<$BlogRSDUrl$>

2003-12-31

ég á nú bara alyndislegasta litla strák í heimi, ójá!

hvað haldið þið að þessi elska hafi sagt í morgun? vaknaði um hálftíuleytið, kominn upp í til mömmu sinnar og pabba og fyrsta sem hann segir er:

mamma! má ég fá bros?

talandi um að bræða hjarta móður sinnar! þriggja og hálfs árs! mamman náttla settist upp og brosti til hans, hann brosti á móti, alsæll.

bestur :-)

2003-12-30

jæja, þá er maður búinn að sjá return of the king! (passið ykkur, spoilers framundan)

fórum bara í regnbogann í gærkvöldi, til að þurfa ekki að hreyfa bílinn. þetta er alveg svolítið flott hjá jackson/walsh!!! hugsa samt að ég hefði orðið fyrir enn meiri hughrifum ef ég kynni ekki söguna svona utanbókar. en mikið svakalega eru sumar senurnar þarna glæsilegar. til dæmis þessi með kyndlunum á fjallstoppunum, og bardaginn við fílana og fleira og fleira! hlakka ekkert smá til að sjá lengdu útgáfuna, fyrir næstu jól

sumum atriðum var algerlega sleppt, eins og scouring of the shire kaflanum, og þó ég skilji það mjög vel, upp á hraðann í myndinni, saknaði ég þess svolítið samt. vantaði eiginlega alveg ástæðuna fyrir því að sam skyldi vera kosinn bæjarstjóri í hobbiton til dæmis.

ýmislegt annað sem var sleppt mátti alveg missa sín, til dæmis þegar fróði og sam voru uppgötvaðir í orkabúningunum og þurftu að þramma til baka heilan dag. hefði ekki gert sig í mynd þótt væri fínt í bókinni.

ég væri meira en til í að fara aftur að sjá þetta, og það fljótlega.

2003-12-29

eins og samviskusamir lesarar hafa kannski tekið eftir var svo mikill letidagur hjá mér í gær að ég nennti ekki einusinni að blogga!

sendi krakkana út að leika í snjóinn, fífa var að koma inn, að drepast úr kulda, enda á hún ekki snjógalla, freyja og finnur með meira þol. svona veður hefur barasta ekki sést í reykjavík í mörg ár. við ætluðum í smáralind (forgarð vítis) að skipta einni jólagjöfinni og kaupa miða á return of the king, og finnur átti að fara í leikskólann, snarlega hætt við hvorttveggja. gætum neyðst til að fara á morgun, þar sem skiptimiðinn á afmælisgjöfinni gildir bara til þrítugasta des :-(

tók nokkrar myndir áðan, en þar sem ég er hvergi með hýsingu get ég ekki sýnt ykkur. þoorbjöööörn (blikk, blikk;-)

gæti hinsvegar komið að því að ég þyrfti að fara út að moka!

2003-12-27

þá er ég búin að lesa fönixregluna á íslensku, var reyndar búin með hana á ensku, stuttu eftir að hún kom út, en náði heldur fleiri smáatriðum núna! þetta er tær snilld! ég les bækurnar mínar eiginlega alltaf nokkuð oft (ef mér finnast þær þess virði, þ.e.a.s.) þar sem ég les svo hræðilega hratt að ég missi alltaf af sirka helmingnum. næ að endurnýta bækurnar nokkuð vel, finn alltaf eitthvað nýtt í þeim í hvert skipti sem ég les þær upp á nýtt.

fönixregluna las ég á 9 tímum sl sumar, þurfti svo að skila henni til hallveigar, þar sem þar var biðlisti eftir henni. þannig að ég fann fullt af nýjum hlutum núna :-)

svo er það bara þriðja bókin um artemis fowl, þegar fífa er búin með hana.

eins og sést, fékk ég engar bækur í jólagjöf (nema grænan kost frá hagkaupum, fljótlesin), þannig að ég ligg í jólagjöfum elstu dótturinnar. er nú samt að hugsa um að kaupa mér da vinci lykilinn á ensku, eftir helgi, úr því engum datt í hug að gefa mér hana!

2003-12-26

mikið svakalega getur maður verið vitlaus stundum!

við fjölskyldan vorum búin að ákveða að hafa nautasteik í matinn annan í jólum. huxuðum með okkur að það væri sniðugt að kaupa nautið frekar snemma til að láta það "hanga" í ísskápnum nokkra daga. þannig að við kaupum okkur 3 góðar t beinsteikur fyrir viku síðan.

það voru fyrstu mistökin. hefðum ekki þurft að kaupa fyrr en á þorlák.

önnur mistökin voru að láta ekki vakúmpakka kjötinu.

og hvað haldið þið að hafi gerst, nema kjötið var náttúrlega orðið dragúldið, ojbara! þvílík synd!

mætti halda að við kynnum ekkert til verka :-(

en málið reddaðist, opið í 10-11, keypti 4 steikur frá new yorkers, og er nokkuð viss um að nóatúns t beinið hafi ekki getað verið mikið betra. þvílíkt sælgæti. jón lárus bjó til bearnaise frá grunni, ég steikti kartöfluskífur og gott ef þetta sló ekki út svínið frá í fyrradag og hangikjötið í gær. vorum með ógnarfína rauðvín með, chateau lagrange frá '94.

ætluðum síðan að hafa spilakvöld í kvöld, bjór og popp, en það er nú eiginlega algjör helgispjöll, hmmm!

2003-12-25

og gleðileg jól aftur, öll!

jóladagur, mesti letidagur ársins. ætla reyndar að hengja upp jólagardínurnar í eldhúsinu, steingleymdi því í gær. en það tekur nú bara alveg svona 3 mínútur, annars verður bara lesið etið og drukkið hér á bæ, jú, kannski horft á eitthvað af þessum dvd diskum sem óli gaf okkur í jólagjöf.

þvílík lifandis hrúga af pökkum sem var undir trénu í gær, maður minn! við vorum ógnar stolt af krökkunum, þokkalega góð, engin frekja, enginn grátur og gnístran þegar allt var búið, allt í rólegheitunum, allir glaðir, gaman!

2003-12-24

nú er undirbúningurinn að smella!

bara eftir að taka til á borðinu í borðstofunni, og strauja jóladúkinn

þau koma!

Gleðileg jól


2003-12-23

skrapp í þorláksmessuboðið hjá nönnu áðan, þokkalega glæsilegt, skinkan fræga þvílíkt hnossgæti, og allt hitt náttúrlega líka. borðin svignuðu undan kræsingunum. klikkaði á því að mæta í fyrra, algjör mistök.

takk, nanna!
mín búin að bjarga jólastemningunni í húsinu :-)

ég var að vandræðast yfir jólalyktarleysi, mín jólalykt er sko ilmurinn af nýsoðnu rauðkáli. ég er hins vegar ekki með fólk í mat annað kvöld, og ekki með pörusteikina í ár, þannig að eiginlega þurfti ég ekki að sjóða neitt rauðkál. og það gat ég ekki hugsað mér :-( datt þá í hug að tengdamamma notar yfirleitt rauðkál úr krukku. kveiknar ekki á þessari fínu ljósaperu hjá minni, hringi í tengdó og býðst til að sjóða fyrir hana. boðið var náttúrlega þegið með þökkum. þannig að hér verður sett yfir rauðkál first thing tomorrow! mmm, jól!
og þorláksmessa gengin í garð

finnur fékk kartöflu í skóinn! fannst það mjög merkilegt, var eiginlega ekkert fúll, en þegar hann byrjaði að ormast í morgun dugði alveg að spyrja hvort hann vildi aftur fá kartöflu á morgun, hann hafði ekki mikinn áhuga á því.

stelpurnar eru að fara upp í leikskóla að spila fyrir bróður sinn og hin krílin, fífa stendur hjá mér og æfir jingle bells, en freyja ætlar ekki að spila jólalag, heldur lag sem hún hefur æft í tímum, renndi yfir það í gærkvöldi og gekk bara fínt, þó sellóið hafi ekki verið snert síðan skólinn var búinn, fyrir tæpri viku

ætli maður fari svo ekki og klári síðustu jólagjafakaupin, vil helst sleppa við að þurfa að gera það á morgun.
tónleikarnir hjá hallveigu og steina voru ekkert minna en FRÁBÆRIR! mér fannst ég sko ekki vera neitt jólastressuð, en tókst að róast þvílíkt samt. og allt hljómaði þetta eins og þau hefðu ekkert fyrir þessu. að minnsta kosti skein mjög vel í gegn hvað þau höfðu gaman af þessu

þjófavörnin í bílnum mínum fór í gang snemma á tónleikunum, ég rauk út (sat aftast, var sko að selja miða) sá engan en viðkomandi hefur kannski náð að komast í hvarf inn í trjálund á neskirkjulóðinni. var ekki með lykilinn á mér, en það var nóg að lemja á blessaðan bílinn og segja honum að þegja, (held reyndar að hann sé stilltur á að æpa bara í stuttan tíma)

en semsagt, meiriháttar! verst að ég held að það hafi enginn gagnrýnandi komið, frekar en á tónleikana hjá hljómeyki á fimmtudaginn :-( súrt.

2003-12-22

svei mér þá, það er bara kominn alvöru snjór í reykjavík! stelpurnar á leiðinni út í garð að byggja snjóhús. mælirinn hjá mér sýnir reyndar 3,3 gráður, þannig að það er ekki alveg víst að þetta endist lengi. held samt að ég moki hjá mér stéttina á eftir.

síðan er hallveig systir með jólatónleika í neskirkju í kvöld klukkan 21.00 ef einhver hefur hrunið ofan í jólastressið get ég lofað ró og friði, ekki einu sinni klapp á eftir.

2003-12-21

meiri músík

jólaóratorían yfir geislanum í fyrsta skipti á þessari aðventu

herrscher des himmels

hvítvín í glasi

himnaríki!
við fífa vorum að koma af tónleikum hjá kammersveit reykjavíkur, alltaf gaman þar, en sérstaklega núna. bachprógramm, rut spilaði 2 einleiksfiðlukonserta og 2 aðra konserta, annan fyrir fiðlu og óbó, daði spilaði, hinn fyrir 2 fiðlur og þar kom unnur maría systir hennar til sögunnar.

þetta er svooo flott músík. náttúrlega búin að vera í uppáhaldi hjá manni forever! gaman.

2003-12-20

jólakortin farin

búið að pakka gjöfunum sem eiga að fara austur og nokkrum í viðbót

flottar jólaservéttur í jólahúsinu hér úti á horni

byrjum að skreyta utanhúss á morgun

jú, ég hugsa að við náum jólunum!

kannski verður samt ekki búið að þvo veggina og loftin ;-)

2003-12-19

jæja, þá er maður kominn í jólafríið! tja, svona fyrir utan jólastúss ýmislegt, kortin ekki farin af stað, íbúðin í rúst...;-)

tónleikarnir gengu bara mjög vel, var virkilega góð hugmynd með palla og móniku, ég var svolítið hrædd við að það myndi virka alveg út úr kú, en það gerði það hreint ekki, braut bara upp allt þetta a cappella prógramm okkar.

útsetningin á dingdong sló í gegn, takk king's singers :-)

partí á eftir heima hjá mér, slátrað nokkrum rauð- og hvítvínsflöskum, síðustu gestir út um þrjúleytið, enda var maður hálfmyglulegur í morgun! vel þess virði, samt.

og í dag bökuðum við hallveig sörur, mmm!

2003-12-17

smá fréttatilkynning:

Kæru vinir, vandamenn og aðrir forvitnir blogglesarar!

Hinir árlegu jólatónleikar Hljómeykis verða fimmtudaginn 18. desember kl. 20:00 í Fríkikjunni í Reykjavík. Á efnisskrá eru m.a. verkið Come, My Light eftir Imant Raminsh, jólalög eftir Hildigunni Rúnarsdóttur, Báru Grímsdóttur og Elínu Gunnlaugsdóttur. Þá verða flutt jólalög í útsetningu Róberts A. Ottósonar og Jóns Nordal auk þess sem flutt verða hefðbundin jólalög.

Sérstakir gestir á jólatónleikunum verða Páll Óskar Hjálmtýsson og Monika Abendroth en Hljómeyki syngur í tveimur lögum á nýjum diski þeirra "Ljósin heima" og verða þau flutt á tónleikunum.

Stjórnandi Sönghópsins Hljómeykis er Bernharður Wilkinson.

Miðaverð er 1.500 kr. fyrir fullorðna og 500 kr. fyrir börn/námsmenn, elli- og örorkulífeyrisþega.

Lofum því að koma öllum í jólastemningu. Bannað að segja að einhver ætli á Íslensku dívurnar <:-l

:-)

2003-12-16

hálftvöþriðjudagstíminn búinn, alltaf finnst mér ég vera búin með vikuna þegar þessir ormar eru búnir. 8 krakkar, öll í sama bekk, koma hingað beint eftir skóla og þurfa mikið að tala og ólmast. ætli þau séu ekki með strangan kennara, taki þetta allt út á mér :-)

en þau mættu auðvitað öll!

svo er að vita hvernig heimturnar verða. trúlega enginn núna í næsta tíma, ætti að vera slatti klukkan hálffjögur, slóðarnir mínir, fá sko ekki að spila nema stuttan hluta tímans. vondi kennari.

2003-12-15

og þá tveir kennsludagar eftir fram að jólafríi :-)

gaf stóru krökkunum mínum frjálsa mætingu í síðustu vikunni (hmm, nema tónheyrn) engin ástæða til að unglingar í prófum séu að mæta í einhverja nammi/spilatíma. svo er bara að vita hvort þetta þýðir að ég fái frí í einhverjum tímum! aldrei að vita hvort einhverjir ofursamviskusamir mæti samt :-(

kemur í ljós á morgun og hinn.

þriðja síðasta æfing fyrir tónleikana okkar í kvöld, benni mættur, verður gaman.
mæónes er komið á innkaupalistann.
oooojjjj! stórkostlega mæónesslysið!

við áttum einusinni (les þartil áðan) stóra mæónesdollu! freyja fékk sér samloku og gekk frá ingrídientunum eins og henni hefur verið kennt (aldrei þessu vant, reyndar!) nemahvað, mæónesdollan lendir bara á hlið. og jón lárus lítur inn í ísskáp núna í kvöld og... getið þið ímyndað ykkur vibbann!!!!!!

þar fór mikið og gott kransæðakítti fyrir lítið :-(

2003-12-14

þá eru búnir þessir líka fínu tónleikar hjá sinfóníuhljómsveit áhugamanna. nýtt verk eftir pavel e smid, bara ekki sem verst, og síðan fyrsti píanókonsert sjostakóvitsj, brilljant stykki, peter máté og david nootenboom (trompetleikari) skiluðu sínu með glans, hljómsveitin sveimérþá ekki sem verst heldur, (sem útleggst ekki allt of margir sárir staðir og ekkert fór í sundur :-) mesta furða, miðað við æfingarnar á undan, mér var satt að segja ekki farið að lítast á blikuna. en svona er þetta oft hjá okkur, ótrúlega mikið sem gerist á síðustu stundu, kannski fólk fari heim og æfi sig, þegar blikan er orðin dökk.

freyja dansaði voða fínt á sýningunni sinni í gær, eina af hópnum sínum sem mundi eftir að hneigja sig, suzukiuppeldið að segja til sín. hreint ekki feimin á sviði, sama uppeldi. suzukikrakkarnir náttúrlega alvanir að koma fram, hún spilar til dæmis sóló í hverjum einasta hóptíma í sellóinu.

í kvöld ætlum við að horfa á seinni hluta two towers, extended version, gaman! ég reyndar sáröfundaði óla bróður þegar hann sagði mér í símann í dag að hann væri að fara á extended version í BÍÓ! hvers vegna er ekki boðið upp á það hérna??? kannski verður boðið upp á laaaangt maraþonbíó, þegar lengda útgáfan af return of the king verður komin.

2003-12-13

fórum upp í heiðrúnu í morgun og pöntuðum eitt af uppáhalds vínunum okkar, dottið út af lista hjá átvr. dæmigert! þetta er hvítvín frá somontano, vinas del vero, gewurstraminer. algjört nammi. svo er bara að vona að það komi, ef innflytjandinn á það ekki til, er hann víst ekki beðinn um að panta að utan, ekki skildi ég hvers vegna. eitthvað með að það tæki svo langan tíma, alveg sama þó ég segði það ekki skipta neinu máli.

maður getur víst pantað beint sjálfur; við ætluðum að reyna það einu sinni (með annað frábært vín sem datt út af lista) en það var svo dýrt (6000 kall í sendingarkostnað fyrir 3 flöskur) að við snarhættum við. birgðum okkur síðan upp af því, þegar við fórum til london í sumar.

(sko tóta, bara eitt !) (eða tvö, núna)

2003-12-12

er að hlusta á jóladiskinn með önnu soffíu von otter, ekki óánægð með að hafa keypt hann! frábærar útsetningar, og ekki skemmir söngurinn og hljóðfæraleikurinn fyrir!

hinir diskarnir sem ég keypti voru passían hans hafliða, dixit dominus eftir händel, vivaldi stabat mater og svo britten sönglagadiskur með robert tear! robert tear er æði! breski tenórasöngstíllinn alltaf í miklu uppáhaldi hjá mér, eitthvað annað en þessi ítalski belgingur ;-) enda eru allir uppáhaldstenórarnir mínir (þorbjörn, óli og eyvi!) á þessari línu!

annars er ástand heima hjá mér! gubbupestirnar grasserandi! finnur í fyrradag, freyja í gær, jón lárus í dag, vona að við fífa sleppum!

en betra núna en um jólin!!!

2003-12-11

vá hvað ég fór á mikið diskafyllirí í tólf tónum áðan! verður gaman hjá mér að hlusta!

svo fer ég í piparkökuboðið á leikskólanum á eftir, ég er búin að eiga börn á þessum leikskóla í 9 ár samfleytt, og þetta er fyrsta árið sem ég kemst í piparkökuboðið! þau hafa alltaf verið á dögum þar sem ég hef verið að kenna! gaaaman!

en nú inn í hafnarborg á tónleika!

2003-12-10

hohoho! maður fer nú bara að trúa á þessi netpróf!!!

Adam lay y bounden
You are 'Adam Lay Y Bounden'! Ah, you appear to be
something of a Christmas snob. Whether you are
a musician who has sung one carol service too
many, or merely someone with very highbrow
views on music and culture, you shudder at the
thought of piped music in lifts, wince at
endless repetitions of Jingle Bells and have
put out a contract on Rudolph. While you agree
that some of the well-known carols are lovely,
you are more drawn by the really obscure
medieval carols, or the ones arranged by Bach.
You also know parodies of several carols - a
legacy of excessive carolling, or perhaps just
the product of an enquiring and slighly cynical
mind... Try to enjoy Christmas, anyway.


What Christmas Carol are you?
brought to you by Quizilla

kann meira að segja tvær útgáfur af adam lay ybounden!

2003-12-09

styttist í fríið, fallallallallaaaa fallaaalaaalaaaa

kenna á morgun, löng helgi, síðan fá krakkaormarnir (flestir) að spila tónfræðispil eða hrynbingó eða eitthvað þanniglagað alla næstu viku, easy going!

freyja er að fara að dansa á sinni fyrstu sýningu á laugardaginn, rekst á aðalæfingu fyrir jólatónleika sinfóníuhljómsveitar áhugamanna á sunnudag. neyðist til að klippa á æfinguna, ekki get ég sleppt sýningunni hjá barninu! henni finnst ógnargaman í dansinum, er þvílíkt liðug!

fyrsta æfing á messiaen annað kvöld, spennandi! er búin að liggja svolítið yfir þessu, er búin að læra nóturnar, en þarf að fá frönskusérfræðinginn minn til að kíkja með mér á textann!

ætli verði nú líka ekki alveg nóg að gera að kíkja á nóturnar, annað kvöld!

2003-12-08

unexpected windfall í dag

nú ætla ég að kaupa mér þessa myndavél! verst að ég næ ekki að panta hana frá amazon fyrir jólin :-( kannski maður tékki á einhverjum af englandsliðinu, að kaupa hana úti fyrir mig!

gaaaman!

2003-12-07

í dag kom slökkvibíll og sjúkrabíll og tveir lögreglubílar og stoppuðu fyrir utan fyrrverandi húsið hennar hallveigar, slökkviliðsmenn æddu inn og leituðu elds, en fundu síðan ekki neitt sem betur fer! kunni ekki við að fara til þeirra og forvitnast, en konan í næsta húsi fór til að spyrja hvort hún ætti að byrja að bera út myndaalbúmin sín og svoleiðis, (hennar hús er samliggjandi). neinei, var svarið, enginn eldur. ekki smá varúðarráðstafanir, með alla þessa bíla og lokaða götu!

maður skilur það svo sem mjög vel, þar sem eldur á þessum stað í bænum er enn hættulegri en víða annars staðar, öll þessi þétta byggð, endalausir skúrar og bakhús, og fullt af timburhúsum!

annars varð okkur mikið úr verki í dag, fullt keypt af jólagjöfum, jólaísinn kominn í frystiskápinn, piparkökur í dós (takk júlía! stelpurnar bökuðu og skreyttu í fossvoginum sko!) féllum fyrir fjólublárri seríu í byko, mjög smart! maður bara að komast í smá hátíðaskap!

gerði allt sem ég ætlaði að gera í dag, nema yfirlit fjármála fyrir hljómeyki, ætli fyrramálið verði ekki að fara í það!

2003-12-06

og jólahlaðborð davidsen og poulsen afstaðið með glans

verulega gott! sérstaklega heitu réttirnir, sem ég er annars yfirleitt minnst hrifin af, vil helst bara borða forrétti og eftirrétti á svonalöguðu. en heitu réttirnir voru einhvern veginn ekki eins yfirdrifnir þarna, bara fíngerðir og afskaplega góðir, ekki þurra svínasteikin eða ofeldaða lambið, ónei!

en þjónustan ekki alveg eins góð, megafýldur þjónn hjá okkur, stúlka með hreim sem ég áttaði mig ekki á! hún var til dæmis spurð hvenær eftirréttirnir kæmu, og það var sko ekkert - ekki alveg viss, skal athuga! - heldur bara axlayppting og - hef ekki hugmynd! og svo ekkert gert í því. þjónustulundin (þjónustufilletið???) ekki upp á marga! minnti helst á þennan veitingastað

svo var helga möller að skemmta!
búin að búa til plaköt fyrir tónleikana okkar! bara mjög fín, reiknið með að sjá þau hér og þar eftir helgina! eru í prentun niðri í laserprentara!

þetta verða fínir tónleikar, klukkutíma afslöppun frá jólastressi, flott músík, bæði gömul og ný, vel þekkt og minna þekkt, benni kemur frá færeyjum og stjórnar!

eina sem ég er að spá í er hvar ég geti sett palla og móniku inn í prógrammið án þess að það stingi í stúf, ekki viss um að ég geti fengið þau til að vera órafmögnuð, en restin af prógramminu allt unplugged ;-)

hmmm?

en allir taka frá fimmtudagskvöldið 18. des!

meira síðar
freyja spilaði á tónleikum með sellóhópnum sínum áðan, jólatónleikar suzuki í dag. gekk bara vel hjá henni, sérstaklega miðað við að hún hafði ekki hugmynd um að hún ætti að fara að spila, hvað þá hvaða lög yrðu flutt, fyrr en mamma hennar tók við sér um hádegisbilið og mundi eftir tónleikunum! örnólfur sellóhóptímakennari var ekki búinn að ákveða hvaða lög ætti að spila á tónleikunum þegar hann hitti hópinn síðasta laugardag, síðan lét hann alla krakkana vita hvenær ætti að mæta og hvað ætti að spila, í einkatímunum í vikunni!

nema hvað, freyja er bara ekkert hjá honum í einkatímum, heldur hinum sellókennaranum í skólanum! og gullfiskaminnið í mömmunni slíkt að hún hafði ekki rænu á að hringja og spyrja!

en þessir suzukikrakkar kunna lögin svo vel að þetta var svo sem ekkert vandamál! sá ekki betur að hún ruglaðist ekki neitt!

2003-12-05

coq au vin, ný uppskrift, ekki alveg nógu góð, kannski heimabruggið sem var basinn! það er nú samt bara ágætt, af heimabruggi að vera

kannski maður gefi henni séns aftur! annars ekki fræðilegur að ég bjóði upp á það á gamlárskvöld, önnur uppskrift í sigtinu!

tvær nýjar (fyrir okkur) tegundir af rauðvíni smakkaðar í kvöld, monasterio de la santa ana frá casa de la ermita og bin 555 frá wyndham estate, klassavín bæði tvö!

jólahlaðborð með suzukipakkanum annað kvöld, loftleiðum, víst þokkalega gott hjá davidsen

2003-12-04

hmmm, eitthvað er þetta nú undarlegt! hef ekki tíma til að laga, er að fara að syngja á endurteknum tónleikum með palla og móniku í víðistaðakirkju!
tilnefning komin í hús!

og meira að segja 2 aðrar sem tengjast mér!

af moggavef:

Sígild og nútímatónlist

Hljómplata ársins:


* Brandenborgarkonsertar Jóhanns Sebastians Bachs. Kammersveit Reykjavíkur undir stjórn Jaap Schröder. útgefandi: Smekkleysa.
* Passía eftir Hafliða Hallgrímsson. Mary Nessinger, Garðar Thor Cortes, Mótettukór og Kammersveit Hallgrímskirkju. Hörður Áskelsson stjórnar flutningi. Útgefandi: Ondine.
* Sjöstrengjaljóð. Fimm kammerverk Jóns Ásgeirssonar í flutningi Kammersveitar Reykjavíkur. Útgefandi: Smekkleysa.
* Virgo gloriosa. Sex trúarleg söngverk eftir Báru Grímsdóttur í flutningi sönghópsins Hljómeykis. Bernharður Wilkinsson stjórnar flutningi. Útgefandi: Smekkleysa.
* Þýðan eg fögnuð finn. útsetningar íslenskra tónskálda á.tónlist úr handritum. Sönghópurinn Gríma. Útgefandi: Smekkleysa.


Tónverk ársins


* Guðbrandsmessa eftir Hildigunni Rúnarsdóttur. Flytjendur eru Ólöf Kolbrún Harðardóttir, Marta Hrafnsdóttir, Björn I. Jónsson, Eiríkur Hreinn Helgason, Kór og Kammersveit Langholtskirkju undir stjórn Jóns Stefánssonar.
* Sinfónía eftir Hróðmar Inga Sigurbjörnsson. Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Bernharðar Wilkinssonar.
* Sinfóníetta eftir Jónas Tómasson. Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Bernharðar Wilkinssonar.
* Konsert fyrir klarínettu og blásarasveit eftir Tryggva M. Baldvinsson. Sveinhildur Torfadóttir og Blásarasveit Reykjavíkur undir stjárn Kjartans Óskarssonar.
* Píanótríó eftir Þórð Magnússon. Trio Nordica, skipað Auði Hafsteinsdóttur, Bryndísi Höllu Gylfadóttur og Monu Sandström
enn vantar mig eiginlega eina söngkonu í messiaen! ég er búin að fá hina og þessa, þetta verður þvílíkt samsafn! hljómeyki, graduale nobili, hamrahlíð, schola, kammerkór hafnarfjarðar, kammerkór suðurlands og svo stelpur ótengdar kórum í augnablikinu! síðan er ég eiginlega dauðhrædd um að þegar einhverjar af þeim fá nóturnar í hendurnar gefist þær upp! þetta er sko ekkert auðvelt, allt á frönsku, undarleg taktskipti og tónbil, og til að toppa þetta allt saman eru söngnóturnar ekki með neinu til að styðja sig við!

skil ekki hverjum dettur í hug að búa til svoleiðis kórparta! ég veit ekki til þess að nein af stelpunum sem eru að fara að syngja í þessu séu með absólút heyrn (geti hitt á nákvæmlega rétta tóna án þess að þeim sé gefin nein viðmiðun)

þetta verður mikil vinna! en verkið er ofboðslega fallegt! messiaen magnaður!

2003-12-03

æ hvað það er nú alltaf gott þegar klukkan er orðin 7 á miðvikudagskvöldum :-)

2003-12-02

mikið geta svona bréf frá skattstjóra verið óskiljanleg!

fékk eitt í gær, þéttskrifaða eina og hálfa blaðsíðu, fékk áfall, við fyrsta og annan yfirlestur gat ég ekki betur séð en ég skuldaði þeim 360 þúsund kall! við þriðju skoðun sá ég að ég hafði ekki skilað staðgreiðslu af þessum pening, og þarf að borga sekt af því.

skárra, en súrt samt!

best að hringja í endurskoðandann og vera viss!

2003-12-01

komin af æfingu, lítur út fyrir að kórfólk sé ánægt með útsetninguna (meira að segja altinn!) og við syngjum hana á tónleikunum

svo hljómsveitaræfing annað kvöld
boðið á tónleika á miðvikudaginn
endurteknir tónleikar með palla og móniku á fimmtudaginn

ég fer að verða mjög óvinsæl heima hjá mér, vægast sagt!

kannski ég sleppi tónleikunum hjá fíló á miðvikudag, þó þau séu að syngja eftir mig, og ég meira að segja pantaði að fá frímiða! næsta vika verður nefnilega næstum því jafnslæm, og vikan þar á eftir verri!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?