig þá vitið þið að ég er ekkert svo glatt límd við skjá, yfirleitt staðin upp og farin að lesa eða í tölvuleik eða að netjast eða eitthvað). úff. bíða fram á haust í það minnsta. om bluddy g

2005-06-28

jahá!

óperuhús í Kópavoginn eftir tvö ár!

það væri synd að segja að ég sé aðalaðdáandi Gunnars Birgissonar en þarna gæti hann nú skorað stóran feitan punkt hjá mér. Yrði ekki smá löðrungur framan í borgaryfirvöld, búið að tala um tónlistarhús í éveidiggi hvað marga áratugi, búið að útþynna það með einhverju ráðstefnukjaftæði og svo yrði Kópavogur á undan. Þeir eiga Salinn, mjög vel heppnað lítið tónlistarhús og svo kæmi óperan.

Hann á náttúrlega eftir að tala ríkið til en það er alveg mögulegt að þar á bæ sé fólk til í að stríða Reykjavíkurlistanum smá...
omg!

2005-06-27

hóhóhó

jólasveinninn mætti hér áðan í líki Óla bróður, með fjóra næstu þætti. Þá veit maður hvað maður gerir í kvöld eftir kóræfingu. Þá vantar bara tvo...
Passa sig, núna er kominn smá spoiler í kommentin tveim færslum neðar...

2005-06-26

Styttist í Skálholt, förum á miðvikudagsmorguninn. Verður gaman. Sérstaklega seinni vikuna, músíkin hennar Jórunnar Viðar er bara yndisleg. Ekkert sérlega kirkjuleg, bara góð tilbreyting þar.

2005-06-25

Pulla, you're wrong. Lost er ekkert að missa það. Búin með þátt 19 og við sitjum hér titrandi og skjálfandi. Þáttur 17 (Jin) var reyndar ekkert spes en hinir voru fínir. Verst að þetta leysist ekkert í „síðasta“ þættinum. Og verst að við gætum þurft að bíða lengi eftir þáttum 24-? Ekki búið að sýna þá enn, þannig að ég efast um að þeir séu komnir á netið...

en Jack náði Sawyer ansi hreint vel í 19. þætti...
Það virðast álög á okkur að uppáhaldshvítvínin okkar hætta alltaf að fást í Ríkinu. Vinas del vero gewurstraminerinn hætti fyrir nokkrum mánuðum, Chablisvín frá Thorin hætti fyrir mörgum árum, Brown Brothers chardonnay fyrir töluverðum tíma, nú síðast voru að hætta La Chablisienne Vieilles vignes og það sem verra er: Stoneleigh chardonnay sem hefur verið algjör standard í kjallaranum.

súri pakkinn. Sem betur fer er hægt að sérpanta flest vínin, það er bara vesen...
Við hér á bæ erum miklir vínsnobbarar, eins og einhvern tímann hefur nú komið hér fram áður. Var að fá snilldarhugmynd í sambandi við Ítalíuferðina. Góð ítölsk vín eru algjör snilld en rándýr. Þannig að fyrsta eða annan daginn skal tekinn strætó til San Marino (hálftími frá Rimini og við ætluðum þangað hvort sem er) og keyptar birgðir af Barolo, Brunello og Amarone til að drekka á meðan við erum á Ítalíu. Skattur enginn þannig að það munar hellingi á verðinu. Við verðum ekki smá rauðvínslegin þegar við komum heim...
Lost 14-16 í kvöld, 17-19 á morgun og svo kannski 20-24 á sunnudag/mánudag

bliss.

2005-06-24

komin aftur, búin að fara í gegn um öll 140 tölvubréfin, lesa brandarasíðuna, senda bréf sem ég þurfti að senda. Þokkalega gott að vera aftur komin í samband við umheiminn.

Hefði reyndar alveg getað dröslað tölvunni niður á neðri hæð þar sem ég á símatengi en það var bara of mikið vesen, ég varð að hafa vinnuaðstöðuna (les hljómborðið) virka megnið af tímanum. Kláraði að hreinskrifa tvö verk og velja tökur fyrir diskinn minn (með góðri hjálp og láni á minidisk hjá Óla bróður reyndar) Kannski var bara ágætt að vera netlaus í þessa daga...

2005-06-22

ég er flóttamaður hjá mömmu og pabba í Garðabæ.

Ekki kemur það nú af mjög slæmu, heldur því að ég er netlaus (garg) heima hjá mér, við erum að pússa upp gólfið á skrifstofunni, tekur 2-3 daga og ég á ekki nægilega langa símasnúru til að ná netinu inn í stofu þar sem tölvan er á meðan.

Þannig að ég nota hverja tylliástæðu til að kíkja til Hallveigar eða mömmu.

Búast má við verulegum bloggtöfum meðan á vinnu stendur. Það er bara í stíl við vegagerðina...

2005-06-20

einhverjir gætu átt í erfiðleikum með að skrá sig hjá mikka, þar sem ég sleppti fyrstu leiðbeiningunum úr beiðninni þarna í gær.

(þessu er shamelessly stolið frá honum bróður mínum annars)

hér kemur byrjunin:

Byrja á því að RSSa bloggið sitt (eða atom.xml) Hjá Blogger er þetta gert með því að fara inn í Settings og breyta publish site feed í YES.
Þá verður sjálfkrafa til síðan http://xxxx.blogspot.com/atom.xml (þar sem xxxx stendur fyrir bloggnafnið)

Þessa síðu á að setja inn í Veituslóðargluggann í skráningunni.

assvakið hvað þetta var óskýrt þarna í gær...

2005-06-19

fyrsta fjölskyldumáltíð á pallinum 

ekki það að við höfum verið að vígja pallinn, en við höfum aldrei borðað þarna úti fyrr en á sautjánda júní. Fífa ekki heima, Finnur ekki svangur þannig að við eigum enn eftir að borða öll úti. Gæti orðið þröngt við þetta borð, en við eigum eftir að reyna. Keyptum borð og stóla (ekki sólstólana, hina) um daginn og svo tókst okkur að borða úti. Tóm snilld, þrátt fyrir veikindi und alles. Þetta verður endurtekið eins og kostur gefst í framhaldinu, svo fremi sem stólum og borðum verður ekki stolið, eins og sólstólunum okkar fyrir einu og hálfu ári (grrr).

sorrí hvað myndin er skrítilega lýst, þykist vita að hún sé ekki mjög góð nema á bestu skjáum en vélin réð ekki alveg við þessa sól á hvítum vegg bak við okkur...

fyrsta fjölskyldumáltíð á pallinum
Originally uploaded by hildigunnur.
búin að eyða síðasta klukkutímanum eða svo í að senda bloggurum sem ég les komment til að reka þau í mikkavefjarveitu. Trúlega hef ég misst af einhverjum, er búin að fara nokkurn veginn í gegn um tenglalistann minn, á eftir bookmarks fólkið. En fyrir þá sem ég missti af (ekki viljandi, lofa ykkur því) eru skilaboðin hér:

viltu plíís skrá þig á mikkavefjarveituna? ég er að missa af færslunum hjá þér aþþí ég kíki bara á mikkasíðuna mína til að fylgjast með hvaða færslur eru nýjar. Og það finnst mér alveg voðalega slæmt...

svo getur maður búið sér til þennan fína lista hjá mikka yfir þá sem maður vill lesa sjálfur án þess að fletta í gegn um listann, best virkar þetta fyrir fólk sem skrifar ekki mjög oft en maður vill ekki missa af færslunum þá sjaldan þær koma. Þetta kostar ekki krónu, maður fær ekki borgað heldur, ekkert spam á netfangið manns, engar auglýsingar á síðuna manns, bara plúsar og enginn mínus.

takk fyrir snilldarþjónustu Hallur og þið hinir hjá mikkavef.
Finnur var að fara að sofa, Fífa var að horfa á Lostþáttinn sem hún missti af í sjónvarpinu, Finnur þurfti að fara í gegn um sjónvarpherbergið þannig að Fífa æpti: Ekki horfa, það er ljótt í sjónvarpinu. Stoppaði síðan spóluna til að hann kæmist inn til sín. Þá var fótboltakvöld í sjónvarpinu. Ég gat nottla ekki setið á mér: Já, það er alveg rétt, Finnur minn, það er voðavoða ljótt í sjónvarpinu; ekki horfa...
annars var það barnaþrælkunarpakkinn hér í dag. Fífa kom heim seint í gærkvöldi (ooohhh, það er annars ekki smá gott að vera búin að fá stóru skottu heim - var annars nokkur búinn að taka eftir því að ég saknaði hennar?). Var búin að lofa henni að henni forspurðri í kvartettspilerí í dag, með bestu hljómsveitarvinunum. Þegar ég lofaði því, vissi ég hins vegar ekki að kórinn væri að syngja í útvarpsmessu í morgun, þannig að prógrammið var stíft hjá henni í dag.

(ég ýki þetta náttúrlega helling, ég bauð henni upp á að afboða kvartettinn, en hún vildi það ekki enda dauðlangaði hana að hitta krakkana og þetta var mjög skemmtilegt allt saman)

tók hana hins vegar ekki með á tónleika, fór á kvennatónleika Camerarctica í Norræna húsinu í dag. Hörkuskemmtilegir tónleikar, allt verk eftir íslenskar konur, hafði ekki heyrt nema eitt af þeim áður. Fyrir utan náttúrlega þessi tvö eftir mig.

til hamingju með daginn, íslenskar konur, annars :-)
formúlan var furðuleg í dag. Botnliðin tvö og eitt meðalgott voru einu sem kepptu, einhver dekkjavandræði hjá Michelin. Ljóta vitleysan...

2005-06-18

litli herramaðurinn góður í afmælinu hjá frænku sinni í gær.

var kominn á netið, einu sinni sem oftar, kallar svo ofan af lofti:
Mamma, hvað þýðir dónt?
mamman: Það þýðir ekki
Finnur: En hvað þýðir dónt send?

Mágurinn var frekar fljótur upp á loft til að tékka á status. Gaurinn var nú ekki búinn að klúðra neinu, en maður veit aldrei með hann. Næsta gæti orðið: Mamma, hvað þýðir ereis hard disk?
naumast hvað ég var að endurtaka mig í síðasta pósti. Segi nær ekkert sem ég var ekki búin að segja kvöldið áður.

En ég er í alvörunni að skána. Ekki alveg hætt að hósta og talröddin liggur í altlegu en það surgar ekki svona í mér og ég er farin að geta sungið yfir þetta. Gott mál. Þarf ekki að finna fyrir mig sópran í þessar tvær jarðarfarir á mánudaginn og þriðjudaginn. Eins gott, reyndar, við erum enn ekki búnar að finna þriðja sópraninn fyrir mánudaginn. Allir í burtu eða í sumarvinnu eða eitthvað álíka. Ekki allir sem geta hoppað inn í svona hópa, mega hvorki vera með of stórar eða of litlar raddir, ekki of mikið víbrató, (þoli ekki svona einsöngvarakóra - nema þeir séu þá þeim mun stærri. Óperukórinn er fínn), síðan þarf viðkomandi helst annaðhvort að vera vel heima í jarðarfaralitteratúrnum eða þá að vera pottþéttur lesari og hafa næma tilfinningu fyrir tempóum og að elta þessar hefðir sem hafa skapast í lögunum (anda hér, veikar/sterkar þar...) Heilmikil stúdía, þetta, sko.
röddin er að skríða saman

og Fífa kemur í kvöld...

heimur batnandi fer :-)

2005-06-17

þessi líka fíneríis þjóðhátíðardagur búinn (þrátt fyrir lasleik og allt), krakkarnir fóru í bæinn með pabba sínum, barnaafmæli hjá litlu frænku og síðast grill og rauðvín með góðum grönnum fram til klukkan hálfellefu, vafin inn í flíspeysu og flísteppi, (annarri nágrannakonu minni til hryllings - lásuð þið ekki Fréttablaðið í fyrradag? nýi þjóðbúningurinn? sú frauka býr við hliðina á mér)

röddin er að skríða saman held ég, mátaði byrjun á jarðarfararsálmi áðan og sveimérþá ef ég hitti ekki bara á tónana. nokkuð sem ég átti ekki séns í í morgun.

og svo kemur Fífa eftir sólarhring! við eigum eftir að rífast um hvort okkar fær að sækja hana út á völl...
ákvað að fara ekki í bæinn, enn lasin, varð lafmóð við það eitt að hengja þvott út á snúru og setja í nýja vél, þannig að pabbinn töltir þetta einn með krakkana. Verst að missa af allri stemningunni sem er örugglega niðri í bæ.

hvað er annars með þetta veður, eiginlega? hvar er rokið og rigningin sem við eigum að venjast á den syttende?
setti loksins upp mikkavefjarhött fyrir mig. Mættu samt fleiri af stóra listanum mínum skrá sig þar.
GLEÐILEGA ÞJÓÐHÁTÍÐ
GLEÐILEGA ÞJÓÐHÁTÍÐ
GLEÐILEGA ÞJÓÐHÁTÍÐ
GLEÐILEGA ÞJÓÐHÁTÍÐ
GLEÐILEGA ÞJÓÐHÁTÍÐ

allir í skrúðgöngu og veifa fánum.
hmmm, ég veit ekki hvort þetta stemmir með mozart effektinn, en restin er snilld. Ef þið eruð ekki mikið inni í klassískri og nútímamúsík á ykkur eflaust ekki eftir að þykja þetta fyndið, samt...

The Mozart Effect

A new report now says that the Mozart effect is a fraud. For you hip urban
professionals: no, playing Mozart for your designer baby will not improve
his IQ or help him get into that exclusive pre-school. He'll just have to
be admitted to Harvard some other way. Of course, we're all better off for
listening to Mozart purely for the pleasure of it. However, one wonders
that if playing Mozart sonatas for little Hillary or Tom could boost their
intelligence, what would happen if other composers were played in their
developmental time?

LISZT EFFECT:Child speaks rapidly and extravagantly, but never really says
anything important.

BRUCKNER EFFECT:Child speaks very slowly and repeats himself frequently.
Gains reputation for profundity.

WAGNER EFFECT: Child becomes a megalomaniac. May eventually marry his
sister.

MAHLER EFFECT:Child continually screams - at great length and volume - that
he's dying.

SCHOENBERG EFFECT:Child never repeats a word until he's used all the other
words in his vocabulary. Sometimes talks backwards. Eventually, people stop
listening to him. Child blames them for their inability to understand him.

BABBITT EFFECT:Child gibbers nonsense all the time. Eventually, people stop
listening to him. Child doesn't care because all his playmates think he's
cool.

IVES EFFECT:the child develops a remarkable ability to carry on several
separate conversations at once.

GLASS EFFECT: the child tends to repeat himself over and over and over and
over and over and over and over and over and over and over and over and
over and over again.

STRAVINSKY EFFECT: the child is prone to savage, guttural and profane
outbursts that often lead to fighting and pandemonium in the preschool.

BRAHMS EFFECT:the child is able to speak beautifully as long as his
sentences contain a multiple of three words (3, 6, 9, 12, etc). However,
his sentences containing 4 or 8 words are strangely uninspired.

AND THEN OF COURSE, THE CAGE EFFECT -- CHILD SAYS NOTHING FOR 4 MINUTES, 33
SECONDS. PREFERRED BY 9 OUT OF 10 CLASSROOM TEACHERS.

(komið frá:
Jim Guttmann
Business Manager
Klezmer Conservatory Band

gegnum Ímu Jónsdóttur og síðan Jónas Sen, svo maður hafi nú tengslin á hreinu)

2005-06-16

jú, lasin var það. Hósta úr mér lungun og búin að vera í bælinu frá níu í gærkvöldi eða svo. Freyja sá um bróður sinn í gærkvöldi og nú er hún farin út að kaupa ís handa mömmu sinni, þessi elska. Gæti reyndar þurft að skjótast út í M&M og kaupa afmælisgjöf handa litlu frænkuskottu sem heldur upp á afmælið sitt á morgun (afsökun fyrir að kaupa danska kellingablaðið mitt, sko og kannski eitthvað meira að lesa...)

Nú mætti kommentakerfið fara að taka við sér svo ég fái nú einhverja vorkunn. Annars má senda mér getwellkort í netfangið undir - póstur til mín - hér neðarlega á vinstri vængnum ;-)

2005-06-15

og enetation búið að vera niðri síðan í morgun, skamm!
Ólibróðir mættur á svæðið, alltaf gaman að því. Lánaði mér líka minidiskspilarann sinn aftur, kannski maður klári nú að velja þessar bvítans tökur fyrir diskinn minn.

held annars að ég sé að verða lasin, ekki eins gott. Farin að hósta aðeins of mikið fyrir minn smekk og sveimérþá ef ég er ekki með smá beinverki. Ekki gott, en skárra en ef það hefði verið eftir 2-3 vikur, í Skálholti. Eina núna eru tvær jarðarfarir í næstu viku, vonandi verður þetta í lagi fyrir þær.

2005-06-14

já, og í dag er nákvæmlega mánuður í Ítalíuferð. Skrítið, það er nefnilega svo rosalega margt sem á eftir að gerast þangað til. Tæpar tvær vikur og tvær tónleikahelgar í Skálholti, helst klára músík materíal fyrir Vídalínsmessu...
náði svona klukkutíma á pallinum í dag og að sjálfsögðu rauk sólarexemið í gang. Unglingurinn er nefnilega með öflugu sólarvörnina með sér á Spáni og ég átti bara einhverja aumingjasólarvörn með stuðulinn 8 eða eitthvað þannig. Og að sjálfsögðu er unglingurinn líka með aloe kremið þannig að mig bara klæjar. Sjálfskaparvíti hvað?

Var annars að lesa að það sé ekki rétt að maður megi ekki nota sólarvörn milli ára þar sem hún missi virknina. Missi bara svona einn í stuðli, sem sagt að stuðull 20 verði 19 næsta ár. Vonandi er það rétt.
kíkið á þetta hér, algjör snilld.

2005-06-13

mikið skelfilega er leiðinlegt að fá svona algerlega ólæsilegar nótur eins og við erum með núna. Sé fram á það að setjast hér niður og tölvusetja verkið, þetta er algerlega óþolandi. Spurning um hver er til í að borga fyrir það, ég tölvusetti eitt verk ókeypis, það er eiginlega nóg. Þetta er hellings vinna og hundleiðinleg í þokkabót.
Peningum úthlutað, vorum ekki lengi að því, náði síðan í skottið á hátíðinni. Algjör snilld að fá svona dag, var ekki einu sinni spáð svona góðu. Þá er bara að vona að spáin fyrir næstu daga rætist jafnilla.
Sumarhátíð í leikskólanum hans Finns í dag. Og að sjálfsögðu var búið að troða mér á fund á sama tíma. Dauðsé eftir að hafa sagst vera laus. Kannski næ ég í seinnipartinn af hátíðinni. Þetta er svo dæmigert að ég geti ekki farið í neitt á leikskólanum, yfirleitt allt á vinnutíma hjá mér. Þau hljóta að halda að ég sé afleit móðir sem hafi engan tíma fyrir börnin mín :(

neinei, þau halda það reyndar ekki neitt. En það er samt leiðinlegt að komast ekki.

Á fundinum á ég að úthluta um 400 þús krónum til þeirra sem hafa staðið sig vel í að semja eða panta nýja íslenska kirkjutónlist. Og ég hef enn ekki hugmynd um hvern ég á að plögga...

2005-06-12

Eggaldinlasagnað komið á brallið fyrir þá sem ég var búin að lofa...
aaahh, loksins tókst Kimi að klára þetta, verst hvað rauðu bílarnir voru heppnir, allt liðið fyrir framan þá datt út...
ma&pa fóru í menningarferð til Vínarborgar um síðustu helgi. Afskaplega vel heppnuð ferð, 3 óperusýningar með meiru. Nema hvað, einn morguninn var mamma að svipast um eftir korti af miðbænum, sá bunka á borði, tók eitt og rétti pabba til að geyma. Pabbi stingur kortinu í brjóstvasann, efsti hlutinn stendur upp úr. Ekki hugsað meira um það í bili. Þegar var vel liðið á daginn ætla þau að fara að nota kortið eitthvað en bregður heldur í brún.

kortið var: Vienna Gay Guide, kyrfilega merkt á partinum sem stóð upp úr brjóstvasanum og í það merktar allar gay búllur miðbæjarins...
ástand á heimilinu í morgun, litlu krakkarnir bæði lasin, fórum meira að segja með Freyju upp á Læknavakt, hrædd um að hún væri með botnlangakast eða eitthvað, sem betur fer reyndist þetta svo bara vera einhver magaflensa. Spurði út í kvefið hans Finns og það passar, einmitt svona hundleiðinleg pest að ganga, með ljótum hósta und alles. Vonandi getur hann farið í leikskólann aftur á morgun, er alveg að tryllast heima hjá sér, þeas þegar honum er bannað að vera í tölvunni allan daginn.

Glæsileg útskriftarveisla í gær, Þorbjörn og Helga buðu upp á grillaðar nautalundir með meðlæti. Tótal snilld, takk fyrir okkur og til hamingju aftur :-)

2005-06-11

inni að semja, langar úúúút. Kannski maður ætti að láta það eftir sér, nokkra tóna í viðbót og svo pallurinn, bara. Sleppi bjórnum núna samt, verð að geta keyrt á eftir...

2005-06-10

gömlu hjónin ein í kotinu - tja, nema við teljum köttinn með. Fífa náttúrlega á Spáni og litlu krakkarnir fengu að gista hjá ömmu sinni. Litli gaur er reyndar enn lasinn og ég var að hugsa um að halda honum bara heima, en þegar hann frétti að frændi hans væri kominn til landsins var ekki við annað komandi en að hann fengi að fara líka. Þannig að honum var pakkað inn, ásamt pústi og stílum og sendur í Kópavoginn.

Við ákváðum að taka smá forskot á Ítalíuferðina og fara út að borða á Ítalíu. Ljómandi gott pasta bara, rauðvínið ljúft, ahhbú, við komin heim og klukkan ekki orðin níu. Hmm! önnur rauðvín í spilunum sýnist mér á öllu. Einn góðan Barolo til að toppa kvöldið.

dottin í Barolo og - hmm, hvað á ég af ítalskri músík? Vivaldi? Berio? Skjáumst síðar ppl.
enn er hann baldito með snilldarfærslu, reyndar nokkurra daga gamla. Kíkið endilega.

2005-06-09

Sideways í tækinu fyrir nokkrum dögum, var búið að hrósa mikið (kannski ofhrósa) í okkar eyru, en góð var hún nú samt. Ég stóð bara einu sinni upp og flýði, þoli ómögulega vandræðalegar senur, en kom þó aftur og kláraði myndina. Mikið ógeðfelldur þessi „sæti og sexí“ þarna.

Annars beið ég nærri alla myndina eftir DWI kæru á aðalsöguhetjuna...
fékk sms frá Bilbao, þrjátíuogþriggja stiga hiti en annars allt í fína lagi. Gott að heyra.

Þorbjörn og fjölskylda eru í bænum, Helga mágkona að útskrifast úr kennaraháskólanum á laugardaginn, til hamingju með það, Helga :-)
húrra :-) tónleikarnir hennar Önnu Soffíu eru á netinu. Hlustið, hlustið!

2005-06-08

Finnur á violuhatid 

Þar kemur loksins mynd af litla herramanninum að spila fyrir stórmennin á víóluhátíðinni. Lítur prófessjonal út, ekki satt?

Ég var nú ekki dugleg að sækja hátíðina, allt of lítið, reyndar, en það sem ég sá og heyrði var mjög skemmtilegt. Víóluleikarar landsins voru að sjálfsögðu gersamlega á kafi í þessu. Held að Finnur hafi bara haft voða gaman af því að spila þótt einbeitingin hafi ekki verið alveg í toppi. Fannst að minnsta kosti skemmtilegt að fara niður og fá að velja sér drykk og köku á eftir...

Stefnum á að fara til Ítalíu á Suzukihátíð um næstu páska, allur víóluhópurinn sem er þarna, eða amk stærsti hluti hans.

Finnur á violuhatid
Originally uploaded by hildigunnur.
bwaaaaaaaahhhhhh!

þá er unglingurinn farinn. 10 Fífulausir dagar. veit ekki hvernig ég á eftir að láta þegar börnin mín vilja flytja að heiman...

nei annars, þetta er ekkert svona erfitt. Mest í nösunum á manni. Farin á æfingu, Freyja passar Finn lasinn. Nóg að segja honum að hann megi fara í tölvuna, þá er slökkt á honum næstu klukkutímana.

2005-06-07

búin að vera í allan dag að hjálpa Fífu að undirbúa Spánarferðina, Gradualekórinn að fara út á morgun, verður í 10 daga. Á ekki eftir að sakna hennar neitt smá mikið. Alveg burtséð frá því að missa pössunina, er strax í vandræðum með fyrramálið, er að fara á Carminuæfingu og Finnur er lasinn. En aðallega verður nú samt skrítið að hafa ekki unglinginn heima. Er í augnablikinu að brenna valin lög af Júróvisjóndiskunum fyrir hana til að taka með sér.
Þessi er nokkuð góður.

2005-06-06

góðir með sig þarna í Hallgrímskirkju...

eru samkvæmt hátíðarbæklingi að fara að flytja Matteusarpassíu Bachs og kynna hana með því að þetta sé í fyrsta skipti sem verkið er flutt á Íslandi með einsöngvurum í fremstu röð! stór orð það.

(ég verð nú reyndar að segja að þetta bara HLÝTUR að vera misritun í prógramminu, en þokkalega óheppileg, samt)
arrg! ekki er nú Lost að verða neitt minna spennandi. verð að fara að kaupa mér þessa dvddiska og henda þeim í hann Skúla til að fá framhaldið. Þættir sjö til tíu endursýndir á miðvikudag, veit nú samt ekki hvort maður horfir. Ekki alveg útilokað, samt.
þá er ég komin með stundatöfluna mína í LHÍ á hreint - eða næstum því, amk. Kenni 6 tónheyrnartíma, alla á þriðjudögum, það verður þokkalega langur dagur. Undirbúningur um morguninn, kennsla hálfellefu til hálffimm og síðan kvöldæfing hjá SÁ átta til hálfellefu. Síðan fæ ég einn tónsmíðanemanda, það verður spennandi. Aldrei kennt tónsmíðar áður.

2005-06-05

þessi grein er með þeim betri.
já og svo fór ég í morgun með þjóðlagabókina mína og örfá útvalin sönglög á nótum og upptöku og afhenti stórsöngkonunni, ekki það að maður reikni með að neitt komi út úr því, en hei, ef maður reynir ekki að koma sér á framfæri gerir það pottþétt enginn fyrir mann...
þá er allt afmælisstúss búið þar til í lok janúar '06 Gott mál.

Við eigum semsagt öll afmæli fyrri hluta árs, reyndar ef maður spáir í stjörnumerkin er það svolítið sniðugt:

Jón Lárus er vatnsberi - (waaater beeeareeer, you beeear me wateeer? (innvígðir, sko))
ég er fiskur
Freyja er hrútur
Finnur er naut
og Fífa er tvíburi

(plís, ekki spyrja mig hvort ekki standi til að fylla út í hringinn, nei, ekki 7 börn í viðbót takk)

en við spáum ekki í stjörnumerki, þannig að the point is moot.

Var reyndar fyndið, þegar við áttum von á Fífu, komin svosem 5-6 mánuði á leið voru dönsku kórvinkonur mínar að spyrja mig hvenær ég væri sett, jújú, ég gat sagt þeim það. 22. maí. Já, þetta verður sem sagt tvíburi hjá þér, skemmtilegt. Við vorum ekkert farin að spá í neitt þannig, en ég fer heim eftir æfingu og tilkynni Jóni Lárusi að þetta sé tvíburi. Hann fékk algjört áfall: Haaaa? en það sást ekkert í sónarnum...

2005-06-04

tónleikarnir voru æææææææðislegir. Þessi kona er snillingur. Greinilega getur komið eitthvað gott frá Svíþjóð ;-) Söngurinn frábær, tónlistin flott, útgeislunin og framkoman, bara allt saman. Greinilega mikill húmoristi og leikari líka. Maður á eiginlega bara ekki orð.

Við Hallveig lékum grúppíur og héngum bak við bíóið þar til flytjendurnir komu út, snilld að hitta þau, þó í mýflugumynd hafi verið. Fékk leyfi til að senda henni nótur, þarf að fara með þær í fyrramálið.

Kunnum nú samt ekki við að gate crash eftirpartíið, ekki gott að láta senda á sig einhverja stalkeralöggu, ónei.
unglingurinn var í því að hræða fólk á Laugavegi og Njálsgötu í dag, ásamt heilum hópi af vinkonum í pönkaragervi. Fullt af liði sem sá þarna hóp vandræðaunglinga og ákvað að vera ekki sömu megin götunnar þegar það mætti þeim. Þær áttu í mestu vandræðum með að halda niðri í sér hlátrinum, sérstaklega þegar þær mættu einni gamalli konu sem þorði alls ekki að horfast í augu við þær. Vona að þær komist ekki of mikið á bragðið...

annars var dagurinn tótal snilld, skrúðgangan og hátíðin frábærar, stemning í toppi, veðrið gat varla verið betra. Settumst síðan á pallinn með bjór, fyrsta skiptið í sumar en vonandi ekki það síðasta. Borgarar á grillinu og svo Anne Sofie von Otter í kvöld.

lífið er gott.

2005-06-03

brjáluð læti í unglingapartíi, maður minn!...
talandi um bjánalega gagnrýni: eru ekki þessar endingar fyrst og fremst fyrir foreldra til að loka fyrir og fyrir fólk til að varast, auðvitað getur þetta líka auðveldað fólki sem sækir síðunar að vita að það sé að fara á rétta slóð og kannski gerir þetta síðueigendum auðveldara fyrir að auglýsa, nóg að setja slóðina í auglýsingu án þess að útskýra meira. Mér finnst bara vera svo mikið gagn að þessu fyrir okkur hin að það geri bara ekki nokkurn hlut til.
úff, mér sýnist við verða að hafa puttana í eyrunum í allt kvöld :-O
unglingaafmæli byrjað, er í pásu frá að elda soft tacos og singstar komið í gang niðri í sjónvarpsherbergi. Litli gaurinn fór í gistingu en litla systir fékk leyfi til að vera heima - með semingi þó.

stelpurnar komu líka heim með einkunnirnar í dag, Fífa fékki 9,3 í meðaleinkunn og Freyja mjög gott í öllu nema tvennu (hæsta einkunn er MG, þeir eru hættir að nota Á, amk í Austurbæjarskóla). Ekki smá montin af þessum skottum.

Fórum í bæinn áðan og keyptum pönkaradót handa Fífu, öryggisnælur í eyrun, keðju til að hengja á gallajakkann og fleira. Er nú samt búin að banna henni að spreyja hárið á sér svart, treysti því ekki að það skolist almennilega úr. Hún ætlaði reyndar bara að spreyja endana, kannski verður það í lagi. Þarf hvort sem er að snyrta það. Svart naglalakk og breiðan blýant fær hún hjá vinkonumömmu með pönkarafortíð.

2005-06-02

Herra Finnur spilaði á víóluhátíðinni í dag með hópnum sínum, kannski hafið þið séð hann í fréttunum. Var ógnar utan við sig, notaði m.a. bogann sinn sem skóhorn þegar hann mátti setjast niður (í lögunum tveim sem hann spilaði ekki í), ég sat á gólfinu rétt hjá honum og þurfti að pota í hann nokkrum sinnum til að fá hann til að makka rétt, en að langmestu leyti gekk þetta bara ósköp vel hjá honum. Náði einu laginu nærri öllu upp á vídeó, verst að ég er ekki með heimasvæði til að geta sýnt ykkur. Get amk komið með eina mynd, kannski ég geri það á eftir.

Hátíðin annars í fullum gangi. Sinfóníutónleikar áðan, Júrí Basmet stjórnaði og spilaði sóló, ekkert SMÁ flott! Sjostakóvitsj toppurinn, fannst mér, ég sat gersamlega agndofa og hlustaði. Enda voru undirtektirnar eftir því.

Fór síðan seinnipartinn í dag að æfa, ég er að fara að spila slagara á vorhátíð Austurbæjarskóla eins og í fyrra. Stelpurnar eiga að vera annarsvegar pönkari (Fífa) og barn frá sjötta áratugnum (Freyja). Keypti köflótt pils á Freyju en annars er ég eiginlega lens með föt. Liggur einhver inni með stórköflótt vesti eða sportsokka á 9 ára og hárkollu og öryggisnælur sem þarf ekki að setja í í alvöru, heldur klemma í nef/eyru...?
passar nokkuð vel. Skil samt ekki hvernig mér tókst að ná í þetta mörg prósent af Fundamentalist. Trúlega vegna þess að sumum spurningunum mátti svara á sama hátt af algerlega andstæðum ástæðum.

You scored as Modernist. Modernism represents the thought that science and reason are all we need to carry on. Religion is unnecessary and any sort of spirituality halts progress. You believe everything has a rational explanation. 50% of Americans share your world-view.

Modernist

81%

Materialist

69%

Cultural Creative

63%

Existentialist

63%

Postmodernist

63%

Romanticist

44%

Idealist

25%

Fundamentalist

19%

What is Your World View? (updated)
created with QuizFarm.com
þessi hér er svo mikil snilld:

2005-06-01

afmælisgjöf unglingsins, já...

Hún var ítrekað spurð í morgun að því hvað hún hefði nú fengið í afmælisgjöf frá fjölskyldunni. Og svarið - jú, ég fékk 56 þúsund frá mömmu og pabba, fartölvu frá bróður hennar mömmu...

hljómar eiginlega eins og fermingargjafir en ekki afmælisgjafir, ekki satt? Ástæðan er kórferðalagið til Spánar, hún var búin að safna rúmum 40 þúsundum, kórinn niðurgreiddi um 20 þús, útistandandi voru þessar 56 þús. Og við sögðum henni að annað fengi hún víst ekki í afmælisgjöf. (já, þetta er dýr ferð, en það er allt saman innifalið, matur, gistingar, heill hellingur af rútu- og lestarferðum, aðgangseyrir í skemmtigarða, júneimit)

fartölvan var gamli jálkurinn hans Óla, elsta tegund af iBook.
sú stóra er opinberlega táningur í dag. Hún fæddist úti í Danmörku rétt eftir miðnætti þann fyrsta júní 1992. Hefði sem sagt átt afmæli 31. maí hér heima. Á þessum tíma var hitabylgja í Danmörku, rúmlega 30 stiga hiti, strætóferðirnar niður á spítala í skoðun með bumbuna út í loftið hefðu verið óbærilegar nema vegna þess að bílstjórarnir keyrðu með allar dyr og glugga opna. Svo lét krílið bíða eftir sér í 10 daga, löng bið það í hitanum.

Við höfðum farið að skoða fæðingar- og sængurlegudeildina, það sem ég man best þaðan var í eldhúsinu á sængurlegudeildinni þegar sú sem var að fara með okkur hringinn benti á ísskáp og sagði: „Og her har vi et køleskab I kan have jeres øl eller hvidvin i.“ Einhvern veginn man ég ekki eftir að hafa heyrt sambærilega setningu hér heima, þegar ég átti hin börnin tvö...

Þegar litla frökenin var svo mætt á svæðið og við farin heim, áttum við í mestu vandræðum með að klæða hana nægilega lítið í vagninn. Blleyja, samfella og pínulítið bómullarteppi varð yfirleitt ofan á. Ég hef síðan þá aldrei haft það vandamál að dúða börnin mín of mikið.

Heimsins besti unglingur :)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?