<$BlogRSDUrl$>

2003-08-31

jæja, fjölskyldan öll að skríða saman (hmm, áhugaverð mynd sem þetta kallar fram!)

hljómeykisstjórnarfundur í kvöld, búin að setja niður eina upptöku og eina tónleika í haust, þurfum að ákveða jólatónleikana, viljum gjarna vera í háteigskirkju, hún er alltaf eitthvað svo jólaleg og hátíðleg! verið að spá í að fara í tónleikaferðalag til englands og skotlands í páskafríinu, gæti orðið gaman!

annars allt í rólegheitum hér, maður svífur um í vímu af ofnalakki (ojj!)

2003-08-30

og áfram heldur kvefið, búin að vera þung í höfðinu í dag, en rennslið smáminnkar! ætti að verða skárri á morgun!

í dag fengum við ofnana í stofunni sandblásna, eða reyndar stálhaglablásna, núna eru þeir bara púra járnið, í staðinn fyrir þessi 6 eða 7 lög af málningu sem voru á þeim! ætlum að spreyja á þá einu lagi af glæru lakki, verða rosalega flottir og ég tala nú ekki um hvað þeir koma til með að hita betur!

annars hittumst við öll systkinin í morgun, ekki svo oft sem það gerist, með þorbjörn á egilsstöðum og óla í glasgow! mamma og pabbi buðu í morgunmat, þar sem eini tíminn sem við gátum öll hist var frá tíu til tólf í morgun! upptekið fólk

annars vorum við systkinin að spá í að halda tónleika saman (þeas við hallveig vorum að plotta það, sorrí strákar að lesa þetta fyrst á blogginu) verst að það er ekki til miklar tónbókmenntir fyrir 2 sóprana og 2 tenóra (einn léttan og einn þyngri). ætli maður verði bara ekki að skrifa eitthvað! gæti verið að maður henti svo sem einni sellórödd saman við, fyrir emily!

farin í rúmið, reyna að batna!

gónótt!

2003-08-29

ojjj!

ég er SVOOO kvefuð!

hóstar, hnerrar, nefrennsli, þyngsli í höfði, the works!

og skólasetning í suzuki á eftir, neyðist víst til að fara þangað. meiningin er að kennararnir kíki í hvítvínsglas eftir setninguna, en ætli ég sleppi því ekki í þetta sinn!

annars ætti ég eiginlega ekkert að vera að fara, ég er nokkurn veginn búin að læra að fara ekki út á milli fólks þegar ég er lasin, ekkert unnið með því! maður er lengur að ná sér, og smitar alla í kring um sig! atvinnusjúkdómur kennara, skelfileg samviskusemi! algjör misskilningur!

maður er nefnilega ekki svo glatt ómissandi! ég heyrði einu sinni mjög góða aðferð við að athuga hvort maður sé ómissandi. hún er svona:

fáðu þér glas, fylltu það af vatni.
stingdu fingri niður í vatnið.
dragðu hann upp úr aftur.
ef það er hola í vatninu, þá ertu ómissandi

hah!!!

2003-08-28

datt inn um lúguna hjá mér í dag bókin tsatsiki og mútta, sænsk barnabók, gleypti hana í mig í dag, algerlega brilljant! jón lárus liggur inni í sófa og les, og hlátrasköllin glymja hér fram til mín! stelpurnar enn ekki búnar að lesa hana, gaman að vita hvort þær ná húmornum!

las líka um daginn milljón holur eftir Louis Sachar, líka óhemju góð

mér finnst alltaf að barnabækur verði að vera þannig að fullorðnir hafi gaman af þeim líka, versta sem ég veit þegar er verið að tala niður til krakkanna!

svona fyrir utan barnabókmenntirnar er ég að gleypa í mig kathy reichs og lisu gardner, báðar góðar! minette walters líka frábær, var að lesa fox evil, brill!
glæsilegir dómar um tónleikana hennar hallveigar í dag, bæði í mogga og dv! gagnrýnendur líka hrifnir af lögunum mínum, td segir ríkharður örn í mogganum: "Hildigunnur Rúnarsdóttir, systir söngkonunnar, samdi fyrir þrem árum útsetningar á íslenzkum þjóðlögum úr safni sr. Bjarna Þorsteinssonar fyrir tilstilli Unu Margrétar Jónsdóttur hjá RÚV, er valdi að manni skilst einkum hin minna þekktu lög. Þrjú þeirra voru hér á boðstólum, Þú Ísraels lýður, Þá Jesús til Jerúsalem og Í Babýlon við vötnin ströng. Einföld en sterk lög er vissulega verðskulda víðari útbreiðslu en hingað til, og við hæfilega látlausan píanóundirleik er stóðst fyllilega samanburð við beztu útsetningar Ferdinands Rauter í þjóðlagasafni Engelar Lund, ekki sízt nr. 2. "

um hallveigu og árna heimi m.a:
"Það er eiginlega sama hvar niður er borið í þessum átta gimsteinum Griegs; þau Hallveig fóru á þvílíkum kostum að hlustendur gátu ekki annað en að hlýða hugfangnir allt frá byrjun til enda á seiðandi túlkun þeirra."

jónas sen í dv ekki síðri!
"Ekki síðri voru þrjú íslensk þjóðlög í útsetningu Hildigunnar, systur Hallveigar, Þá Ísraels lýður, Þá Jesús til Jerúsalem og Í Babýlon við vötnin ströng. Útsetningarnar... eru heillandi í einfaldleik sínum. Þær voru líka snilldarlega fluttar; Hallveig söng af fölskvalausri innlifun og Árni Heimir mótaði svo vel þá fáu tóna sem hann þurfti að spila að úr varð magnaður seiður er greinilega hreyfði við áheyrendum."

og seinna í dómnum:
"... Hér komust þau Hallveig og Árni Heimir á þvílíkt flug að maður gjörsamlega gleymdi stund og stað. Túlkunin var ótrúlega sannfærandi, létt og leikandi þegar við átti, en hádramatísk þess á milli. Söngur Hallveigar var sérlega vel útfærður, öruggur og hljómfagur, og píanóleikurinn var hnitmiðaður og glæsilegur, auk þess að vera skáldlegur. Í stuttu máli var þetta besti flutningur á þessu verki Griegs sem ég hef heyrt á tónleikum hér á landi og fagur vitnisburður um hæfileika og getu þessa frábæra listafólks."

flott, eh!!!

2003-08-27

urrgh, nú næ ég ekki sambandi við eigin síðu! vona að það sé eitthvað hjá blogger, ekki mér!

annars er búið að vera megafínt að vera á makka undanfarna daga! ekkert víruskjaftæði nema nokkur bréf í pósthólfið frá einhverjum sárlösnum pcum!

hehe!
enn einn sólardagurinn í rvík! brill!

verst að þurfa að eyða deginum í leiðinlegasta hluta kennslunnar; að búa til stundatöflur! ojjj! við í suzuki fáum (flestar) stundatöflur nemendanna, og þurfum að púsla saman hópum og tímum í þeim ramma sem okkur er settur (þeas þegar við fáum stofur). hallveig þarf að kenna 3 daga í viku í suzuki, 2 og 3 tíma í senn, það fyndist mér alveg skelfilegt! mér verður aldrei neitt úr deginum ef ég þarf að fara og kenna eitthvað smá. voðalega fá börn sem geta komið fyrir klukkan 3, ömurlegt að byrja svona seint að kenna! ég er held ég alla dagana mína til klukkan 7. henti reyndar slatta af krökkum sem ég var ekki búin að fá stundatöflur frá á tímann klukkan 2, en er ekki neitt voðalega bjartsýn á þann tíma:-(

tóta g kom færandi hendi til mín í dag, hafði keypt handa mér þvílíkt fallega mynd og gaf mér fyrir alla samvinnuna síðastliðin 5 ár! maður fær bara samviskubit! það var jú ég sem var nemandinn og hefði frekar átt að færa kennaranum mínum gjöf en öfugt! hún er annars brilljant söngkennari, góð tækni og á auðvelt með að koma henni frá sér, svo fyrir utan að vera svona líka ljómandi músíkölsk! ekki oft sem þetta allt saman sameinast í einum kennara! verður skrítið að vera ekki í söngtímum í vetur:-(

vorum að ákveða að finnur "fái" að vera allan daginn á leikskólanum, byrja ss 9 í stað 11 hingað til! þarf að láta vita á morgun. held hann hafi bara gott af því! ekki samt viss um að hann verði hrifinn;-) en það má alltaf fara til baka með það ef ekki gengur vel!

2003-08-26

tónleikarnir flottir hjá hallveigu, eins og búast mátti við! troðfullt út úr dyrum, gaman! gleymdi að kaupa handa henni blóm, en bætti úr því með að gefa henni rauðvínsflösku, það þætti mér amk mun betra!

hitti eyva á tónleikunum, og henti inn tengil á hann hér til hliðar!
nú, stafirnir birtust bara aftur sjálfir, gefum blogger séns!

í kvöld, skyldumæting í sigurjónssafn, hallveig systir og árni heimir með tónleika, stuttir en meiriháttar, hálfníu úti í laugarnesi!
hananu!!! hvad vard af ollum islensku stofunum??? ekki ma madur bregda ser fra i vikutima!

hjaaalp!
maður minn! hvað var gaman á englandi!

bryanston námskeiðið alveg brilljant, spilað og spilað og sungið og sungið og farið í tennis og sund, og nóg rauðvín á hverju kvöldi! fífa í þvílíkt góðu sambandi við stelpurnar á sínum aldri, sá að mestu leyti um sig sjálf í spilatímum, hljómsveitin svolítið erfið fyrir hana en spjaraði sig á endanum! maturinn spes, steiktar pylsur og kartöflukökur (hash browns) eða beikon og franskar í morgunmat, meira bras í hádegis- og kvöldmat, kaffi og kex í millitíðinni (ókei, það var líka morgunkorn á morgnana og salatbar í hádeginu og kvöldin) leist samt ekki alveg nógu vel á vigtina í morgun, átaks er þörf! fífa spilaði á tvennum tónleikum, hljómsveitartónleikum á föstudagskvöldinu og hóptímatónleikum á laugardagsmorguninn, síðan stungum við af til london, degi fyrir lok námskeiðsins!

þessi húsakynni eru ekkert smá flott! yngsti herragarður á englandi, byggður um 1890, risastór aðalbygging, allar stofur heita einhverjum merkilegum nöfnum, meira að segja svefnherbergin, við til dæmis sváfum í salisbury gangi í herbergi sem heitir shakespeare! skal sjá hvort ég finn myndir á netinu af skólanum, og tengja á þær, þarf annars að finna út úr hvernig ég hendi myndunum mínum inn á netið, koma vonandi fljótlega!

það er víst þokkalega dýrt að vera þarna í skóla, 3 annir og um 6000 pund á önn, semsagt skólaárið kostar um 2,2 milljónir! skólinn tekur nemendur frá 13 til 18 ára, þannig að skólaganga eins barns kostar um 11 millur! og bræður hennar emily "mágkonu" eru þarna báðir! vá!!!

emily sótti okkur annars á námskeiðið á laugardeginum, við kíktum við heima hjá henni, hittum foreldra hennar og systkini, yndislegt fólk, tók þvílíkt vel á móti okkur, fengum hádegismat og spjölluðum áður en við héldum áfram í lestina til london. frábært að fá að hitta þau og alltaf gaman að hitta emily, meiriháttar fín stelpa!

og lox til london, á fína hótelið, þvílíkt glæsilegt herbergi með öllu sem 5*hótelum tilheyrir (hmm, nema það vantaði hárþurrku í herbergið okkar, var hins vegar í herberginu hennar ragnheiðar vinkonu, grrr!). ragnheiður hafði með klækjum fengið borð á hakkasan fyrir okkur um kvöldið (annars er víst 6 mánaða bið eftir borðum þar), mega hip staður í london, enda var maturinn eftir því! langsamlega besti kínverski matur sem ég hef á ævinni bragðað, fífa er yfirleitt ekki hrifin af kínversku, en hún hakkaði þetta gersamlega í sig! þjónustan samt ekki sú besta sem ég hef fengið, þurftum tvisvar að kalla á vínþjóninn. það var líka tvíbókað í sæti, við áttum borð klukkan hálfátta og áttum að vera farin klukkan hálftíu. reyndar fórum við ekki alveg á sekúndunni og það var ekkert verið að reka á eftir okkur, svo sem!

sunnudagurinn fór í rölt um london og ýmis erindi og innkaup, ég fékk kast í tower records og jón lárus í berry bros (vínbúð par excellance - hans kast var mun dýrara en mitt!). þá kominn tími á að koma sér niður á twickenham stadium, þetta er rugbyvöllur, og þetta voru fyrstu tónleikarnir sem voru haldnir þar! risavöllur, tekur 55.000 manns í sæti, og miðarnir okkar voru í FIMMTU röð frá sviðinu! lá við að maður gæti hrist hramminn á jagger kallinum!!! sjóið þvílíkt glæsilegt, risaskjáir, langmesti ljósabúnaður sem ég hef á ævinni séð, flugeldasýning og fleira og fleira! það er sko ekkert smáræði sem þessir ellismellir geta hoppað á sviðinu! viss um að jagger hljóp 20 kílómetra á þessum tveim tímum sem stones voru á sviðinu!!! maður dansaði þarna og hoppaði allan tímann, og skemmti sér konunglega, og samt er ég ekki einu sinni stones fan!

á eftir fórum við baksviðs, fengum meira að segja að koma aðeins upp á sviðið, ekki lengi þó, þar sem verið var að pakka saman! fórum á barinn bak við, því miður voru gamlingjarnir farnir, láta sig náttúrlega hverfa eins og skot. fífa fékk samt trommukjuða frá charlie watts, við fengum líka hatta og boli og hitt og þetta tengt tónleikunum. fórum í rútu með stage crew upp á hótel, settum fífu upp í herbergi að sofa og kvöldið endaði á barnum á millennium, með show director og fleirum! þokkalegt!

mánudagur, meira rölt í bænum, síðan heim með kvöldvélinni, sofnuð um 2leytið um nóttina. og svo bara vinnan strax í morgun, urrgh!

2003-08-16

ástandið er eins og á þorláksmessu heima hjá mér! gæti ekki einu sinni lagt ólöglega við húsið mitt, glætan! fullt af fólki og brjáluð stemning í bænum, gaman!!! fórum með alla krakkana niður á laugaveg, röltum um og skoðuðum, smökkuðum bilað góða ólífuolíu í kokku, kíktum í vínberið og keyptum nammi, enduðum í máli og menningu að hlusta á bardukha, meiriháttar band!!! finnur skíthræddur (að eigin sögn) við flugeldana, þangað til hann vandist þeim! þá voru þeir náttúrlega orðnir ofurspennandi, sem betur fer vandist hann þeim um það bil sem lokahnykkurinn var, þannig að við komumst heim! krakkarnir farnir að sofa og við líka á leiðinni að sofa, þarf að vakna klukkan 5 urrggh!

bloggfall aftur í rúma viku, kem heim mánudaginn 25, seint!
vó hvað þetta er góður pistill!
poppea var bara nokkuð góð! bráðskemmtileg uppfærsla, flestir söngvararnir mjög góðir þó sumir réðu ekki neitt óhemju vel við kóloratúrinn (hröðu nóturnar, skrautið) og aðrir væru svolítið frosnir á sviðinu! sviðsmynd og búningar stórsnjallir og fullt af lúmskum bröndurum

en mikið svakalega var heitt þarna inni! eins gott að músíkin var klippt niður um helming, annars hefði liðið yfir mann þarna (og kannski sofnað líka, 2 tímar og kortér með hléi er alveg fínn skammtur af monteverdi í einu - þeas ef maður þekkir ekki tónlistina því betur!)

en ég get semsagt vel mælt með sýningunni, við skemmtum okkur stórvel!

2003-08-15

dugnaður í dag, enda veitir ekki af, aumingja bankareikningurinn minn vel tómur! þyrfti helst að klára kórverkið áður en ég fer út (argh, bara í dag og á morgun, svo farin!!!) bara svo ömur að vera í útlöndum og geta sig hvergi hreyft fyrir blankheitum! og mig sem langar svo í einhver gelluföt til að fara í á rollingatónleikana :-(

annars konar tónleikar í kvöld, óli bróðir og hinir sumaróperusöngvararnir eru að frumsýna krýningu poppeu eftir monteverdi, stelpuferð þangað! við hallveig systir, helga og emily mágkonur borðum hjá hallveigu og mætum svo galvaskar í borgarleikhúsið! mikil tilhlökkun!!!

við unnum rauðvínspottinn uppi í vinnu hjá jóni, jibbííí, 10 rauðvínsflöskur! vona að jón verði ekki alveg búinn með þær þegar við komum frá englandi ;-)

2003-08-14

jæjajæja! komin heim í smá frí frá fríunum, svo london á sunnudaginn!

vestfirðir rokka, eins og alltaf, sólbaðsveður að hluta, eiginlega alltaf sól og hlýtt, stundum strekkingur þannig að í sólbaði í stuttbuxum og flíspeysu, grillað 5 sinnum, sund 6 sinnum, heimsókn til frændfólks 1 sinni, ísafjörður 4 sinnum (alltaf í ríkið nema einu sinni!) ungviðinu og mömmu þeirra tókst að brjóta einn dýrindiskeramíkvasa, undirskál, eldhúskrana (nei, það var ekki mamman sem braut hann!) og vatnskönnu, dugnaður þetta! grilljón gamlar vikur á svæðinu, nærri allar lesnar í sólbaði. 3 grilljónir krækiberja tínd og lítið minna af bláberjum, bæði venjulegum og aðal, evrópa má sko eiga sig og sína hitabylgju fyrir mér! amk þangað til á sunnudag!

en þá verður líka örugglega (!) orðið svalara!

2003-08-03

steik, steik, steik! mannasteik úti í garði hjá mér, eða því sem næst! úff. brill að fá svona veður um verslunarmannahelgina. vonandi áframhald á því.

við vestur á morgun, vonandi að umfí mótið verði búið nógu snemma til að við mætum ekki strollunni á leiðinni. reyndar ólíklegt, við tökum baldur (ferju) og þeir sem fara suðurleiðina verða að vera komnir á brjánslæk áður en báturinn kemur. annars fara örugglega flestir hina leiðina, ekki að ég skilji það, maður er amk klukkutíma lengur!!!

bloggfall í tæpar tvær vikur, er ég hrædd um! nema ég setji niður nokkur orð í fyrramálið áður en við leggjum íann!

2003-08-02

HAAA???

núna eru hlekkirnir komnir á sinn stað og ég gerði ekki neitt!!!??? blogger mega dularfullur! kannski birtast íslensku stafirnir líka eins og fyrir galdra, annars verð ég bara að þýða þá!
búin að tína fullt fullt af rifsberjum, örugglega um 4 kíló, sér ekki högg á vatni á runnunum mínum, brjálaðir! ætla að búa til hlaup, en kem ekki nema tveim kílóum í stóra pottinn minn :-( nenni nú samt ómögulega að sjóða þetta í tvennu lagi! sérstaklega vegna þess að við erum að fara vestur í dýrafjörð á mánudaginn, verðum í burtu í 10 daga. kannski vill hallveig systir fá rifsber!

sund í dag, himneskt

ekki búin að finna út úr því hvers vegna hlekkirnir mínir færðust neðst á síðuna og allir íslensku stafirnir hurfu, grrr!

búin að fá óla bróður til að passa húsið meðan við erum í burtu, eins gott!

2003-08-01

vááá, hvað kann lítið á þetta!

var að reyna að koma upp kommentakerfinu, kannski virkar halló'skan ekki á makka

tókst hins vegar að þurrka út hlekkjadótið mitt urrgh! skoðast síðar!
gónótt og góða verslunarmannahelgi!


ooohhh! dýrðin, maður minn! búin að sitja úti á palli hjá hallveigu systur í dag, krakkarnir að sulla í vaðlauginni, við dauðfegnar þegar af og til dró fyrir sólu! enda sýnir mælirinn minn 24,2 gráður í augnablikinu!

við með matarboð, varla maður hafi lyst á mat, lambalæri, bilun!!!

góða veðrið mætt aftur á svæðið! hvað ætli það endist lengi fram eftir helgi? annars verðum við sko heima um helgina, besta helgi ársins til að vera í reykjavík, maður fær kannski meira að segja stæði fyrir utan húsið sitt við njálsgötuna!!!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?